Sjötta Ólafsþing 28. október 2023

6. Ólafsþing Máls og sögu verður haldið fyrsta vetrardag, þ.e. laugardaginn 28. október nk., í safnaðarheimili Neskirkju.

Dagskrá

10:00–10:05 Þingið sett

10:05–11:00 Þórhallur Eyþórsson: Arfur Kelta í íslensku máli — endurmat í ljósi nýlegra skrifa

11:00-11:30 Kaffihlé

11:30–12:00 Katrín Axelsdóttir: Allavega alveg

12:00-12:30 Jón G. Friðjónsson: Á stað eða af stað?

12:30–13:30: Hádegishlé

13:30-14:00 Teresa Dröfn Njarðvík: Tveggja-trölla sögnin og Hrafnistumenn: Þróun AT 301 í Ketils sögu hængs, Gríms sögu loðinkinna, Örvar-Odds sögu og Orms þætti Stórólfssonar

14:00–14:30 Yelena Sesselja Helgadóttir: „Já, hér mig, son minn og eg, og hér stöndum vér þrír Þórnaldarnir“: Hverjir mæla í Þórnaldarþulu?

14:30-15:00 Þorgeir Sigurðsson: Skáldatal Snorra Sturlusonar blóði drifið — Fyrirhuguð útgáfa á erkiriti

15:00–15:30 Kaffihlé

15:30–16:00 Kristján Árnason: Hugleiðing um hrynkerfisbreytingar í íslensku

16:00–16:30 Jón Axel Harðarson: Sögnin vökva í fornmáli: vøkva eða vǫkva? Eða bæði vøkva og vǫkva?

16:30–17:00 Guðrún Þórhallsdóttir: Mælti dǫg(g)la-, daugla-, dólga- eða døgladeilir?

17:00–18:00 Ráðstefnuslit og léttar veitingar

Ólafsþing er haldið í samstarfi við Málvísindastofnun Háskóla Íslands

 

Útdrættir erinda (eftir stafrófsröð fyrirlesara)

Guðrún Þórhallsdóttir: Mælti dǫg(g)la-, daugla-, dólga- eða døgladeilir?

Mannkenningin dǫg(g)ladeilir kemur fyrir á einum stað í íslenskum kveðskap, í fjórðu lausavísu Brennu-Njáls sögu, og er nokkur ráðgáta. Fyrri liður hennar er sérstaklega óljós. Í Íslenskri orðsifjabók tekur Ásgeir Blöndal Magnússon (1989: 143) ekki afstöðu til uppruna orðsins. Færslan tekur aðeins fram að fyrri liður samsetningarinnar eigi trúlega við fjármuni eða góðmálm en nefnifallsmynd orðsins sé „öldungis óviss“; þar gefur Ásgeir fjóra kosti: *dǫgl, *dǫgull, *dǫggull og *daugull.

Útgefendur Brennu-Njáls sögu og þýðendur hafa vitanlega þurft að skýra vísuna og kenninguna og ólíkar túlkanir hafa komið fram. Sú skoðun virðist útbreidd að fyrri liður samsetningarinnar sé eignarfall fleirtölu annars óþekkts nafnorðs, *dǫggull kk. ‛hringur’, sem leitt sé af no. dǫgg kvk. ‘áfall, bleyta á grasi’. Merking kenningar sem svari til „deilir hringa“ sé því ‘örlátur maður’. Þessi daggarhugmynd mun eiga rætur að rekja til framlags Jóns Jónssonar (Johnsonius) til Njáluútgáfunnar 1809. Margt fleira hefur þó verið lagt til, t.d. að rithátturinn ‘dogla’ sé misritun fyrir dolga, eignarfall fleirtölu nafnorðsins dolg hk. ‘orrusta’, enda sé trúlegra að í þessari vísu sé hermannskenning.

Í fyrirlestrinum verða ýmsar eldri hugmyndir reifaðar og nýrri varpað fram. Það vekur nefnilega athygli að fræðimenn hafa ekki talið fyrri lið samsetningarinnar geta verið døgla. Kominn er tími til að velta þeim kosti fyrir sér.

 

Jón G. Friðjónsson: Á stað eða af stað?

Í elsta máli er forsetningaþrennan á e-ð [‘hvert’] – á e-u [‘hvar’] – af e-u [‘hvaðan’] notuð með kerfisbundum hætti, t.d.:

ganga á land búa/vera á landi fara af landi brott

Nafnorð sem vísa til staðar falla inn í þetta munstur, t.d. bak, hólmur, svæði, svið, vettvangur, völlur, o.m.fl.

Ef stofnorðið er staður má þegar á 16. öld greina óreglu sem felst í breytingunni af stað > á stað, t.d.:

hann var svo léttur í spori þegar hann átti fara á stað, rétt eins og feigð kallaði að honum (s18 (SigPétLeik 46));

En kvaðst þá, að liðnum degi og eftir ráðum Einars, hafa farið á stað og eftir því [‘barninu’] til kvölds leitað (Alþ V, 373 (1635));

Síðan fór Davíð á stað (1. Sam 30, 9 (GÞ)) = Þá lagði Davíð af stað (Við);

leynt og ljóst leggja honum heilustu ráð sem eg kann á stað að koma við útlenska og innlenska (DI XI, 769 (1550) (OHR)).

Í erindinu verður leitað skýringa á þessari breytingu sem mun að mestu gengin til baka í nútímamáli. Til skilnings á breytingunni má ætla að mestu máli skipti að orðið staður getur glatað orðfræðilegri merkingu sinn og fengið í staðinn það sem kalla má hlutverksmerkingu.

Inntaksorð og hlutverksorðorðfræðileg merking og hlutverksmerking. Orðaforða tungumáls má í grófum dráttum skipta í tvennt: Annars vegar er um að ræða merkingarbær orð, orð sem hafa orðfræðilega merkingu, t.d. nafnorð, sagnorð og lýsingarorð, og hins vegar orð sem hafa fyrst og fremst málfræðilegu hlutverki að gegna en hafa ekki skýra merkingu heldur hlutverksmerkingu, t.d. forsetningar, samtengingar og (sum) atviksorð. Til aðgreiningar má kalla fyrri flokkinn inntaksorð (e. lexical words; þ. Vollwörter, Inhaltswörter) en þann síðari hlutverksorð (e. (grammatical) function words, structure words; þ. Funktionswörter).

Til hlutverksorða má einnig nefna ýmis forsetningasambönd þar sem merking stofnorðs hefur breyst svo mjög að bein merking hefur bliknað eða er jafnvel alveg horfin. Ef skoðuð eru föst orðasambönd með stofnorðinu staður má sjá að það ræðst jafnan af samhengi eða setningafræðilegri stöðu hvort merkingin er orðfræðileg eða hlutverksleg. Til yfirlits má sýna þennan mun með eftirfarandi dæmum:

fara á stað [hvert] – fara af stað [hvaðan] – Hlutverksmerking

fara á staðinn [hvert] – fara af staðnum [hvaðan] – Orðfræðileg merking

Sem dæmi um orðfræðilega eða beina merkingu má nefna að ef kveðið er á um ‘stað’, t.d. með greini eða tilvísunarsetningu, helst orðfræðileg merking, t.d.:

Lögreglan fór/mætti á staðinn; NN fór á stað sem hann þekkti;

hann hafði fengið áður fyrr nokkra vitund af þessu, það hann mundi vilja ríða á staðinn og hafði því njósnarmenn í öllum áttum (f17 (Safnsög I, 88 (JE))).

Breytingin af stað > á stað nær einungis til dæma þar sem no. ‘staður’ hefur glatað orðfræðilegri merkingu og er notað í hlutverksmerkingu. Þetta virðist benda til þess orðfræðileg merking orðasambandsins af stað hafi veiklast, það hafi ekki verið gagnsætt að merkingu og það hafi greitt fyrir breytingunni.

Auk þessarar skýringar má benda á að þess eru mörg dæmi að tiltekinn merkingarþáttur verði umframur eða skipti ekki máli. Merkingarþátturinn ,hreyfing‘ er orðasamböndunum á stað [,hvert‘] og af stað [,hvaðan‘] sameiginlegur en eftir breytinguna verða merkingarþættirnir ,hvert‘ og ,hvaðan‘ umframir.

Í erindinu verður gefið (tæmandi) yfirlit yfir dæmi um breytinguna af stað > á stað á 16., 17., og 18. öld, allnokkurt yfirlit yfir dæmi frá 19. öld og loks verður sýnt tölulegt yfirlit yfir breytinguna á 20. og 21. öld á grunni dæma 20. hvert ár frá sama tímabili.

 

Jón Axel Harðarson: Sögnin vökva í fornmáli: vøkva eða vǫkva? Eða bæði vøkva og vǫkva?

Í handbókum er ýmist gert ráð fyrir að sögnin vökva hafi í eldri forníslensku verið vøkva eða vǫkva. T.d. hafa Jan de Vries (Altnord. etym. Wörterbuch) og Ásgeir Bl. Magnússon (Ísl. orðsifjabók) fyrri myndina en Frank Heidermanns (Wörterbuch der germ. Primäradjektive) þá síðari. Sögnin er leidd af lýsingarorðinu vökur (físl. vǫkr) ‘rakur, blautur’. Það liggur einnig til grundvallar nafnorðunum vökvi kk. og vökva kvk. Um þessi orð gildir hið sama og um sögnina vökva: mismunandi er hvort þau eru talin hafa haft myndirnar vøkvi, vøkva eða vǫkvi,vǫkva í eldri forníslensku. Það sem torveldar úrskurð um þetta er sú staðreynd að orðin koma ekki fyrir í elstu handritum þar sem sérhljóðunum ǫ [ɔ] og ø [ø] var enn haldið aðgreindum í skrift. Um og upp úr 1200 fellu þessi hljóð saman (> ö [œ]) og eftir það gat samfallshljóðið ýmist verið ritað með táknum hins gamla ǫ eða ø. Engu að síður má draga vissar ályktanir af vitnisburði handrita og þeim orðmyndum sem þar koma fyrir.

Í erindinu verður fjallað um ýmis vandamál sem tengjast ofangreindu. Þá verður reynt að skýra betur en áður hefur verið gert form og hlutverk umræddra orða. Enn fremur verður vikið að því hvort sögnin vekja í orðasamböndunum vekja e-m blóð ‘blóðga e-n, láta blóð renna úr æð e-s’ og vekja ís ‘gera op á ís’ sé af sama toga og sögnin vökva eins og sumir hafa haldið fram.

 

Katrín Axelsdóttir: Allavega alveg

Alveg er alþekkt orð og algengt. Það virðist þó eiga sér fremur skamma sögu í málinu og uppruni þess er ekki fullljós, ekki frekar en tengsl þess við ýmis áþekk orð í skyldum málum. Í orðabókum er það greint sem atviksorð og sú orðflokkagreining er oftast óumdeilanleg. En málið er oft ögn flóknara en ráða má af orðabókum. Færa má rök fyrir því að alveg geti stundum staðið sem lýsingarorð (líkt og atviksorðin svona og þannig geta gert). Enn fremur má leiða líkur að því að alveg geti stundum verið það sem kallað hefur verið orðræðuögn (e. discourse particle), og kunni þá jafnvel að gegna fleiri en einu slíku hlutverki. Merking orðsins sem atviksorðs er auk þess dálítið fjölskrúðugri en ráða má af orðabókum. Í fyrirlestrinum verður fyrst rætt um hugsanlegan aldur og uppruna og síðan um ýmsar merkingar eða hlutverk alveg í nútímamáli og fyrr. Einnig verður vikið að stöðu alveg í setningum, eldri dæmum sem stinga á einhvern hátt í stúf við nútímamál, samanburði við ýmis samheiti, s.s. algerlega og gersamlega, og mismunandi áherslu.

 

Kristján Árnason: Hugleiðing um hrynkerfisbreytingar í íslensku

Hrynkerfi (prósódía) tungumála byggja á samspili orðáherslu og setningaráherslu og birtist eins og í tónlist í breytilegri lengd, styrk og tónhæð. Hljóðdvalarbreytingin hafði áhrif á þessu sviði í íslensku og varð til þess að greinarmunur léttra (stuttra) og þungra (langra) áhersluatkvæða, sem gerður var í fornu máli, hvarf. Hinn hrynræni þáttur þessarar nýjungar fólst í því að öll rótaratkvæði urðu jöfn að upplagi. Önnur breyting sem virðist mega tengja þessum nýja stíl er að gamlar endingar, jafnvel með stoðhljóði sem komið hafði fram, tóku að bera ris og ríma á sextándu öld, en voru áður bragfræðilega veikar. Þetta endaði með því að Matthías Jochumson gat búið til línur eins og Ingólfur Arnar bur. Inn í þetta nýja kerfi féllu svo viðskeyttur greinir og miðmyndarendingar, sem upphaflega voru henglar (e. clitics), en urðu að endingum. Athugandi er með hvaða hætti hlutleysing langra og stuttra samhljóða, svo sem /n/ og /r/ í dæmum eins og Gunnarr > Gunnar, heiðinn > heiðin tengist þessu endurskipulagi.  Um allt þetta gefur kveðskapur vísbendingar, sem er full þörf á að skoða nánar en gert hefur verið. Meðal stórra spurninga í þessu sambandi er hvort aðgreining svokallaðra tónkvæða muni hafa þróast (og lexíkalíserast) í íslensku og lifað e.t.v. lengur en margir hafa talið. Til að nálgast svar við þeirri spurningu er nauðsynlegt að huga að samspili setningatónfalls og orðáherslu, en slíkt tvinnast saman í hinum flóknu kerfum norsku og sænsku, og reyndar í hinu danska stuði, sem er formlega séð eins konar andhverfa orðtónanna.

 

Teresa Dröfn Njarðvík: Tveggja-trölla sögnin og Hrafnistumenn: Þróun AT 301 í Ketils sögu hængs, Gríms sögu loðinkinna, Örvar-Odds sögu og Orms þætti Stórólfssonar

Fornaldarsögur eru formúlukenndar, fylgja þekktum frásagnargerðum og innihalda gömul minni, sem styður hugmyndina um að þær séu eldri en talið hefur verið og eigi rætur sínar í munnlegum frásögnum. Ein algengasta frásagnargerð fornaldarsagna, og hugsanlega sú elsta, er tveggja trölla gerðin (e. two-troll tradition). Hún er afbrigði af frásagnargerðinni AT 301 sem er annars þekkt sem Bjarnarsonar saga eða Sagan af þremur stolnum prinsessum. Hér verður leitast við að greina gerðina í fjórum tengdum sögnum, Ketils sögu hængs, Gríms sögu loðinkinna, Örvar-Odds sögu og Orms þætti Stórólfssonar, en fyrstu þrjár eru oft nefndar Hrafnistusögur. Sögurnar fylgja ættboga um sex kynslóðir þar sem hetjur sagnanna berjast við tröll og í kringum þessa ætt myndaðist mikill sagnaarfur um trölladráp, frægðarverk og ofurmannlegan styrk. Þá mætti taka inn Orms þátt Stórólfssonar í flokk Hrafnitusagna því bæði fylgir þátturinn sömu formgerð auk þess sem Ormur er afkomandi Ketils hængs og því með Hrafnistublóð í æðum sér.

Hér verða þessar sögur skoðaðar, ekki aðeins út frá ritunartíma og handritageymd, heldur einnig litið á hvernig tveggja-trölla gerðin birtist í sagnafléttu þeirra og hvort þróun gerðarinnar geti varpað ljósi á sögurnar. Umfjöllun um þróun gerðarinnar er að miklu leyti byggð á rannsóknum J. Michael Stitt og litið verður á birtingarmynd gerðarinnar í þessum Hrafnistusögum ásamt því að athuga hvaða áhrif sögutími, landnám og kristnitaka hefur haft á uppbyggingu gerðarinnar í þessum sögnum.

 

Yelena Sesselja Helgadóttir: „Já, hér mig, son minn og eg, og hér stöndum vér þrír Þórnaldarnir“: Hverjir mæla í Þórnaldarþulu?

Þórnaldarþula hefur talsverða sérstöðu meðal þulna síðari alda. Hún er ein þeirra elstu, lengstu og einnig torskildustu, þrátt fyrir það að hún hafi ákveðinn frásagnarþráð (sem er ekki heldur dæmigert fyrir þulur). Erfiðleikar við túlkun þulunnar stafa þó ekki af því að varðveislu hennar sé ábótavant (eins og í tilfelli Grettisfærslu sem Þórnaldarþula líkist talsvert) heldur af því að megnið af frásögninni fer fram í samtölum þar sem er erfitt að greina hver segir hvað og jafnvel hversu margir tala saman. Mælendur tala til skiptis með óreglulegum og illfyrirsjáanlegum hætti, en textinn (eða handritin) gefa sjaldan til kynna hver tekur til máls, og hvenær næsti mælandi (eða 3. persónu frásögn) tekur við. Málið flækist enn vegna þess að Þórnaldarþula er varðveitt í rúmlega 150 handritum og hljóðritum sem geyma um 80 sjálfstæða texta þulunnar. Munurinn á textunum er oft talsverður og þeir eiga ekki endilega samleið hvað mælendaskiptingu áhrærir.

Í erindinu verður farið yfir þau atriði sem má nota sem vísbendingar um hver talar hverju sinni: bragfræðileg (hrynjandi, rím og stuðlasetningu) málfræðileg (persónufornöfn, persónu sagnorða, ávörp o.fl.) og handritafræðileg (greinarmerki o.fl.). Þessi atriði eru erfið viðureignar, hvert á sinn hátt, en í heild benda þau til þess að mikil óvissa sé í flestum þulutextunum um hver spyr spurninga og hver svarar þeim í seinni hlutanum. Í ljós kemur að jafnvel elstu og fyllstu uppskriftir Þórnaldarþulu (17.–18. öld) eru ekki á sama máli, og sama má jafnvel segja um náskyld handrit. Á 19. öld fækkar ávörpum til Þórnaldar í seinni hluta þulunnar og þá verður útilokað að túlka hana með vissu, en á 20. öld verður þulan sjaldgæfari, einfaldari og styttri, frásögn hennar ógreinilegri og áherslur færast af frásögninni yfir á annað efni.

 

Þorgeir Sigurðsson: Skáldatal Snorra Sturlusonar blóði drifið — Fyrirhuguð útgáfa á erkiriti

Ný útgáfa á Skáldatali mun birtast í ritrýndri grein í Són á þessu ári. Hér er sagt frá henni. Skáldatal var síðast gefið út 1887 af Jóni Sigurðssyni forseta með skýringum á latínu. Fræðimenn vísa enn til þeirrar útgáfu. Handrit Snorra Sturlusonar með Skáldatali er ekki varðveitt en tvö óháð afrit þess eru til. Tengsl þeirra við Snorra sjást á því að þau varðveittust með verkum hans: Heimskringlu og Snorra-Eddu. Tengslin sjást einnig á því að Skáldatal telur upp skáld með konungum Noregs frá og með Haraldi hárfagra, en í formála Heimskringlu segir að lofkvæði þessara skálda séu trúverðugasta heimild Heimskringlu. Hér eru afrit Skáldatals notuð til að endurgera Skáldatal Snorra, en það hefur ekki verið gert áður. Dánardægur Snorra var 23. september 1241, en um það leyti var erkirit Skáldatals fullbúið. Þetta er rökstutt með færslum erkiritsins um Ólaf hvítaskáld Þórðarson. Snorri Sturluson vann að gerð Heimskringlu og hélt skrá um norræn hirðskáld. Nafn greinarinnar vísar til þess að við blóðugan dauðdaga Snorra varð erkirit Skáldatals til.

Það er einkum tvennt sem gerir það auðveldara nú en áður að endurgera erkirit Skáldatals. Annað er að komið hefur í ljós afrit af hinu glataða Kringluhandriti Skáldatals eftir Ásgeir Jónsson, ritara Árna Magnússonar og Þormóðs Torfasonar sagnfræðings, en það hefur ekki verið notað áður í umræðu um Skáldatal. Hitt er sú athugun höfundar að röð skálda hjá hverjum tignarmanni sé merkingarbær og líkleg til að haldast í afritun. Ávinningur við endurgerð erkiritsins er margs konar, m.a. koma í ljós föðurnöfn tveggja skálda sem ekki var vitað um aður og fimm óþekkt skáld reynast aldrei hafa verið til.

 

Þórhallur Eyþórsson: Arfur Kelta í íslensku máli — endurmat í ljósi nýlegra skrifa

Sú skoðun hefur löngum notið alþýðuhylli hér á landi að gera sem mest úr keltneskum, einkum írskum, áhrifum á íslenska tungu og menningu á kostnað norræns uppruna. Aðrir hafa þó aðhyllst varfærnari afstöðu, t.d. Helgi Guðmundsson (1997) sem fjallar á gagnrýninn hátt um orð sem talin hafa verið komin úr keltneskum málum. Nýlega hefur Þorvaldur Friðriksson (2022) blandað sér í leikinn og staðhæfir að mun stærri hluti íslensks orðaforða sé af keltneskum rótum en hingað til hefur verið álitið. Að hans dómi eru það rúmlega 350 orð, auk fjölda örnefna, mannanafna og orða um dýr og jurtir.

Lítið hefur verið fjallað um staðhæfingar Þorvalds á fræðilegum nótum. Þeim mun ákafari hafa umræður og deilur um þetta efni verið á meðal leikmanna, t.d. á samfélagsmiðlum. Þessi fyrirlestur er tilraun til að leggja hlutlægt mat á fræðilegt gildi sumra þeirra fullyrðinga um uppruna íslenskra orða sem settar eru fram í bók Þorvalds og skoða hvort þær séu rökstuddar og þá hve sannfærandi rökin séu. Athugað verður hvernig Þorvaldur markar sér stöðu gagnvart öðrum höfundum sem fjallað hafa um þessi efni. Í anda hefðbundinnar samanburðarmálfræði verður lögð áhersla á mikilvægi kerfisbundinna hliðstæðna í samanburði á tungumálum. Kannað verður hvort og þá hvaða heimildir séu fyrir ættfærslum einstakra orða í riti hans og hvert vægi þeirra sé fyrir röksemdafærsluna. Þá verður gefinn gaumur að málfræðilegum atriðum sem snerta hljóðkerfi og beygingar, en líka að merkingu orða og að meintri eða raunverulegri samsvörun þeirra í íslensku og írsku. Loks verður fjallað um þá staðreynd að sum orðin koma fyrir í öðrum málum en íslensku og írsku, t.d. latínu og öðrum skyldum málum.

Almenn spurning sem leitast verður við að svara í erindinu er: Hvernig á að sýna fram á að orð séu af innlendri rót eða fengin að láni úr öðrum málum? Stóra spurning er loks: Hvernig hefur höfundi tekist til í viðleitni sinni?