Ólafsþing

5. Ólafsþing var haldið 22. október 2022 í safnaðarheimili Neskirkju

Dagskrá

09:25–09:30 Þingið sett

9:30–10:00 Matteo Tarsi: ‘Læra’ og ‘kenna’ í germönsku

10:00–10:30 Jón Símon Markússon: Er eitthvað að marka mörkun? Um beygingarþróun færeysku nafnorðanna vøllur og fjørður

10:30-11:00 Þórhallur Eyþórsson: Gotnesk forskeyti – milli indóevrópsku og germönsku

11:00-11:30 Kaffihlé

11:30-12:00 Haukur Þorgeirsson: Nafn Þórs

12:00–12:30 Guðrún Þórhallsdóttir: Fleiri fornnorræn dýraheiti: bassi, gassi — og *hrussi?

 12:30–13:30: Hádegishlé

13:30–14:00 Guðvarður Már Gunnlaugsson: Nokkur orð um Lundarbók

 14:00–14:30 Þorgeir Sigurðsson: Hönd númer 2 í Uppsala-Eddu

14:30–15:00 Helgi Skúli Kjartansson: Margt líkt með skyldum: Hvernig stafsetning Sturlu skýrir tvíhljóðafræði Ólafs

15:00–15:30 Kaffihlé

15:30–16:00 Jón Axel Harðarson: Áletrunin á hjálmi B frá Negau

16:00–16:30 Katrín Axelsdóttir: Ásbjörg besta barn

16:30–17:00 Kristján Árnason: Áherslur og hugsjónir í íslenskri málboðun fyrr og nú

17:00–18:00 Ráðstefnuslit og léttar veitingar

Ólafsþing er haldið í samstarfi við Málvísindastofnun Háskóla Íslands

Útdrættir erinda (eftir stafrófsröð fyrirlesara)

Guðrún Þórhallsdóttir: Fleiri fornnorræn dýraheiti: bassi, gassi — og *hrussi?

Á Ólafsþingi árið 2021 fjallaði ég um sögu nafnorðsins kusi/kussi  ‘kálfur’ og þriðju útgáfu þess, kursi, sem varðveitt er í einum texta, Guðmundar sögu biskups. Í þeim fyrirlestri barst orðið bessi ‘björn’ einnig í tal enda eiga þessi orð það sameiginlegt að koma fyrir rituð með ‘rs’. Nánari athugun hefur beint athyglinni að fleiri dýraheitum sem beygjast veikt og enda á -ssi, m.a. bassi ‘villigöltur, björn’, gassi ‘gæsarsteggur’ og hrússi ‘hrútur’.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um nokkur þessara orða. Meðal annars verður uppruni orðsins bassi ræddur og vægi ritmynda með ‘rs’ í nokkrum handritum, en þær hafa fræðimenn tekið alvarlega og endurgert frg. *barsan- eða *barhsan- á grundvelli þeirra. Einnig verður rætt um þá ályktun Griepentrogs (1995) að orðin kussi, gassi og hrussi [svo] sýni að í orðum með langt sérhljóð og eitt samhljóð á eftir hafi orðið lengdarvíxl sem séu sambærileg við littera-regluna í latínu (breytinguna lītera > lĭttera). Þess konar hljóðregla fær vitanlega ekki staðist nema orðin hafi í raun og veru haft langt rótarsérhljóð og stakt s fyrir breytinguna og orðið hrússi hafi haft stutt sérhljóð að fornu.  

 

Guðvarður Már Gunnlaugsson: Nokkur orð um Lundarbók

Í háskólabókasafninu í Lundi á Skáni er varðveitt eitt fegursta miðaldahandrit sem gert hefur verið á norrænu málsvæði. Það er norsk lögbók sem líklegt er að hafi verið skrifuð í Björgvin snemma á fjórtándu öld. Í handritinu er einnig færeyska Sauðabréfið sem hefur fengið marga fræðimenn til að tengja það við Færeyjar og sumir hafa jafnvel gengið svo langt að kalla það færeyskt. Aðrir hafa ekki gengið svo langt en viljað hafa skrifarann færeyskan og hafa þar með talið handritið hluta af færeyskum málheimildum. Í þessum fyrirlestri verður handritinu lýst og farið yfir sögu þess og hugmyndir manna um þjóðerni þess.

 

Haukur Þorgeirsson: Nafn Þórs

Í Þórsdrápu og Hymiskviðu eru þrír staðir þar sem nafn Þórs kemur fyrir og bragfræðilega mætti búast við tvíkvæðu orði með stuttu fyrra atkvæði. Sumir fræðimenn hafa þar endurgert myndir eins og *Þóarr eða *Þonurr. Aðrir, ekki síst Lindroth („Gudenamnet Tor“, 1916), hafa bent á erfiðleikana við að gera ráð fyrir tvíkvæðri mynd nafnsins í norrænu. Í erindinu verður farið í saumana á bragfræðilegu rökunum fyrir tvíkvæðri mynd og reynast þau sterk. Þá verður metið hvers konar tvíkvæða mynd gæti helst komið til greina að endurgera og bent á mögulegar hliðstæður.

 

Helgi Skúli Kjartansson: Margt líkt með skyldum: Hvernig stafsetning Sturlu skýrir tvíhljóðafræði Ólafs

Í Þriðju málfræðiritgerðinni fjallar Ólafur Þórðarson á einum stað um „límingarstafi í rúnum“. Ætla mætti að það hugtak merki bandrúnir. Svo reynist þó ekki vera heldur vakir fyrir Ólafi tvíhljóðakerfi íslenskunnar, og það íslenska stafrófsins fremur en hljóðkerfisins (tvíhljóðar, ekki tvíhljóð).

Íslensku tvíhljóðana ber Ólafur saman við „diptongi í látínustafrófi“ sem hann skilgreinir raunar hljóðfræðilega, þ.e. sem eiginleg tvíhljóð, og sýnir þar málfræðikunnáttu sem ekki er sótt til aðalheimildar hans, Priscianusar.

Samanburðurinn er um sumt óvæntur, ekki síst að af íslensku tvíhljóðunum sé það um /ei/ sem sagt er „er sá diptongus ekki í látínu“; en sú hæpna staðhæfing er raunar skiljanleg í samhengi Priscianusar.

Hins vegar er engin athugasemd um /ey/, því líkast sem Ólafur þykist þekkja það úr latínu.

Ólafur Halldórsson hefur bent á viss stafsetningareinkenni sem rekja megi til Sturlu Þórðarsonar, sérstaklega að tvíhljóðið /ey/ hafi Sturla tamið sér að rita sem <ev>.

Þessa stafsetningu er ekki ólíklegt að Ólafur Þórðarson hafi notað líka, Sturla jafnvel lært hana af eldri bróður sínum eða þeir báðir af sama skriftarkennara. Það myndi þá skýra hvernig Ólafur gat lagt að jöfnu íslenskt /ey/ og latneskt /eu/, en það er einn af fjórum „diptongi“ Priscianusar.

 

Jón Axel Harðarson: Áletrunin á hjálmi B frá Negau

Árið 1812 fannst í aldingarði við þorpið Negau (nú Ženjak) í Slóveníu hirsla sem hafði að geyma 26 hjálma af etrúskri gerð, nánar tiltekið þeirri gerð sem kennd er við borgina Vetulonia, og eru þeir taldir frá um 500–450 f. Kr. Á einum hjálminum, þ.e. hjálmi ‘B’ eða ‘22’, er áletrunin sem um verður rætt í erindinu.

Á hjálmbarðinu stendur með venetísku letri ritað frá hægri til vinstri: harigastiteiva; þar á eftir koma strik sem að öllum líkindum eru engin rittákn heldur einungis til skrauts. Áletrunin er frá lokum 2. eða upphafi 1. aldar f. Kr. en hjálmurinn er, eins og fram hefur komið, miklu eldri. Túlkun áletrunarinnar er umdeild en yfirleitt er hún talin elsta heimild okkar um germanskt mál. Almenn sátt ríkir um að hún geymi mannsnafnið Harigasti, sett saman úr forliðnum Hari- og viðliðnum -gasti‑. En skoðanir eru skiptar um frekari greiningu orðmyndarinnar. Þess má geta að viðliðurinn hefur verið skýrður sem germönsk, keltnesk, retísk eða latnesk fallmynd. Enn umdeildara er hvernig skýra ber stafarununa teiva en hún er þó oftast talin endurspegla nafn germanska herguðsins sem á norrænu heitir Týr.

Í erindinu verður gerð grein fyrir helstu skýringum á áletruninni auk þess sem frekari stoðum verður rennt undir þá túlkun sem fyrirlesara þykir sennilegust.

 

Jón Símon Markússon: Er eitthvað að marka mörkun? Um beygingarþróun færeysku nafnorðanna vøllur og fjørður

Í færeysku hafa fjölskrúðug stofnsérhljóðavíxl gamalla u-stofna verið jöfnuð út að mestu leyti, sbr. t.d. nf.et. vøllur ~ þf.et. vøll ~ þgf.et. vølli ~ nf./þf.ft. vøllir ~ þgf.ft. vøllum. Þó stingur beyging fær. fjørður í stúf við þessa þróun, en gömlu víxlin hafa haldist auk þess sem minnst tvær nýjar myndir hafa bæst við beygingardæmið, sbr. þgf.et. fjørði, þgf.ft. firðum o.fl. Útjöfnun hefur aðallega verið skoðuð frá tveimur ólíkum sjónarhornum. Önnur nálgunin gerir merkingu, formlegum einkennum og tíðni einstakra mynda hátt undir höfði og er þá gjarnan vísað í svokallaða „mörkun“. Yngri nálgunin gerir ráð fyrir að tíðni ein ráði ferðinni. Merkingarfræðilegur snertiflötur orðanna vøllur og fjørður gerir því samanburð á ólíkri stefnu útjöfnunar tilvalinn, enda vísa fær. vøllur og fjørður hvort til sinnar tegundar af landslagi. Niðurstöður tíðnirannsóknar benda til þess að við beygingarþróun fær. vøllur hafi stofnmyndin nf./þf.et./þgf.ft. vøll– sótt á vegna skorts á afgerandi tíðnimismun milli aðgreindra mynda orðsins. Aftur á móti virðist há staktíðni þgf.et. firði hafa stuðlað að tilurð þgf.ft. firðum við beygingarþróun fær. fjørður vegna tíðrar notkunar stofnmyndarinnar firð– í setningafræðilega samhenginu [í/á/úr FJØRÐURþgf.]. Nú er yngri þgf.ft. firðum langtum tíðari en eldri fjørðum og því innihalda sjálfgefnar myndir fleirtölunnar stofnmyndina firð-, sbr. nf./þf.ft. firðir, þgf.ft. firðum. Færð verða rök fyrir því að eftir tilurð yngri þgf.ft. firðum hafi myndast tengsl milli formsins firð– og merkingarinnar fleirtölu sem varð svo hvatinn að tilraun til að greina að eintölu og fleirtölu með formlegum hætti: et. fjørð– gegn ft. firð‑. Þó hefur yngri þgf.et. fjørði aldrei náð verulegri fótfestu í færeysku sökum samkeppni við eldri þgf.et. firði sem hefur alltaf verið rótfastari vegna hárrar tíðni.

 

Katrín Axelsdóttir: Ásbjörg besta barn

Rúnaáletranir geta verið erfiðar viðfangs. Letrið getur verið máð, ristan sködduð og samhengið er kannski ekki þekkt. Þá kann sá sem risti að hafa gert mistök sem torvelda skilninginn. En einnig er til að rúnameistarar villi af ásettu ráði fyrir lesandanum, með því að víkja frá hefðbundnu rúnaletri. Þá er talað um dulrúnir (e. cryptic runes, n. lønnruner, þ. Geheimrunen). Ýmsar leiðir var hægt að fara í þessu skyni og tilgangur dulrúna virðist hafa verið margvíslegur (Nordby 2018).

Þótt borin hafi verið kennsl á ýmsar dulrúnaaðferðir liggur ekki alltaf ljóst fyrir að um dulrúnir sé að ræða yfirleitt. Á hinn bóginn er stundum nokkuð greinilegt að um tiltekið kerfi eða aðferð sé að ræða en ristan er þó engan veginn auðtúlkuð. Eitt slíkt tilvik er á rúnakefli frá Bryggjunni í Bergen (B660). Hún hefst á orðunum aspiørg5hitpæstaparn, ‚Ásbjörg hið besta barn‘, sem rituð eru með venjulegu rúnaletri og auðskilin. Það sem kemur næst er rist með dulrúnum og erfiðara viðureignar. Í fyrirlestrinum verður litið á þessa ristu og nokkrar aðrar sem hún á sitthvað sameiginlegt með.

Nordby, K. Jonas. 2018. Lønnruner. Kryptografi i runeinnskrifter fra vikingtid og middelalder. Institutt for lingvistiske og nordiske studier, Universitetet i Oslo, Osló.

 

Kristján Árnason: Áherslur og hugsjónir í íslenskri málboðun fyrr og nú

Vel má halda því fram að þeir frændur Snorri Sturluson og Ólafur hvítaskáld, að ógleymdum og öðrum málfræðingum miðalda, hafi verið eins konar áróðursmenn fyrir viðgangi íslenskrar tungu, sem þá var reyndar kölluð norræna. Þeim fannst ástæða til að státa af þeim arfi sem fólst í skáldskap og sögnum og höfðu hugmyndir um gæði málnotkunar. Þessi þráður var spunninn áfram í siðaskiptum og „málhreinsun“ nítjándu aldar.  Í bland við háleitar hugmyndir um merkilegan arf er svo óttinn við dauðann, að íslensk tuga deyi út, annað hvort úr innanmeini vegna lélegrar málnotkunar, eins og Eggert Ólafsson var hræddur um, eða vegna þess að aðrar tungur tækjust á við hana og felldu í eins konar einvígi.

Nú á tímum virðist mér vera á ferðinni einhver blanda af dauðaóttanum (talað um stafrænan dauða) og þess sem kalla má málsiðfræðilegan boðskap. Því er haldið fram að strangar formkröfur skapi ótta við íslenskt móðurmál, og að það sé kúgunartæki.  Allt er þetta í bland við vinsælar kenningar um algilda málkunnáttu. Ég mun velta fyrir mér hvað hinar nýju hugmyndir eiga sameiginlegt þeim eldri. Einnig má spyrja hvort líklegt sé að umræður af þessu tagi muni hafa einhver áhrif til eða frá um það sem kalla mætti „örlög“ íslenskrar tungu eða formþróun hennar. Hvað felst í uppástungum um að kominn sé tími til að taka upp nýjan málstaðal?

 

Matteo Tarsi: ‘Læra’ og ‘kenna’ í germönsku

Þrátt fyrir að gotneska varðveiti alla fjóra flokka veikra sagna, hefur hún enga -nō/na-sögn í merkingunni ‘læra’. Að breyttu breytanda gildir hið sama um norrænu. Vesturgermanska er eina grein germönskunnar sem varðveitir slíka sögn, frg. *liz-nō/na- > fe. leornian, fsax. līnōn (með r-brottfalli og uppbótarlengingu), lernōn, fhþ. lernōn, (→) lernēn, lirnēn, o.s.frv. Þessi útkoma myndar frávik þar sem -nō/na-sagnir eru frjór flokkur einungis í gotnesku og norrænu þannig að búast hefði mátt við allt annarri útkomu.

Merkingin ‘kenna’ er nokkuð tengd ‘læra’, og sagnir í báðum merkingum má rekja til ie. *leis- ‘læra’ (upprunaleg merking sagnarinnar í germönsku, orðin til úr ‘fylgja’, sbr. le-lói̯s/lis‘hafa fylgt’ (perfektstofn) > ‘vita’ og að breyttu breytanda fgr. οἶδα ‘ég veit’, gotn. witan, físl. vita o.s.frv. úr ie. *u̯oi̯d- ‘hafa séð’ (perfektstofn) > ‘vita’. Sagnir í merkingunni ‘kenna’ myndaðar af þessari rót í germönsku er að finna í gotnesku (laisjan [með analógísku s-i eftir núþálegu sögninni lais, LIV2, s.r. *lei̯s-]) og vesturgermönsku (fe. lǣran, fsax. lērian, fhþ. lēren o.s.frv.). Þessar sagnir, sem rekja má til frg. *laiz-ija-, kallast orsakarsagnir (eða orsökunarsagnir) og þýða ‘láta/gera X’, þar sem X er grunnmerking rótarinnar.

Norræna sögnin læra er tökuorð úr fornensku og var upprunaleg merking hennar ‘kenna’ (sjá t.d. Spakmæli Prospers [hdr. frá fyrsta fjórðungi 13. aldar] þar sem í latínu segir doceat  ‘kenni hann’ en á norrænu lęri, ONP, u.o. læra). Hin merkingin þróaðist seinna, e.t.v. vegna tengsla á milli norrænu og mála á borð við miðensku og miðlágþýsku. Miðmyndin lærask var notuð um 1200 í merkingunni ‘læra’ (sjá t.d. Íslensku hómilíubókina af boka lestre læromc ver, ONP, u.o. læra). Miðmyndin í norrænu er sambærileg við gotn. laisjan sik annars vegar og sæ. lära sig hins vegar.

En staða þessa merkingarpars í germönsku er nokkuð flóknari, þar sem a.m.k. fimm aðferðir hafa verið notaðar til að tákna merkingarnar tvær.

Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir hvaða aðferðir germönsk mál hafa notað til að tákna merkingarnar ‘læra’ og ‘kenna’. Í lokin verður stuttlega drepið á stöðu þessara merkinga í indóevrópsku málafjölskyldunni í aldanna rás.

 

Þorgeir Sigurðsson: Hönd númer 2 í Uppsala-Eddu

Öll handrit Snorra-Eddu eru frá 14. öld eða síðar. Uppsalabók og Konungsbók eru frá byrjun aldarinnar. Í Uppsalabók eru yngri rithendur. Anders Grape [1] telur eina þeirra vera frá 14. öld. Hún kemur fyrir á eftirtöldum síðum  8:27-28, 9, 12:19, 21: 26-28, 71, 78, 79, 79:7 og 80. Eigandi handarinnar hefur þekkt innihald annarrar gerðar Snorra-Eddu, sem sést t.d. á heitinu Eikþyrnir sem er Takþyrnir í SE (Gylfaginningu) í U. Hönd 2 bætir nafninu Eikþyrnir við nöfn hinda í Skáldskaparmálum SE U í línu 7 á bls. 79 og skrifar hindaheiti á spássíu. Hönd 2 bætir við meira en 100 heitum í Snorra-Eddu Uppsalabókar. Sum koma aðeins fyrir í þulum í einu handriti. Á blaðsíðu 8 er stef í Völuspá skammstafað (ranglega) án þess að hafa komið fyrir áður. Stefið er ekki annars staðar í U. Hönd 2 skrifar texta stefsins neðanmáls.

Í Skáldatali í U er síðasti Noregskonungur Eiríkur Magnússon (d. 1299), en yngri hönd bætti við tveimur næstu konungum. Hönd 2 hefur líklega skrifað þrjár dróttkvæðar vísur á fyrstu síðu U. Sú fyrsta gæti verið kveðin fyrir munn Baldurs i Helheimum. Grape taldi höndina á þessum vísum vera frá 15. öld og sama hefur ranglega verið sagt um höndina sem skrifaði fyrsta vísuorð Rígsþulu á bls. 42. Það er hvergi annarsstaðar nema í Wormsbók og er réttara hér [2].

Hönd 2 líkist hönd Einars Hafliðasonar en fer þó öðruvísi með áherslulaus sérhljóð. Á Ólafsþingi 2022 og í nýrri útgáfu Hins íslenska fornritafélags á Snorra-Eddu verður gerð grein fyrir ofantöldu.

[1] Grape et al. (eds). 1977. Snorre Sturlassons Edda. Uppsala-handskriften DG 11. Transkriberad text och Paleografisk kommentar av Anders Grape, Gottfried Kallstenius och Olof Thorell. Inledning och Ordförråd av Olof Thorell. Uppsala: Almquist och Wiksell.

[2] Finnur Jónsson. 1884–91. Småstykker 1–16. København: SUGNL.

 

Þórhallur Eyþórsson: Gotnesk forskeyti – milli indóevrópsku og germönsku

Í þýsku nútímamáli eru sagnarforskeyti ýmist föst eða laus (þ. ertrinken ‘drukkna’ en austrinken ‘klára að drekka’, sbr. Sie ertrinkt ‘hún drukknar’ en Er trinkt aus ‘hann drekkur (glasið) í botn’). Í norrænum málum féllu föstu forskeytin snemma brott en leifar þeirra er þó enn að finna í stirðnuðum orðmyndum og í „fylliorðinu“ fræga í forníslensku (ögnunum of og um). Á grundvelli samanburðar við önnur forngermönsk mál, gotnesku, fornensku, fornsaxnesku og fornháþýsku, er ljóst að slík forskeyti hljóta að hafa verið til í germönsku á elstu tíð. Eins og best sést í gotnesku voru forskeyti sem samsvara föstu forskeytunum í þýsku ekki alveg samvaxin við sögnina, þar sem henglar (en ekki önnur orð) gátu fleygað forskeytta sögn þegar hún var í tiltekinni setningafræðilegri stöðu (gotn. ga-saihvan ‘sjá’, us-gaggan ‘fara (burt)’ sbr. frah ina ga-u-hva-sehvi ‘hann spurði hann hvort hann sæi nokkuð’, uz-uh-iddja fram attin ‘og ég fór frá föðurnum’). Þó að slíkt eigi sér ekki hliðstæðu í germönskum nútímamálum koma svipuð „hálf-föst“ forskeyti fyrir í öðrum fornlegum málum, t.d. fornírsku og litháísku. Hins vegar hafa sagnarforskeyti í elstu indóevrópsku málunum, einkum hettítísku, vedískri sanskrít og hómerskri grísku, meira sjálfstæði en í málum eins og gotnesku. Í þessu erindi lýsi ég fyrirbærum af þessu tagi og útlista þróun „innlimunar“ (e. incorporation) forskeyta í nokkrum fornum indóevrópskum tungumálum. Í lokin mun ég reifa hugmyndir um gildi forskeyttra sagna í indóevrópskum málum fyrir endurgerð forsögulegs málstigs, ekki aðeins að því ert snertir orðmyndun heldur líka setningagerðir þar sem forskeyttar sagnir koma fyrir.

4. Ólafsþing var haldið 23. október 2021 í safnaðarheimili Neskirkju

Dagskrá:

08:55-09:00

Þingið sett.

09:00-10:30

Auður Hauksdóttir: Tengsl íslensku, færeysku og norsku við dönsku

Guðvarður Már Gunnlaugsson: Röð sagnanna í Möðruvallabók

Már Jónsson: Villur og leiðréttingar í Staðarhólsbók (AM 334 fol.)

10:30-11:00

Kaffihlé

11:00-12:30

Jón Friðjónsson: Tefldu í túni … Skák eða manntafl í fornu máli

Guðrún Þórhallsdóttir: „Dauðr er kursi, faðir!“ „Óvæntur“ rs-ritháttur og tilbrigðin kursi/kussi/kusi ‘kálfur’

Jón Axel Harðarson: Áhrifsmyndanir í forsögu íslenska sagnkerfisins

12:30-13:30

Matarhlé

13:30-15:30

Haukur Þorgeirsson: Hrynjandi í kveðskap á latínu og norrænu

Yelena Sesselja Helgadóttir: Endarím mætir stuðlum – í annað sinn

Kristján Árnason: Hljóðkerfisbylting í að því er virðist stöðugu beygingarkerfi

Helgi Skúli Kjartansson: Að heyra erkibiskups boðskap – í tvítölu

15:30-16:00

Kaffihlé

16:00-17:00

Margrét Jónsdóttir: Um nafn á húsi

Aðalsteinn Hákonarson: Græns-örnefni

17:00-18:00

Léttar veitingar

Útdrættir Erinda (í stafrófsröð)

Aðalsteinn Hákonarson: Græns-örnefni

Litarorðið grænn kemur fyrir sem forliður í hundruðum íslenskra örnefna, venjulega í stofnmynd, s.s. Grænhóll, eða veikri mynd, s.s. Grænihryggur. Einnig eru dæmi um að sterk eignarfallsmynd myndi forlið, s.s. Grænsdalur, en slíkar samsetningar virðast ekki í samræmi við almennar orðmyndunarreglur málsins. Fundist hafa tíu dæmi um Græns-nöfn (afleidd nöfn ekki meðtalin) og sýnir nánari athugun að í öllum tilvikum er sami staður einnig þekktur undir Grens-nafni, s.s. Grensdalur. Í nokkrum tilvikum benda heimildirnar sterklega til þess að Grens-nafnið sé upphaflegt og virðist rétt að álykta að Græns-nöfnin séu almennt orðin til við breytingu úr Grens-nöfnum. Breyting forliðarins Grens– í Græns– virðist vera endurtúlkun af því tagi sem nefnd er alþýðuskýring og er óvenjulegt finna að svo mörg dæmi um sams konar breytingu af þeirri gerð. Í erindinu verður sagt frá rannsókn á Græns-nöfnum og hugað að þýðingu þeirra í víðara samhengi.

Auður Hauksdóttir: Tengsl íslensku, færeysku og norsku við dönsku

Ísland, Færeyjar og Noregur eiga það sameiginlegt að hafa átt í langvarandi sambandi við Danmörku. Löndin þrjú urðu hluti af dansk-norska konungsríkinu við stofnun þess undir lok fjórtándu aldar og þau voru hluti af Kalmarsambandinu á tímabilinu 1397-1523. Af þessum sökum voru íslenska, færeyska og norska í margvíslegum tengslum við danska tungu og menningu frá því um 1380 og fram yfir aldamótin 1800, þegar leiðir norsku og dönsku skildi. Norrænu tungurnar þrjár eru af sama meiði, en þær þróuðust með ólíkum hætti eftir því sem tímanum vatt fram. Í því sambandi skiptu tengslin við aðrar tungu miklu máli.

Af ýmsum ástæðum voru tengsl málanna þriggja við dönsku á margan hátt ólík, bæði hvað varðar eðli (karakter) þeirra og umfang (intensitet), en þessir þættir skipta sköpum fyrir áhrif (effekt) aðkomumálsins á viðtökumálið. Rannsóknir sýna að ýmsar ytri aðstæður, sem vörðuðu tengslin við dönsku, höfðu mikil áhrif á stöðu íslenskrar, færeyskrar og norskrar tungu í málsamfélaginu, m.a. með tilliti til hvernig og í hvaða tilgangi tungurnar voru notaðar í málsamfélaginu og með hvaða hætti þær þróuðust.

Í fyrirlestrinum verður varpað ljósi á ýmsa ytri þætti er varða tengsl íslensku, færeysku og norsku við dönsku frá því um siðaskipti og fram til um aldamótin 1800. Ólík tengsl tungumálanna við dönsku verða dregin fram, gerð verður grein fyrir einkennum þeirra og rætt hvernig þau höfðu áhrif á vöxt og viðgang málanna.

Guðrún Þórhallsdóttir: „Dauðr er kursi, faðir!“ „Óvæntur“ rs-ritháttur og tilbrigðin kursi/kussi/kusi ‘kálfur’

Í nýlegri orðsifjabók germanskra mála tengir Guus Kroonen nafnorðið kursi ‘kálfur, sem varðveitt er í Guðmundar sögu biskups, við orð í sanskrít og tokkarísku og túlkar þau sem samsett úr frie. *gw(e)h3‘kýr’ og *ursén- ‘karlkyns (dýr)’. Þannig megi gera ráð fyrir frumgermanska nafnorðinu *kursan- sem físl. kursi sé komið úr. Þessi skýring keppir við eldri hugmynd um myndun nafnorðsins kusi af stofni orðsins kýr með gæluviðskeyti, en það kemur einnig fyrir ritað kussi.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um tengsl myndanna kursi, kussi og kusi og valið á milli framangreindra skýringa. Til þess að svo megi verða verður óhjákvæmilega rætt um hljóðbreytinguna rs > ss og ummerki um hana í handritum. Þar koma við sögu eldri og yngri myndir á borð við fors og foss, þar sem skrifarar rita ‘foss’ í samræmi við yngri framburð, og einnig orðmyndir með rs á undan samhljóði, t.d. efsta stigs myndir á borð við fyrst sem er einnig ritað ‘fyst’. Enn forvitnilegri eru dæmi um „óvænt“ rs ritað í orðmyndum eins og fn. ‘þersi’ (í stað þessi) og þf. et. ‘mersv’ (í stað messu) sem kalla má öfuga stöfun. Þær vekja spurningar um ritvillur nú á dögum því að skrifarar fyrri alda og Íslendingar á 21. öld eru í svipuðum sporum: Er mikið um að fólk skjóti r inn á undan s þar sem það á ekki heima?

Guðvarður Már Gunnlaugsson: Röð sagnanna í Möðruvallabók

Möðruvallabók sem hefur safnmarkið AM 132 fol. er stærsta varðveitta miðaldasafn Íslendingasagna — alls 200 blöð á bókfelli — og þekktasta handrit þeirra; hún er talin skrifuð um miðja fjórtándu öld. Á henni eru 11 sögur og er hún aðalhandrit flestra sagnanna og í mörgum tilvikum eina miðaldahandritið sem hefur að geyma þær heilar. Af því leiðir að hún er eitt mikilvægasta handrit Íslendinga.

Af þessum 11 sögum eru Brennu-Njáls saga, Egils saga Skallagrímssonar og Fóstbræðra saga ekki varðveittar heild sinni. Það hafa týnst nokkur blöð framan af Njáls sögu en í staðinn hafa verið sett skinnblöð frá 17. öld svo að það vantar nánast ekki neitt í texta sögunnar. Að auki hafa týnst mörg blöð aftan af Fóstbræðra sögu. Njáls saga er nú fremst í handritinu en Fóstbræðra saga er aftast. Njáls saga endar á recto-síðu aftasta blaðs í kveri og er afgangur blaðsins auður. Egils saga hefst á verso-síðu fremsta blaðs í næsta kveri en fremsta síðan er auð. Þessi atriði vekja upp grunsemdir um að röð sagnanna kunni að hafa verið önnur þegar handritið var skrifað.

Í fyrirlestrinum verður farið yfir röð sagnanna í Möðruvallabók og færð rök fyrir því að upphafleg röð þeirra hafi ekki verið sú sama og nú, heldur hafi Egils saga átt að vera fremst í handritinu og Njáls saga hafi sennilega rekið lestina.

Haukur Þorgeirsson: Hrynjandi í kveðskap á latínu og norrænu

Ákveðin líkindi má greina milli þeirrar braglistar sem iðkuð var í Rómaveldi hinu forna og germansks brags eins og við þekkjum hann í heimildum frá miðöldum. Hans Kuhn taldi óvíst hvort um væri að ræða sameiginlegan arf, áhrif tilkomin á þjóðflutningatímanum eða jafnvel einskæra tilviljun (Das Dróttkvætt, bls. 55). Í erindinu verður farið í saumana á þessum líkindum og ekki síst þeirri togstreitu sem skapast þegar bragurinn tekur bæði tillit til áherslu og lengdar atkvæða. Líkindin í þessum efnum kunna að vera nánari en Kuhn gaf til kynna. Hverjar sem orsakirnar eru getur samanburðurinn varpað nokkru ljósi á listfengi forns kveðskapar.

Helgi Skúli Kjartansson: Að heyra erkibiskups boðskap – í tvítölu

Ein lykilheimild Íslandssögunnar á seinni hluta 12. aldar, sem sagnfræðingar hafa iðulega vitnað til, er umvöndunarbréf Eysteins erkibiskups, væntanlega frá 1180 (Ísl.fornbrs. I, bls. 260–263). Þar ávarpar hann íslenska höfðingja með nafni, ýmist fimm eða tvo, og segir þeim eftirminnilega til syndanna fyrir „óhreinlífi … og kvennafar“ og að lifa „búfjárlífi“.

Bréfið er væntanlega samið á latínu en virðist þýtt á Íslandi (trúlega á vegum Þorláks biskups til birtingar á Alþingi). Það er varðveitt í einu handriti, skinnbók frá seinni hluta 15. aldar. Ýmislegt virðist brenglað í uppskriftinni og beygingum breytt að hluta til yngra málstigs. Þó bregður fyrir tvítölu persónufornafns og eignarfornafns (þið, ykkar) við hlið fleirtölu (þér, yðvar) en nokkuð óreglulega, og hafa túlkendur heimildarinnar ekki gefið gaum að þeirri málnotkun.

Nú hlýtur íslenskur þýðandi um 1180 að hafa gert skýran greinarmun tvítölu og fleirtölu og notað tvítöluna því aðeins að hann telji tvo menn ávarpaða, þ.e. Jón Loftsson og Gissur Hallsson. Afritarar, sem sjálfum var tamt að nota gömlu tvítölumyndirnar sem hversdagslega fleirtölu (þúun) en gömlu fleirtölumyndirnar sem viðhafnarfleirtölu (þérun), eru mun líklegri til að breyta þúun í þérun, þegar það er sjálfur erkibiskupinn sem hefur orðið, en öfugt.

Þannig má ætla að erkibiskup, eða a.m.k. hinn íslenski þýðandi hans, hafi beint að þeim Jóni og Gissuri drýgri hluta af umvöndununum en við blasir af textanum eins og nútímamaður les hann. Það mættu sagnfræðingar gjarna hugsa út í þegar þeir túlka þessa merkilegu heimild.

Jón Friðjónsson: Tefldu í túni … Skák eða manntafl í fornu máli

Í erindinu verður fyrst vikið að tvenns konar heimildum, annars vegar að málheimildum og hins vegar að sögulegum eða sagnfræðilegum heimildum. Hvorar tveggja eru mikilvægar en í eðli sínu ólíkar. Í erindinu verður nánast alfarið stuðst við raunveruleg dæmi úr traustum heimildum, þ.e. málheimildir. Þess ber og að geta að vísað hefur verið til vitnisburðar fornleifafræði til að ákvarða aldur manntafls í menningarsögu Norðurlanda og þá sem heimildar um orðfræði, þ.e. um aldur heita einstakra taflmanna. Sú slóð verður ekki fetuð í erindinu.

Áður en komið verður að meginefni erindisins, mállegum heimildum um manntafl, er nauðsynlegt að víkja stuttlega að ólíkum borðtöflum, einkum að hneftafli. Hneftafl er talið eldra en manntafl og var það algengt víða á Norðurlöndum enda er þess víða getið í fornum ritum.  Besta hugmynd um hneftafl má fá af Heiðreksgátum í Hervarar sögu, Friðþjófs sögu frækna og fornleifum (kuml í Baldursheimi). Í erindinu verður fjallað nokkuð um málleg dæmi um hneftafl en þó einkum staldrað við orðfæri er því tengist en það er um margt mjög frábrugðið ‘skákmáli’.

Elstu sögulegar heimildir um manntafl á Íslandi munu vera frá fyrsta þriðjungi 12. aldar (1130) en textinn er talinn vera tæpum tveimur öldum yngri (1275). Elstu mállegar heimildir um manntafl eru frá miðri 13. öld (Ólafs saga helga hin mesta, bls. 443). Þar segir frá því er Knútur ríki lék að skáktafli við Úlf jarl mág sinn og lauk þeim viðskiptum með því að Knútur lét drepa Úlf. Þetta á að hafa gerst árið 1027, þ.e. áður en manntafl varð almennt á Norðurlöndum. Því hafa sumir gert því skóna að þeir Knútur og Úlfur hafi setið að hneftafli. Lýsing Ólafs sögu helga á því tafli sem þeir Knútur og Úlfur tefldu getur þó alls ekki átt við hneftafl en kemur vel heim við manntafl. Þetta má ráða af orðfæri og einstökum orðum.

Skáktafls er víða getið í fornu máli óbundnu, t.d. í Íslendinga sögum, Konungasögum, Fornaldarsögum, Biskupasögum og Riddara sögum. Ein merkasta heimild um skáktafl er Ólafs saga helga sem áður var getið. Þar er í skömmu máli getið viðureignar þeirra Knúts ríka og Úlfs jarls við skákborðið og ber lýsingin það með sér að hún hlýtur að eiga rætur í alllangri hefð. Önnur merk heimild um manntafl er Mágus saga jarls. Hún er kunn í tveimur gerðum, eldri mynd og styttri annars vegar (í afriti frá upphafi 14. aldar) og lengri gerð og yngri (frá fyrsta þriðjungi 16. aldar). Einungis verða tilfærð dæmi úr eldri gerðinni.

Í erindinu verður sjónum beint að orðfæri sem tengist manntafli. Annars vegar verður litið á föst orðasambönd úr ‘skákmáli’ notuð í beinni merkingu, t.d.:

leika að skáktafli; leika fingurbrjót (mikinn); skáka mann af e-m; ráða tafl með e-m; tafl e-s er (mjög) farið; bera aftur tafl e-s; svarfa/róta tafli o.fl.

Hins vegar verður litið á föst orðasambönd úr ‘skákmáli’ í óbeinni merkingu, t.d.:

hafa áhöld við e-m; tefla í uppnám; tefla e-m upp; vera upp tefldur; það hallar á e-n.

Að lokum verður vikið að heitum fjögurra af sex taflmanna. Alkunna er að íslenska og enska eiga það sameiginlegt að nota sömu eða svipuð heiti um tiltekna taflmenn andstætt dönsku, norsku, þýsku o.fl. sem nota önnur orð, sbr.:

  •  biskup (f14), e. Bishop (m16), d. løber, þ. Läufer;
  • hrókur (f14), e. Rook (rok um 1330), d. tårn, þ. Turm;
  • riddari (ms13), e. Knight (um 1330), d. springer, þ. Springer;
  • peð (m16), e. Pawn (poune um 1369), d. bonde, þ. Bauer.

Heimildir sýna að samsvörun er á milli heitanna í íslensku og ensku, sbr.:

  •  The Compact Edition of the Oxford English Dictionary. Complete Text reproduced micrograpically. Oxford 1971.
  • Ordbog over det danske sprog. Historisk ordbog 1700-1950.
  • Der deutscheWortschatz von 1600 bis heute.

Niðurstaða

Elstu frásögn um skáktafl á Norðurlöndum er að finna í Ólafs sögu helga hinni mestu en þar segir frá viðureign þeirra Knúts ríka og Úlfs jarls sem lyktaði með ósköpum. Sagnfræðilega er þar vísað til atburða frá upphafi 11. aldar (1027) en sem málleg heimild er sami texti frá miðri 13. öld (1250-1300). Hvað málsögu og orðfræði varðar virðist einsýnt að miða við málheimildir. Að umræddu textabroti er ekkert nýjabragð enda um afrit að ræða og lesbrigðin benda einnig til fjölbreytileika.

Jón Axel Harðarson: Áhrifsmyndanir í forsögu íslenska sagnkerfisins

Hljóðbreytingar og áhrifsmyndanir tilheyra eins og kunnugt er mikilvægustu orsakarvöldum málbreytinga. Oft gerist það að samræmisáhrif eða svokölluð analógía grípi inn í kerfisbundnar hljóðbreytingar eða „hljóðlögmál“. Þannig séð er analógían truflandi þáttur í málþróuninni. Engu að síður gegnir hún normatífu hlutverki og myndar andstæðu við anómalíu eða óreglu. Sambandi hljóðbreytinga og áhrifsmyndana er oft lýst á þennan hátt: hljóðbreyting er regluleg en veldur óreglu; áhrifsmyndun er óregluleg en veldur reglu. (Þetta er stundum nefnt „þversögn Sturtevants“).

Hljóðbreytingar geta sem sé valdið óreglu innan beygingardæma eða breytt þeim þannig að upp koma myndbrigði (allómorf), sbr. hann/hún fer, við förum, þeir/þær fara. Hér hafa hljóðbreytingar leitt til þess að sögnin fara hefur í framsöguhætti nútíðar rótar- eða stofnmyndbrigðin far-, fer-, för-. Annað dæmi er sögnin bjóða sem í sömu formdeild hefur myndbrigðin býð- og bjóð- en þau eru einnig tilkomin vegna hljóðbreytinga. Andstætt hljóðbreytingum sem oft valda fjölgun myndbrigða eða óreglu innan beygingardæma stuðla áhrifsmyndanir iðulega að fækkun myndbrigða og meiri reglu innan beygingardæma. Sem dæmi má nefna sögnina gefa sem við hljóðrétta þróun hefði sennilega átt að fá eftirtaldar beygingarmyndir í nútíð framsöguháttar í fornvesturnorrænu: eint. 1. *giof, 2. *gifr, 3. *gifð, fleirt. 1. *giofum, 2. *gifð, 3. gefa. Samkvæmt þessu hefðu allar persónumyndir átt að sæta ýmist u-klofningu eða i-hljóðvarpi að undanskilinni mynd 3. p. flt. sem vegna nefjaðs a í endingu hélt rótarsérhljóði sínu. En beygingardæmið sem fornnorræna hafði leit hins vegar svona út: eint. 1. gef, 2. gefr, 3. gefr, fleirt. 1. gefum, 2. gefið, 3. gefa. Hér hafa ýmsar breytingar orðið sem hafa leitt til mikillar reglu innan beygingardæmisins.

Í erindinu verður vikið að ýmsum áhrifsmyndunum í forsögu íslenska sagnkerfisins.

Kristján Árnason: Hljóðkerfisbylting í að því er virðist stöðugu beygingarkerfi

Nútíma íslenska hefur sem kunnugt er ekki jafn skýran greinarmun og fornmálið milli áhersluatkvæða (sem gjarna mynda rætur) og áherslulausra atkvæða (sem gjarna mynda beygingarendingar). En þrátt fyrir þessa breytingu má halda því fram að orðhlutahljóðkerfislega (morfófónemískt) sé enn býsna skýr greinarmunur stofna og endinga. Auðvelt er að greina orðmyndir eins og hest-ur, hest-a, hest-um í rót (stofn) og endingu. Það er athyglisvert einkenni, sem oft er horft framhjá, að mikið til sömu endingar eru notaðar í nafnyrðum og sögnum: drep-ur, drep-a, drep-um, drap-st  o.s.frv. Endingarnar hafa skýr sameiginleg hljóðskipunarleg einkenni, en merking þeirra ræðst af aðstæðum. Þær eru því ekki merkingarbærar, heldur merkingargreinandi. Halda má því fram að þetta fyrirkomulag hafi styrkst við tilkomu nýrra norrænna beygingardæma, annars vegar viðskeytts greinis: hest-urinn, hest-inn  og hins vegar miðmyndar: kalla-st, drepa-st, drap-st. Viðskeytti greinirinn og miðmyndarendingin eiga sér sem kunnugt er rætur í hengilmyndum (viðhengjum, e. clitics) gamalla fornafna sik og hinn. Og meðan það var gagnsætt var hægt að tala um merkingarbærni, en nú virðast þetta bara merkingargreinandi endingar. Þetta tengist allt með óbeinum hætti hljóðdvalarbreytingunni, sem hafði sem aukaverkun hrynræn áhrif sem bundu enda á hina gömlu flokkun fullburða og takmarkaðra atkvæða. Á 16. öld taka beygingarendingar að ríma sem stúfar, og um svipað leyti fara orðmyndir með ákveðnum greini að geta myndað lokatvíliði í kveðskap, en það tengist hvarfi aðgreinandi markatóns eða „tónkvæðis“ (samsvarandi aksent 1 í skandinavísku). Þarna hefur orðið hljóðkerfisbylting, þannig að hljóðreglur (fónólógískar reglur) breyttust í orðhlutahljóðreglur (morfófónemískar reglur); henglar urðu endingar.  Þótt þessi bylting hafi átt sér stað virðist beygingarkerfið að miklu leyti standa óbreytt á yfirborðinu. Ef horfst er í augu við þá staðreynd að beygingarendingar hafa ekki eiginlega merkingu verða nýlegar greiningar í anda generatívrar málfræði ekki sannfærandi.

Margrét Jónsdóttir: Um nafn á húsi

Í þéttbýli nokkru á landsbyggðinni var á þriðja áratug síðustu aldar reist myndarlegt hús. Það stóð á hól, jafnvel frekar holti. Eins og þá var siður fékk húsið nafn enda þótt (í sumum heimildum) fengi það að auki númer enda við götu. Nöfn sem fundist hafa í opinberum gögnum eru þessi: Hjalt (eitt dæmi), Hjölt, Hjöltu, Hjaltir og () Hjöltum.[1] Af gamalli heimild má þó ráða að upphaflega hafi nafnið átt að vera Hjölt.[2] Hér verður eintalan Hjalt látin liggja á milli hluta. En óvissan með nafnið (í fleirtölu) stað­festir það sem vitað er að til hússins og íbúa þess var alltaf vísað með þágufalls­myndinni Hjöltum.[3]

Margir fræðimenn gera ráð fyrir því að birtingarform áhrifsbreytinga sé ekki hið sama meðal samnafna annars vegar og sérnafna/örnefna hins vegar.[4] Samkvæmt því er nefnifall samnafna hið ómarkaða fall, grunnmynd sem hefur áhrif á önnur föll innan beygingar­­dæmisins. Hjá sérnöfnum er það hins vegar staðarfallið (þágufallið); það er hið sértæka, háð hlutverki og merkingu. En þar sem þágufallið Hjöltum vísar ekki til kyns og því margrætt verður nefnifallið ekki ótvírætt, getur jafnt verið Hjölt, Hjöltu og Hjaltir.[5] En af margræðninni leiðir m.a. að þágufallið er jafn mikið notað og raun ber vitni; þar skiptir merkingin líka máli.

Um allt þetta verður rætt í erindinu en einnig hvort merkingin sé sú hin sama og samnafnsins.

Helstu heimildir:

  • Croft, William. 2003. Typology and Universals. Cambridge: Cambridge University Press.
  • Haraldur Bernharðsson. 2004. Um Moldhaugnaháls út í Fjósa og Fjörður. Af áhrifs­              breytingum í nokkrum fleirtöluörnefnum. Íslenskt mál 26:11‒48.
  • Katrín Axelsdóttir. 2015. Beyging og merking orðsins hjalt. Orð og tunga 17 (2015):95‒    114.
  • Laxdæla saga. 1934. Laxdæla saga. Halldórs þættir Snorrasonar. Stúfs þáttr. Einar Ól.
  •    Sveinsson gaf út. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Mańczak, Witold. 1958. Tendances générales des changements analogiques. Lingua 7: 387‒   420.
  • Nilsson, Jan. 1975. Plurala ortnamn på Island. Morfologiska iakttagelser. Umeå: Umeå    Studies in the Humanities 8.
  • Tiersma, Peter Meijes. 1982. Local and General Markedness. Languages 58:832‒849.

[1] Fleirtöluformin hjölt og hjöltu eru þau sömu og samnafnsins hjalt; um samnafnið sjá grein Katrínar Axelsdóttur (2015). Með tilvísun til Íslenskrar orðabókar segir Katrín (bls. 95) um hjaltir einungis að það sé fleirtala af kvenkynsorðinu hjölt og sé fornt/úrelt. Því er við að bæta að við lestur greinar Katrínar kviknaði hugmyndin að þessum fyrirlestri.

[2] Í íslensku eru bæjarnöfn mjög oft í fleirtölu, t.d. Húsar (kvk.flt. en hvk.et), sjá Nilsson (1975), einnig Harald Bernharðsson (2004) en hjá honum er að finna greiningu á ýmissi sérhegðan örnefna. Nafnið Hjaltir gæti verið af sama toga og Húsar en fræðilega séð einnig fleirtala af kvenkynsorði.

[3] Það var löngum siður að vísa til bæjarnafna með þágufallsmyndinni, sjá t.d. í Laxdæla sögu: „…sjá bær heitir í Tungu.“, svarar Halldór Þorgerði móður sinni þegar hún eggjar til bróðurhefnda.

[4] Sjá hér t.d. Mańczak (1958), Tiersma (1982), Croft (2003).

[5] Orðmyndirnar eru þær sömu og samnafnsins enda uppsprettan sú hin sama, sbr. einnig áðurnefnda grein Katrínar.

Már Jónsson: Villur og leiðréttingar í Staðarhólsbók (AM 334 fol.)

Mistök skrifara á miðöldum má flokka með ýmsum hætti og verða helstu tegundir þeirra reifaðar í erindinu með hliðsjón af Staðarhólsbók frá síðari hluta 13. aldar, sem geymir Grágás og Járnsíðu. Þar er talsvert um villur en líka leiðréttingar sem virðast vera með hendi skrifara eða í það minnsta samtíðarmanns. Eru villurnar einber klaufaskapur og óvandvirkni eða má ráða eitthvað af þeim um máltilfinningu og vitund um rétt mál? Hvað segja þá leiðréttingarnar?

Yelena Sesselja Helgadóttir: Endarím mætir stuðlum – í annað sinn

Hið óreglulega bragform þulna síðari alda (íslenskra þjóðkvæða frá u.þ.b. 15.–20. öld; hér eftir ÞSA) er meðal þess sem markar sérstöðu þeirra í íslenskum kveðskap. Í lausbundnu máli ÞSA er öllum helstu bragþáttum íslensks kveðskapar – hrynjandi, stuðlasetningu og rími – beitt í meirihluta þululína með einum eða öðrum viðteknum hætti, en þó sjaldnast kerfisbundið. Þá koma oft fram samhljómar sem hvorki stuðla né ríma samkvæmt íslenskri braghefð en áheyrandi nemur eigi að síður og því tengja þeir einstakar þululínur (hér eftir veik stuðlun og veikt rím). Meira ber á slíkum samhljómum í erlendum (þjóð)kvæðum, en þangað á notkun þeirra í íslenskum ÞSA hugsanlega rætur að rekja. Sérkenni bragforms ÞSA er þannig fólgið í því að bæta úr óreglu í hefðbundinni notkun bragþátta með veikri stuðlun, veiku rími og samspili stuðla og ríms.

Að þessu framkomnu vil ég skoða þuluformið í samhengi íslenskrar bragsögu, m.a. með tilliti til hlutverks ríms og stuðlasetningar. Margt bendir til þess að ÞSA hafi orðið til við samruna hinnar fornu þuluhefðar og nýs efnis sem barst frá meginlandi Evrópu á síðmiðöldum. Bygging og hlutverk ÞSA virðist einkum eiga rætur að rekja til hinna fornu þulna. Bragform og innihald ÞSA sver sig hins vegar frekar í ætt við skyldan kveðskap annars staðar á Norðurlöndum, og má þar gera ráð fyrir erlendum áhrifum. Ljóðstafir, sem voru nauðsynlegir í fornþulum, eru horfnir úr bragkerfinu á hinum Norðurlöndunum á mótunartíma ÞSA; þar er fremur byggt á endarími. ÞSA verða því ein af örfáum íslenskum (þjóð)kvæðagreinum þar sem stuðlasetning er ekki reglubundin (þótt yfir 60% þululína stuðli samkvæmt braghefð). Viðbúið væri að hlutur ljóðstafa styrktist smám saman í þulum fyrir áhrif íslensks kveðskapar, en í raun fór hlutfall þululína sem stuðluðu lækkandi – en hlutfall hinna sem rímuðu hækkandi. Rýnt verður í ferlið og hugsanlegar ástæður þess.

 

3. Ólafsþing var haldið

2. Ólafsþing var haldið

1. Ólafsþing var haldið