7. Ólafsþing var haldið 26. október 2024 í fyrirlestrasal Eddu
Dagskrá
9:25–9:30 Þingið sett
9:30–10:00 Sigríður Sæunn Sigurðardóttir: Kerfisvæðing flóknu forsetninganna á bak við og við hliðina á
10:00–10:30 Jón Friðjónsson: Íslenskt mál og gervigreind (spjallmennið ChatGPT)
10:30–11:00 Kaffihlé
11:00–11:30 Aðalsteinn Hákonarson: Högn(i)
11:30–12:00 Guðrún Þórhallsdóttir: Málfræðin í náttúrunafnakenningunni
12:00–12:30 Katrín Axelsdóttir: Er –ey hin nýja –ína?
12:30–13:30 Hádegishlé
13:30–14:00 Helgi Skúli Kjartansson: Himnasmiður og hryngerðirnar
14:00–14:30 Klaus Johan Myrvoll: «Poetisk stemmatikk» – opprinnelsen og utviklingen av Óláfs saga hins helga
14:30–15:00 Þorgeir Sigurðsson: Samdi Snorri skýringarnar við Háttatal?
15:00–15:30 Kaffihlé
15:30–16:00 Heimir Freyr Viðarsson: Af meintri vömm Wiséns – Ritdeilan við Larsson og spjöllin á Íslenskri hómilíubók
16:00–16:30 Jón Axel Harðarson: Forarpyttir orðsifjafræðinnar: Nokkur dæmi
16:30 Ráðstefnuslit og léttar veitingar
Allir velkomnir
Útdrættir erinda (eftir stafrófsröð Fyrirlesara)
Aðalsteinn Hákonarson: Högn(i)
Í færslu um mannsnafnið Högni í Íslenskri orðsifjabók er nefnt íslenska fjallsheitið Högn. Ásgeir Bl. Magnússon benti á að það virðist eiga sér samsvörun í nýnorsku hogn (kvk.) er merki ‘fjallshryggur, fjallsegg’. Alf Torp taldi það kunna að vera skylt sagnorðinu hanga en það áleit Ásgeir vafasamt. Hæpið er enda að skýra íslenska fjallsheitið þannig. Mannsnafnið Högni hefur verið talið skylt orðunum hagi og hegna ‘girða af, verja gegn ágangi’ og sé upphafleg merking þess ‘verndari, landvarnarmaður’. Ásgeir taldi að fjallsheitið Högn kynni að vera skylt því og hefði merkt ‘skjólríkt fjall, fjallgirðing’.
Fjallið Högn, sem er framarlega í Langadal í Ísafjarðardjúpi, er fyrst nefnt svo á Herforingjaráðskorti frá 1915 (og svo á opinberum kortum allar götur síðan), en í öðrum heimildum er það nefnt Högni og afleidd nöfn eru Högnafjall, -hlíðar, Högnavötn og Högn(a)á.
Högna-örnefni er að finna víða á landinu. Högnahaugur og Högnhöfði eru nöfn á fjöllum og Högnaklettur er það sem nafnið ber með sér. Annars konar náttúrufyrirbæri eru einnig kennd við högna í örnefnum, sbr. nöfnin Högnalækur, -blá, -brekkur, -dalur, -vatn, -gróf, –hóll og -völlur. Bæjarnafnið Högnastaðir er á þremur stöðum á landinu og önnur býlanöfn eru Högnagerði og -völlur.
Á afmörkuðu svæði í Noregi og Svíþjóð kemur orðið hogn/hågn fyrir í nöfnum á fjöllum (oftar en ekki háum fjöllum að því er virðist). Í Suður-Þrændalögum eru dæmin Melshogna, Forilhogna, Buhogna og Sauhogna og fleiri dæmi eru í Østerdalen í Noregi. Handan landamæranna eru til að mynda Digerhågna og Fruhågna í Härjedalen og Härjehågna í Dalarna.
Í erindinu verða raktar heimildir um Högna-nöfn á Íslandi og svipuð nöfn í nágrannalöndunum, íslensku nöfnin borin saman við hin erlendu og eftir megni reynt að skýra nöfnin.
Guðrún Þórhallsdóttir: Málfræðin í náttúrunafnakenningunni
Nú árið 2024 er öld liðin frá fæðingu Þórhalls Vilmundarsonar og sextíu ár frá þeirri hugljómun hans sem brátt fékk nafnið náttúrunafnakenningin. Þegar þetta afmælisár nálgaðist hafði ég ástæðu til að rifja upp kynnin af ritsmíðum hans um íslensk örnefni og lesa óbirt handrit. Þá átti ég fyrir höndum að flytja fyrirlestur á ráðstefnu samanburðarmálfræðinga í Bandaríkjunum og áttaði mig á að líklega hefði aldrei verið fjallað um náttúrunafnakenninguna frammi fyrir þess konar áheyrendum, samanburðarmálfræðingum sem væru ekki sérfræðingar í norrænum málum og hefðu aldrei heyrt á Þórhall eða rannsóknir hans minnst. Ég skilaði inn titlinum „Slaughtering Settlers“ og samdi erindi sem hæfði markhópnum.
Fyrrnefndur fyrirlestur varð tilefni til að hugleiða hvernig ætti að meta náttúrunafnakenninguna og einstakar örnefnaskýringar í hennar anda með mælikvörðum samanburðarmálfræðinnar eða sögulegra málvísinda almennt. Að sjálfsögðu er þess krafist að fjallað sé um málbreytingar hvers konar með strangvísindalegum aðferðum og oft þykir þá tortryggilegt að aðrir en málfræðingar fáist við þær. Á hinn bóginn búa sögulegir málfræðingar við þann vanda að málheimildir frá eldri málstigum eru gloppóttar og eru alvanir því að þurfa að geta sér til um þróun orðmynda á forsögulegum tímum. Auk þess þurfa þeir að gæta að því að sérnöfn taka stundum sérkennilegum breytingum og að einnig kemur fyrir að sérnafn haldi beygingu sinni eða framburði óbreyttum en taki ekki þátt í breytingum sem verða í samnöfnum. Í fyrirlestrinum verður fjallað um náttúrunafnakenninguna með þessar aðstæður í huga, tekin dæmi af örnefnum og sýnishorn úr skrifum Þórhalls.
Heimir Freyr Viðarsson: Af meintri vömm Wiséns – Ritdeilan við Larsson og spjöllin á Íslenskri hómilíubók
Íslensk hómilíubók, sem varðveitt er í skinnbókinni Sthm. Perg. 15 4to frá um 1200, er án vafa meðal mestu dýrgripa málsögunnar og ómetanleg heimild um íslenskt mál á síðari helmingi 12. aldar. Þrátt fyrir að handritið sé vel varðveitt, nokkuð heilt og í góðu ástandi miðað við aldur, vita færri að átt var meðvitað við texta skinnbókarinnar á s.hl. 19. aldar, að því er talið er „til samræmis við“ fræðilega útgáfu hennar (Wisén 1872).
Í erindinu verður farið stuttlega yfir þessa reyfarakenndu frásögn, skyggnst inn í vinnubrögð meints geranda og mannsins sem afhjúpaði hann, Ludvigs Larssons (1860-1933). Larsson var annálaður fyrir vandvirkni sína, nákvæmni og jafnvel smásmygli, en færa má rök fyrir að yfirburðastaða hins virta prófessors Theodors Wiséns (1835-1892), sem jafnframt hafði hlotið verðlaun fyrir útgáfuna, hafi gert Larsson erfiðara um vik að leiða hið sanna í ljós; tæpast hefur sviplegt andlát Wiséns skömmu eftir útgáfu tímamótarits Larssons, Ordförrådet i de älsta islänska handskrifterna (1891), sem fylgdi ekki textanum í útgáfu Wiséns, bætt þar neitt úr skák. Dæmi verða sýnd um staði í skinnhandritinu sem Larsson gerði að umfjöllunarefni í ritdeilu sinni við Wisén, en athugasemdir Larssons eru vel á annað þúsund. Í inngangi sínum að nýrri útgáfu Íslenskrar hómilíubókar telur Andrea de Leeuw van Weenen (1977/1993) raunar spellvirkin vera umfangsmeiri en áður var talið.
Sérstakt hlutverk í erindinu mun leika forvitnilegt rannsóknargagn sem nýlega rak á fjörur fyrirlesarans og hefur ekki komið fyrir sjónir almennings áður svo vitað sé. Þar er um að ræða útgáfu Wiséns (1872) með ævintýralega ítarlegu kroti. Hvort þessi bók beri „fingraför“ margumræddrar nákvæmni Larssons er jafnframt lykilspurning sem leitað verður svara við. Þá verður einnig hugað að hinu fræðilega samhengi, tíðarandanum þá og tíðaranda nútímans, með tilliti til heilinda í fræðastörfum almennt séð.
Helgi Skúli Kjartansson: Himnasmiður og hryngerðirnar
Runhendan „Heyr, himna smiðr“, sem Kolbeinn Tumason „kvað“ á örlagastundu 1208 (og hafði kannski ort sjálfur), hljómar fyrir brageyra nútímamanns því líkast sem vísuorðið sé þrír bragliðir, sá síðasti stýfður:
Komi / mjúk til / mín
…
þú hefr / skaptan / mik;
ek em / þrællinn / þinn
Reyndar oftar en ekki eins og fyrsti liðurinn sé stýfður líka:
Minnsk, / mildingr, / mín;
mest / þurfum / þín.
Og hljómar þá stundum fremur eins og forliður:
á / hölða / grund
…
í / hjarta / mér.
Af þessum dæmum eru það þau síðustu sem gefa rétta mynd af hrynjandi kvæðisins. Það er runhenda með línulengd fornyrðislags – engir bragliðir en fjórar bragstöður, ein- eða tvíkvæðar, sem raðast saman í ákveðnar hryngerðir (týpur). Sem sagt sami háttur og Snorri sýnir í 85.–87. vísu Háttatals og Egill sjálfur í Höfuðlausn.
Skáldin þrjú beita þó ekki reglum háttarins á nákvæmlega sama hátt. Fyrirlesari leitar dæma um að ljóð Kolbeins skeri sig úr og staðnæmist þá við vísuorð eins og:
hvers skáldit biðr
…
þú´st dróttinn minn
…
ór hjarta borg.
Jón G. Friðjónsson: Íslenskt mál og gervigreind (spjallmennið ChatGPT)
Að undanförnu hefur talsvert verið rætt um gervigreind og þá byltingu sem hún hefur þegar valdið og muni valda. Það er eins og enginn sé maður með mönnum nema hann noti gervigreind. Sumir telja að hún sé öflugur þýðandi, geti skrifað greinar um hvað eina og farið yfir texta og leiðrétt hann, ekki aðeins þefað upp allar villur heldur einnig leiðbeint um málfar og framsetningu. Ég tel mig ekki vita mikið um gervigreind, en hins vegar hef ég um liðlega hálfrar aldar skeið starfað á akri íslenskrar tungu og þannig öðlast allnokkra reynslu og þekkingu á eðli tungunnar og einkennum hennar. Skal nú vikið að nokkrum atriðum af þeim toga.
Nokkur einkenni íslenskrar tungu
Oft hefur verið bent á að íslensk tunga hafi breyst svo lítið frá árdögum ritlistar á 12. öld og fram á okkar daga að við nútímamenn getum auðveldlega lesið fornbókmenntir okkar, einkum ef ritháttur er færður til nútímahorfs. Hljóðkerfi íslenskrar tungu er að vísu gjörbreytt frá elstu heimildum, en beygingarfræði, setningafræði, merkingarfræði og orðmyndun er lítt breytt og þess vegna má segja að samfella íslenskrar tungu sé nánast órofin frá elstu heimildum fram til nútímamáls. Af þessu leiðir m.a. að íslenskur orðaforði er að miklu leyti gagnsær, og það á einnig við um langflest nýyrði sem mynduð eru af íslenskum stofnum á grunni reglna um orðmyndun (samsett orð og afleidd), sbr. eftirfarandi sýnishorn nýyrða frá síðari hluta 19. aldar: áttaviti, dómgreind, eldmóður, frumkvæði, íhlutun, misbeita, ófremdarástand, raunhæfur, réttlætanlegur, réttmætur, ritfrelsi, samkeppni, siðmenning, skilgreina og stjórnmálamaður. Það er hluti af málskilningi og málkennd málhafa að átta sig t.d. á grunneiningum samettra orða, gagnsæi þeirra, og skilja merkingu þeirra á þeim forsendum. Nýmyndun af þessum toga er til marks um nær óþrotlegan sköpunarmátt tungunnar og takmarkalausa fjölbreytni.
Ástæða þess að ég orðlengi um þetta er sú að ég hef leitast við að kanna með beinum hætti hvernig spjallmenninu, ChatGPT, tekst að koma til skila viðtekinni merkingu þeirra máldæma sem ég hef lagt fyrir það. Einkum hefur áhugi minn þó beinst að því hvort og þá hvernig megineinkenni íslenskrar tungu koma fram í svörum spjallmennisins.
Af þeim dæmum sem ég hef skoðað virðist mér spjallmennið lítinn skilning hafa á íslensku máli og myndmál er því nánast lokuð bók, það áttar sig ekki á tengslum beinnar merkingar og óbeinnar, gagnsæi er því framandi og hvergi hattar fyrir nýsköpun og sköpunarmætti svo að nokkuð sé nefnt.
Ég hef innt spjallmennið eftir merkingu fjölmargra textadæma og mun í erindi mínu leitast við að gera grein fyrir svörum við nokkrum þeirra. Dæmin hef ég reynt að velja þannig að þau sýna jafnt kosti sem galla snjallmennisins.
Að lokum skal þess getið að mér er fullljóst að gervigreind kemur að miklu gagni á mörgum sviðum, t.d. við að vinna úr staðreyndum og öðru efni af þeim toga. Í erindi mínu mun ég leitast við að renna stoðum undir þá skoðun mína að mér virðist spjallmennið ráða illa við hugvísindi, enda er spjall þess oft og tíðum ólíkt mannlegu máli í grundvallaratriðum.
Jón Axel Harðarson: Forarpyttir orðsifjafræðinnar: Nokkur dæmi
Meðvitaðar hugleiðingar um tungumál eru mjög gamlar. Samanburðarrannsóknir á skáldskap og formúlukenndu orðfæri indóevrópskra þjóða sýna að þeir sem töluðu frummálið höfðu sinn eigin frásagnarkveðskap og skáldskaparmál. Það er ýmislegt sem ber vott um málspeki skálda fyrri tíma. Þannig krefjast bragarhættir eins og þeir sem notaðir eru í vedískum og grískum kveðskap góðrar þekkingar á hljóðfalli og atkvæðabyggingu fornindversku og grísku. Einnig vitnar kerfisbundin stuðlasetning í forngermönskum kveðskap um hljóðkerfislega þekkingu skálda. Þá má nefna stílbragðið figura etymologica, sem birtist víða í bókmenntum indóevrópskra þjóða og byggist á því að tengja saman skyld orð, þ.e. orð sem mynduð eru af sömu rót, sbr. ísl. gefa gjöf, færa fórn, sofa svefn o.s.frv. Þetta sýnir að sú grein orðsifjafræði sem fæst við skyldleika orða innan einstakra tungumála er ævaforn. Hún er stundum kölluð „innri orðsifjafræði“. Miklu yngra er hins vegar það viðfangsefni orðsifjafræði að leita orðasamsvarana í skyldum málum og rekja uppruna og þróun orða. Þessi grein orðsifjafræðinnar kallast „ytri orðsifjafræði“. Hún á upphaf sitt í því að menn sem höfðu öðlast þekkingu á fleiri málum en móðurmáli sínu fóru markvisst að leita skyldra orða í þessum tungumálum. Og raunar varð hún ekki að þeirri vísindagrein sem við nefnum orðsifjafræði fyrr en á 19. öld þegar samanburðarmálfræðin varð til. Vísindalegar rannsóknir á skyldleika tungumála komu fyrst til sögunnar þegar fræðimenn beindu sjónum sínum að málfræðilegri uppbyggingu einstakra mála og uppgötvuðu þau hljóðlögmál sem hafa verkað innan þeirra. Í þessu sambandi má nefna menn eins og Lambert ten Kate, Friedrich von Schlegel, Rasmus Rask og Jacob Grimm, og síðar einnig Karl Verner og ungmálfræðingana þýsku með Karl Brugmann í broddi fylkingar.
Þrátt fyrir miklar framfarir í indóevrópskum samanburðarmálvísindum og orðsifjafræði indóevrópskra mála eru á þessum sviðum enn ærin verkefni að vinna. Orðsifjafræðin krefst mikillar kunnáttu í sögulegri málfræði þeirra mála sem borin eru saman og enn eru ýmsar orðsifjaskýringar umdeildar. Fyrir kemur að jafnvel færustu orðsifjafræðingum verði á alvarleg mistök. Í þessu erindi verður fjallað um nokkrar skýringar Guus Kroonens í ritinu Etymological Dictionary of Proto-Germanic (2013) og mat á það lagt hve vel hafi til tekist. Þar koma m.a. íslensku orðin sía, síga og síki við sögu.
Katrín Axelsdóttir: Er –ey hin nýja –ína?
Ýmsir þættir geta haft áhrif á nafnaval foreldra og geta þeir þættir reyndar verið nokkuð mismunandi eftir samfélögum. Á Vesturlöndum er nafnaval nokkuð frjálst en þættir á borð við nafnahefð í fjölskyldu (að nefna eftir ættingjum) og vinsældir frægra persóna (raunverulegra eða skáldaðra) hafa þó stundum áhrif á valið. Vinsældir einstakra mannanafna eru breytingum háðar eins og svo margt annað sem val stendur um; nöfn geta á skömmum tíma þotið upp vinsældalistana og jafnvel hrapað niður þá skömmu síðar – vinsældir sumra nafna virðast á hinn bóginn harla stöðugar. Sama virðist gilda um viðliði samsettra nafna og viðskeyti sem notuð eru til að mynda nöfn.
Í fyrirlestrinum verður fyrst sagt frá ýmsu sem getur haft áhrif á nafnaval, bæði hér og annars staðar. Sjónum verður síðan einkum beint að nafnliðnum –ey. Hann var til á fornum tíma en nöfnin með honum voru ekki mörg, aðeins eru nefnd þrjú í Nöfnum Íslendinga (Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni 1991): Bótey, Laufey og Þórey. Fjölmörg „eyjanöfn‟ hafa bæst við nafnaforðann síðan þá, langflest á 20. öld. Á skrá um umsóknir til mannanafnanefndar (sem haldið hefur verið utan um frá síðustu aldamótum) er að finna allmörg slík og virðist þetta vera sá viðliður kvenmannsnafna sem nýtur hvað mestra vinsælda þegar kemur að nýmynduðum nöfnum.
Klaus Johan Myrvoll: «Poetisk stemmatikk» – opprinnelsen og utviklingen av Óláfs saga hins helga
Det var en omfattende utveksling av manuskripter og tekster mellom Island og Noreg i middelalderen. Det var òg litterær produksjon i begge land, der visse verker synes å ha blitt til i Noreg, f.eks. Ágrip (ca. 1190) og Fagrskinna (ca. 1220), mens andre ble til på Island, f.eks. Morkinskinna (ca. 1215) og Heimskringla (ca. 1230). Andre sagaer har ingen klar proveniens. Det gjelder bl.a. den (hypotetiske) eldste sagaen om Olav den hellige.
De fleste sagaer er prosimetra, dvs. sammensatte av prosa og poesi. I tidligere forskning har den evidensen varianter i skaldestrofene har kunnet gi, i stor grad blitt neglisjert. Et eksempel er Jónas Kristjánssons avhandling om Fóstbrœðra saga (1972), der han slutter at det «er hæpið að reisa nokkra flokkun handritanna á fáeinum lesháttum í vísunum. Uppskrifarar hafa ekki ætíð skilið vísurnar, og því breytast þær í uppskriftum á ýmsa vegu af hreinni tilviljun» (s. 43).
Dette foredraget vil presentere en ny metode for å nyttiggjøre seg den informasjonen strofene gir, ved at man studerer språket i strofene og den omkringliggende prosaen hver for seg, for så å sammenligne de resultatene man kommer frem til. Denne metoden bygger på følgende forutsetninger eller hypoteser:
- Skriverne var i stand til å forstå språket, metrikken og stilen i skaldestrofene i skiftende grad, men i gjennomgående mindre grad enn prosaen rundt.
- Skriverne kopierte antageligvis strofene mer nøyaktig (ord-for-ord) enn det som var tilfellet for prosaen, der skriveren mer suverent kunne omformulere, f.eks. endre narrativ tid, bytte ut navn med pronomen eller være mer eller mindre detaljert i beskrivelsen.
- Dersom det oppstod feil i strofene, var de fleste skrivere ikke i stand til å restituere eller emendere teksten. Dette førte til at feilene ville bli kopiert videre eller eventuelt bli enda verre på grunn av fåfengte forsøk på korrigering.
Av disse observasjonene følger min teori: at språklige former i strofene er mer avgjørende for byggingen av stemmaer og for diskusjoner om teksters proveniens enn variasjon i prosaen. Dette utelukker selvsagt ikke å ta hensyn til de resultatene man har kommet frem til i studier av prosaen, men den «poetiske stemmatikken» vil kunne supplere og korrigere disse på viktige punkter. Jeg vil vise hvordan denne nye metoden kan anvendes på de ulike verkene som inneholder en saga om Olav den hellige.
Sigríður Sæunn Sigurðardóttir: Kerfisvæðing flóknu forsetninganna á bak við og við hliðina á
Í nútímaíslensku koma forsetningarnar við hliðina á (1a) og á bak við (2a) stundum fyrir í einfaldaðri mynd, þ.e. hliðiná (1b) og bakvið (2b).
(1a) Sá fjórði sat við hliðina á mér í salnum. (Twitter, 2016)
(1b) Fólkið sem sat hliðiná mér í eymundsson (Twitter, 2016)
(2a) Er myndatökunaðurinn [svo] að fela sig á bak við lýsistunnu? (Twitter, 2022)
(2b) Alvöru karlmenn fela sig greinilega bakvið nafnlausa accounta (Twitter, 2023)
Hér er lagt til að einfaldaðar myndir endurspegli kerfisvæðingu (sjá einnig Jón G. Friðjónsson 2004, 2007 og Eirík Rögnvaldsson 2021 sem fjalla um stefnu breytingarinnar), en samkvæmt þeirri hugmynd breytist forsetning (F1), nafnorð (N1) og forsetning (F2) í staka forsetningu (F) eins og sýnt er í (3).
(3) F1N1F2 > F
Tilurð forsetninga úr nafnorði eða úr nafnorði og öðrum einingum svo sem atviksorði eða nafnorði er mjög algeng þróun í tungumálum heims (Lehmann 1991:501; Heine & Kuteva 2002:271–2; van Gelderen 2011:182–187) og ætla má að óhjákvæmilegt sé að slík þróun nái endastöð.
Í þessu erindi verður fjallað um kerfisvæðingu á bak við og við hliðina á í íslensku. Forsetningarnar verða skoðaðar í sögulegu ljósi, með tilliti til stefnu breytingarinnar í (3). Gefið verður yfirlit yfir stöðu forsetninganna í nútímamáli og dreifingu flókinna og einfaldaðra mynda í málgögnum frá síðustu 10–20 árum. Loks verður reynt að geta sér til um hvernig framtíð forsetninganna kunni að líta út.
Þorgeir Sigurðsson: Samdi Snorri skýringarnar við Háttatal?
Fáir efast um að Háttatal í Snorra-Eddu sé ort af Snorra Sturlusyni en menn eru ekki jafnvissir um hvort hann hafi skrifað skýringarnar sem fylgja kvæðinu. Stundum eiga þær illa við þau erindi sem þau eiga að útskýra. Í útgáfu sinni á Háttatali telur Anthony Faulkes upp tíu dæmi um þetta. Á hinn bóginn bendir það til að Snorri hafi samið skýringarnar að höfundur þeirra skýrir vísur með svokölluðum refhvörfum, sem annars væru óskiljanlegar, og margsinnis telur hann sig þess umkominn að tala fyrir munn allra skálda um hvað sé rétt og fagurt í kveðskap. Sérstaklega er athyglisvert að hann segir að alhendur háttur sé fegurstur og vandaðastur allra hátta, en Sorrri orti sjálfur kvæði undir þeim hætti. Líklegt er að Ólafur Þórðarson vitni í Þriðju málfræðiritgerðinni til orða Snorra í Háttatali um hversu langt megi rekja kenningar, en það sýnir að til voru þeir sem töldu Snorra vera sérstaklega dómbæran á góðan kveðskap.
Oft má finna finna ástæður fyrir gölluðum skýringum Háttatals. Að vel athuguðu máli verður fátt eftir sem Snorri gæti ekki hafa skrifað. Í þessu erindi verður sérstaklega hugað að villum sem orðið hafa til við útgáfur á Snorra Eddu. Útgefendur hafa ekki reynt að endurgera líklegan texta Háttatals, heldur hafa þeir að mestu fylgt texta Konungsbókar (R) sem er eina handritið sem geymir allt Háttatal. Hér er því haldið fram að í nokkrum tilvikum hafi þeir birt texta sem líklega var ekki í frumgerð Háttatals og með því hafi þeir aukið misræmi milli skýringa Snorra og kvæðisins.
6. Ólafsþing var haldið 28. október 2023 í safnaðarheimili Neskirkju.
Dagskrá
10:00–10:05 Þingið sett
10:05–11:00 Þórhallur Eyþórsson: Arfur Kelta í íslensku máli — endurmat í ljósi nýlegra skrifa
11:00-11:30 Kaffihlé
11:30–12:00 Katrín Axelsdóttir: Allavega alveg
12:00-12:30 Jón G. Friðjónsson: Á stað eða af stað?
12:30–13:30: Hádegishlé
13:30-14:00 Teresa Dröfn Njarðvík: Tveggja-trölla sögnin og Hrafnistumenn: Þróun AT 301 í Ketils sögu hængs, Gríms sögu loðinkinna, Örvar-Odds sögu og Orms þætti Stórólfssonar
14:00–14:30 Yelena Sesselja Helgadóttir: „Já, hér mig, son minn og eg, og hér stöndum vér þrír Þórnaldarnir“: Hverjir mæla í Þórnaldarþulu?
14:30-15:00 Þorgeir Sigurðsson: Skáldatal Snorra Sturlusonar blóði drifið — Fyrirhuguð útgáfa á erkiriti
15:00–15:30 Kaffihlé
15:30–16:00 Kristján Árnason: Hugleiðing um hrynkerfisbreytingar í íslensku
16:00–16:30 Jón Axel Harðarson: Sögnin vökva í fornmáli: vøkva eða vǫkva? Eða bæði vøkva og vǫkva?
16:30–17:00 Guðrún Þórhallsdóttir: Mælti dǫg(g)la-, daugla-, dólga- eða døgladeilir?
17:00–18:00 Ráðstefnuslit og léttar veitingar
Ólafsþing er haldið í samstarfi við Málvísindastofnun Háskóla Íslands
Útdrættir erinda (eftir stafrófsröð fyrirlesara)
Guðrún Þórhallsdóttir: Mælti dǫg(g)la-, daugla-, dólga- eða døgladeilir?
Mannkenningin dǫg(g)ladeilir kemur fyrir á einum stað í íslenskum kveðskap, í fjórðu lausavísu Brennu-Njáls sögu, og er nokkur ráðgáta. Fyrri liður hennar er sérstaklega óljós. Í Íslenskri orðsifjabók tekur Ásgeir Blöndal Magnússon (1989: 143) ekki afstöðu til uppruna orðsins. Færslan tekur aðeins fram að fyrri liður samsetningarinnar eigi trúlega við fjármuni eða góðmálm en nefnifallsmynd orðsins sé „öldungis óviss“; þar gefur Ásgeir fjóra kosti: *dǫgl, *dǫgull, *dǫggull og *daugull.
Útgefendur Brennu-Njáls sögu og þýðendur hafa vitanlega þurft að skýra vísuna og kenninguna og ólíkar túlkanir hafa komið fram. Sú skoðun virðist útbreidd að fyrri liður samsetningarinnar sé eignarfall fleirtölu annars óþekkts nafnorðs, *dǫggull kk. ‛hringur’, sem leitt sé af no. dǫgg kvk. ‘áfall, bleyta á grasi’. Merking kenningar sem svari til „deilir hringa“ sé því ‘örlátur maður’. Þessi daggarhugmynd mun eiga rætur að rekja til framlags Jóns Jónssonar (Johnsonius) til Njáluútgáfunnar 1809. Margt fleira hefur þó verið lagt til, t.d. að rithátturinn ‘dogla’ sé misritun fyrir dolga, eignarfall fleirtölu nafnorðsins dolg hk. ‘orrusta’, enda sé trúlegra að í þessari vísu sé hermannskenning.
Í fyrirlestrinum verða ýmsar eldri hugmyndir reifaðar og nýrri varpað fram. Það vekur nefnilega athygli að fræðimenn hafa ekki talið fyrri lið samsetningarinnar geta verið døgla. Kominn er tími til að velta þeim kosti fyrir sér.
Jón G. Friðjónsson: Á stað eða af stað?
Í elsta máli er forsetningaþrennan á e-ð [‘hvert’] – á e-u [‘hvar’] – af e-u [‘hvaðan’] notuð með kerfisbundum hætti, t.d.:
ganga á land – búa/vera á landi – fara af landi brott
Nafnorð sem vísa til staðar falla inn í þetta munstur, t.d. bak, hólmur, svæði, svið, vettvangur, völlur, o.m.fl.
Ef stofnorðið er staður má þegar á 16. öld greina óreglu sem felst í breytingunni af stað > á stað, t.d.:
hann var svo léttur í spori þegar hann átti fara á stað, rétt eins og feigð kallaði að honum (s18 (SigPétLeik 46));
En kvaðst þá, að liðnum degi og eftir ráðum Einars, hafa farið á stað og eftir því [‘barninu’] til kvölds leitað (Alþ V, 373 (1635));
Síðan fór Davíð á stað (1. Sam 30, 9 (GÞ)) = Þá lagði Davíð af stað (Við);
leynt og ljóst leggja honum heilustu ráð sem eg kann á stað að koma við útlenska og innlenska (DI XI, 769 (1550) (OHR)).
Í erindinu verður leitað skýringa á þessari breytingu sem mun að mestu gengin til baka í nútímamáli. Til skilnings á breytingunni má ætla að mestu máli skipti að orðið staður getur glatað orðfræðilegri merkingu sinn og fengið í staðinn það sem kalla má hlutverksmerkingu.
Inntaksorð og hlutverksorð – orðfræðileg merking og hlutverksmerking. Orðaforða tungumáls má í grófum dráttum skipta í tvennt: Annars vegar er um að ræða merkingarbær orð, orð sem hafa orðfræðilega merkingu, t.d. nafnorð, sagnorð og lýsingarorð, og hins vegar orð sem hafa fyrst og fremst málfræðilegu hlutverki að gegna en hafa ekki skýra merkingu heldur hlutverksmerkingu, t.d. forsetningar, samtengingar og (sum) atviksorð. Til aðgreiningar má kalla fyrri flokkinn inntaksorð (e. lexical words; þ. Vollwörter, Inhaltswörter) en þann síðari hlutverksorð (e. (grammatical) function words, structure words; þ. Funktionswörter).
Til hlutverksorða má einnig nefna ýmis forsetningasambönd þar sem merking stofnorðs hefur breyst svo mjög að bein merking hefur bliknað eða er jafnvel alveg horfin. Ef skoðuð eru föst orðasambönd með stofnorðinu staður má sjá að það ræðst jafnan af samhengi eða setningafræðilegri stöðu hvort merkingin er orðfræðileg eða hlutverksleg. Til yfirlits má sýna þennan mun með eftirfarandi dæmum:
fara á stað [hvert] – fara af stað [hvaðan] – Hlutverksmerking
fara á staðinn [hvert] – fara af staðnum [hvaðan] – Orðfræðileg merking
Sem dæmi um orðfræðilega eða beina merkingu má nefna að ef kveðið er á um ‘stað’, t.d. með greini eða tilvísunarsetningu, helst orðfræðileg merking, t.d.:
Lögreglan fór/mætti á staðinn; NN fór á stað sem hann þekkti;
hann hafði fengið áður fyrr nokkra vitund af þessu, það hann mundi vilja ríða á staðinn og hafði því njósnarmenn í öllum áttum (f17 (Safnsög I, 88 (JE))).
Breytingin af stað > á stað nær einungis til dæma þar sem no. ‘staður’ hefur glatað orðfræðilegri merkingu og er notað í hlutverksmerkingu. Þetta virðist benda til þess orðfræðileg merking orðasambandsins af stað hafi veiklast, það hafi ekki verið gagnsætt að merkingu og það hafi greitt fyrir breytingunni.
Auk þessarar skýringar má benda á að þess eru mörg dæmi að tiltekinn merkingarþáttur verði umframur eða skipti ekki máli. Merkingarþátturinn ,hreyfing‘ er orðasamböndunum á stað [,hvert‘] og af stað [,hvaðan‘] sameiginlegur en eftir breytinguna verða merkingarþættirnir ,hvert‘ og ,hvaðan‘ umframir.
Í erindinu verður gefið (tæmandi) yfirlit yfir dæmi um breytinguna af stað > á stað á 16., 17., og 18. öld, allnokkurt yfirlit yfir dæmi frá 19. öld og loks verður sýnt tölulegt yfirlit yfir breytinguna á 20. og 21. öld á grunni dæma 20. hvert ár frá sama tímabili.
Jón Axel Harðarson: Sögnin vökva í fornmáli: vøkva eða vǫkva? Eða bæði vøkva og vǫkva?
Í handbókum er ýmist gert ráð fyrir að sögnin vökva hafi í eldri forníslensku verið vøkva eða vǫkva. T.d. hafa Jan de Vries (Altnord. etym. Wörterbuch) og Ásgeir Bl. Magnússon (Ísl. orðsifjabók) fyrri myndina en Frank Heidermanns (Wörterbuch der germ. Primäradjektive) þá síðari. Sögnin er leidd af lýsingarorðinu vökur (físl. vǫkr) ‘rakur, blautur’. Það liggur einnig til grundvallar nafnorðunum vökvi kk. og vökva kvk. Um þessi orð gildir hið sama og um sögnina vökva: mismunandi er hvort þau eru talin hafa haft myndirnar vøkvi, vøkva eða vǫkvi,vǫkva í eldri forníslensku. Það sem torveldar úrskurð um þetta er sú staðreynd að orðin koma ekki fyrir í elstu handritum þar sem sérhljóðunum ǫ [ɔ] og ø [ø] var enn haldið aðgreindum í skrift. Um og upp úr 1200 fellu þessi hljóð saman (> ö [œ]) og eftir það gat samfallshljóðið ýmist verið ritað með táknum hins gamla ǫ eða ø. Engu að síður má draga vissar ályktanir af vitnisburði handrita og þeim orðmyndum sem þar koma fyrir.
Í erindinu verður fjallað um ýmis vandamál sem tengjast ofangreindu. Þá verður reynt að skýra betur en áður hefur verið gert form og hlutverk umræddra orða. Enn fremur verður vikið að því hvort sögnin vekja í orðasamböndunum vekja e-m blóð ‘blóðga e-n, láta blóð renna úr æð e-s’ og vekja ís ‘gera op á ís’ sé af sama toga og sögnin vökva eins og sumir hafa haldið fram.
Katrín Axelsdóttir: Allavega alveg
Alveg er alþekkt orð og algengt. Það virðist þó eiga sér fremur skamma sögu í málinu og uppruni þess er ekki fullljós, ekki frekar en tengsl þess við ýmis áþekk orð í skyldum málum. Í orðabókum er það greint sem atviksorð og sú orðflokkagreining er oftast óumdeilanleg. En málið er oft ögn flóknara en ráða má af orðabókum. Færa má rök fyrir því að alveg geti stundum staðið sem lýsingarorð (líkt og atviksorðin svona og þannig geta gert). Enn fremur má leiða líkur að því að alveg geti stundum verið það sem kallað hefur verið orðræðuögn (e. discourse particle), og kunni þá jafnvel að gegna fleiri en einu slíku hlutverki. Merking orðsins sem atviksorðs er auk þess dálítið fjölskrúðugri en ráða má af orðabókum. Í fyrirlestrinum verður fyrst rætt um hugsanlegan aldur og uppruna og síðan um ýmsar merkingar eða hlutverk alveg í nútímamáli og fyrr. Einnig verður vikið að stöðu alveg í setningum, eldri dæmum sem stinga á einhvern hátt í stúf við nútímamál, samanburði við ýmis samheiti, s.s. algerlega og gersamlega, og mismunandi áherslu.
Kristján Árnason: Hugleiðing um hrynkerfisbreytingar í íslensku
Hrynkerfi (prósódía) tungumála byggja á samspili orðáherslu og setningaráherslu og birtist eins og í tónlist í breytilegri lengd, styrk og tónhæð. Hljóðdvalarbreytingin hafði áhrif á þessu sviði í íslensku og varð til þess að greinarmunur léttra (stuttra) og þungra (langra) áhersluatkvæða, sem gerður var í fornu máli, hvarf. Hinn hrynræni þáttur þessarar nýjungar fólst í því að öll rótaratkvæði urðu jöfn að upplagi. Önnur breyting sem virðist mega tengja þessum nýja stíl er að gamlar endingar, jafnvel með stoðhljóði sem komið hafði fram, tóku að bera ris og ríma á sextándu öld, en voru áður bragfræðilega veikar. Þetta endaði með því að Matthías Jochumson gat búið til línur eins og Ingólfur Arnar bur. Inn í þetta nýja kerfi féllu svo viðskeyttur greinir og miðmyndarendingar, sem upphaflega voru henglar (e. clitics), en urðu að endingum. Athugandi er með hvaða hætti hlutleysing langra og stuttra samhljóða, svo sem /n/ og /r/ í dæmum eins og Gunnarr > Gunnar, heiðinn > heiðin tengist þessu endurskipulagi. Um allt þetta gefur kveðskapur vísbendingar, sem er full þörf á að skoða nánar en gert hefur verið. Meðal stórra spurninga í þessu sambandi er hvort aðgreining svokallaðra tónkvæða muni hafa þróast (og lexíkalíserast) í íslensku og lifað e.t.v. lengur en margir hafa talið. Til að nálgast svar við þeirri spurningu er nauðsynlegt að huga að samspili setningatónfalls og orðáherslu, en slíkt tvinnast saman í hinum flóknu kerfum norsku og sænsku, og reyndar í hinu danska stuði, sem er formlega séð eins konar andhverfa orðtónanna.
Teresa Dröfn Njarðvík: Tveggja-trölla sögnin og Hrafnistumenn: Þróun AT 301 í Ketils sögu hængs, Gríms sögu loðinkinna, Örvar-Odds sögu og Orms þætti Stórólfssonar
Fornaldarsögur eru formúlukenndar, fylgja þekktum frásagnargerðum og innihalda gömul minni, sem styður hugmyndina um að þær séu eldri en talið hefur verið og eigi rætur sínar í munnlegum frásögnum. Ein algengasta frásagnargerð fornaldarsagna, og hugsanlega sú elsta, er tveggja trölla gerðin (e. two-troll tradition). Hún er afbrigði af frásagnargerðinni AT 301 sem er annars þekkt sem Bjarnarsonar saga eða Sagan af þremur stolnum prinsessum. Hér verður leitast við að greina gerðina í fjórum tengdum sögnum, Ketils sögu hængs, Gríms sögu loðinkinna, Örvar-Odds sögu og Orms þætti Stórólfssonar, en fyrstu þrjár eru oft nefndar Hrafnistusögur. Sögurnar fylgja ættboga um sex kynslóðir þar sem hetjur sagnanna berjast við tröll og í kringum þessa ætt myndaðist mikill sagnaarfur um trölladráp, frægðarverk og ofurmannlegan styrk. Þá mætti taka inn Orms þátt Stórólfssonar í flokk Hrafnitusagna því bæði fylgir þátturinn sömu formgerð auk þess sem Ormur er afkomandi Ketils hængs og því með Hrafnistublóð í æðum sér.
Hér verða þessar sögur skoðaðar, ekki aðeins út frá ritunartíma og handritageymd, heldur einnig litið á hvernig tveggja-trölla gerðin birtist í sagnafléttu þeirra og hvort þróun gerðarinnar geti varpað ljósi á sögurnar. Umfjöllun um þróun gerðarinnar er að miklu leyti byggð á rannsóknum J. Michael Stitt og litið verður á birtingarmynd gerðarinnar í þessum Hrafnistusögum ásamt því að athuga hvaða áhrif sögutími, landnám og kristnitaka hefur haft á uppbyggingu gerðarinnar í þessum sögnum.
Yelena Sesselja Helgadóttir: „Já, hér mig, son minn og eg, og hér stöndum vér þrír Þórnaldarnir“: Hverjir mæla í Þórnaldarþulu?
Þórnaldarþula hefur talsverða sérstöðu meðal þulna síðari alda. Hún er ein þeirra elstu, lengstu og einnig torskildustu, þrátt fyrir það að hún hafi ákveðinn frásagnarþráð (sem er ekki heldur dæmigert fyrir þulur). Erfiðleikar við túlkun þulunnar stafa þó ekki af því að varðveislu hennar sé ábótavant (eins og í tilfelli Grettisfærslu sem Þórnaldarþula líkist talsvert) heldur af því að megnið af frásögninni fer fram í samtölum þar sem er erfitt að greina hver segir hvað og jafnvel hversu margir tala saman. Mælendur tala til skiptis með óreglulegum og illfyrirsjáanlegum hætti, en textinn (eða handritin) gefa sjaldan til kynna hver tekur til máls, og hvenær næsti mælandi (eða 3. persónu frásögn) tekur við. Málið flækist enn vegna þess að Þórnaldarþula er varðveitt í rúmlega 150 handritum og hljóðritum sem geyma um 80 sjálfstæða texta þulunnar. Munurinn á textunum er oft talsverður og þeir eiga ekki endilega samleið hvað mælendaskiptingu áhrærir.
Í erindinu verður farið yfir þau atriði sem má nota sem vísbendingar um hver talar hverju sinni: bragfræðileg (hrynjandi, rím og stuðlasetningu) málfræðileg (persónufornöfn, persónu sagnorða, ávörp o.fl.) og handritafræðileg (greinarmerki o.fl.). Þessi atriði eru erfið viðureignar, hvert á sinn hátt, en í heild benda þau til þess að mikil óvissa sé í flestum þulutextunum um hver spyr spurninga og hver svarar þeim í seinni hlutanum. Í ljós kemur að jafnvel elstu og fyllstu uppskriftir Þórnaldarþulu (17.–18. öld) eru ekki á sama máli, og sama má jafnvel segja um náskyld handrit. Á 19. öld fækkar ávörpum til Þórnaldar í seinni hluta þulunnar og þá verður útilokað að túlka hana með vissu, en á 20. öld verður þulan sjaldgæfari, einfaldari og styttri, frásögn hennar ógreinilegri og áherslur færast af frásögninni yfir á annað efni.
Þorgeir Sigurðsson: Skáldatal Snorra Sturlusonar blóði drifið — Fyrirhuguð útgáfa á erkiriti
Ný útgáfa á Skáldatali mun birtast í ritrýndri grein í Són á þessu ári. Hér er sagt frá henni. Skáldatal var síðast gefið út 1887 af Jóni Sigurðssyni forseta með skýringum á latínu. Fræðimenn vísa enn til þeirrar útgáfu. Handrit Snorra Sturlusonar með Skáldatali er ekki varðveitt en tvö óháð afrit þess eru til. Tengsl þeirra við Snorra sjást á því að þau varðveittust með verkum hans: Heimskringlu og Snorra-Eddu. Tengslin sjást einnig á því að Skáldatal telur upp skáld með konungum Noregs frá og með Haraldi hárfagra, en í formála Heimskringlu segir að lofkvæði þessara skálda séu trúverðugasta heimild Heimskringlu. Hér eru afrit Skáldatals notuð til að endurgera Skáldatal Snorra, en það hefur ekki verið gert áður. Dánardægur Snorra var 23. september 1241, en um það leyti var erkirit Skáldatals fullbúið. Þetta er rökstutt með færslum erkiritsins um Ólaf hvítaskáld Þórðarson. Snorri Sturluson vann að gerð Heimskringlu og hélt skrá um norræn hirðskáld. Nafn greinarinnar vísar til þess að við blóðugan dauðdaga Snorra varð erkirit Skáldatals til.
Það er einkum tvennt sem gerir það auðveldara nú en áður að endurgera erkirit Skáldatals. Annað er að komið hefur í ljós afrit af hinu glataða Kringluhandriti Skáldatals eftir Ásgeir Jónsson, ritara Árna Magnússonar og Þormóðs Torfasonar sagnfræðings, en það hefur ekki verið notað áður í umræðu um Skáldatal. Hitt er sú athugun höfundar að röð skálda hjá hverjum tignarmanni sé merkingarbær og líkleg til að haldast í afritun. Ávinningur við endurgerð erkiritsins er margs konar, m.a. koma í ljós föðurnöfn tveggja skálda sem ekki var vitað um aður og fimm óþekkt skáld reynast aldrei hafa verið til.
Þórhallur Eyþórsson: Arfur Kelta í íslensku máli — endurmat í ljósi nýlegra skrifa
Sú skoðun hefur löngum notið alþýðuhylli hér á landi að gera sem mest úr keltneskum, einkum írskum, áhrifum á íslenska tungu og menningu á kostnað norræns uppruna. Aðrir hafa þó aðhyllst varfærnari afstöðu, t.d. Helgi Guðmundsson (1997) sem fjallar á gagnrýninn hátt um orð sem talin hafa verið komin úr keltneskum málum. Nýlega hefur Þorvaldur Friðriksson (2022) blandað sér í leikinn og staðhæfir að mun stærri hluti íslensks orðaforða sé af keltneskum rótum en hingað til hefur verið álitið. Að hans dómi eru það rúmlega 350 orð, auk fjölda örnefna, mannanafna og orða um dýr og jurtir.
Lítið hefur verið fjallað um staðhæfingar Þorvalds á fræðilegum nótum. Þeim mun ákafari hafa umræður og deilur um þetta efni verið á meðal leikmanna, t.d. á samfélagsmiðlum. Þessi fyrirlestur er tilraun til að leggja hlutlægt mat á fræðilegt gildi sumra þeirra fullyrðinga um uppruna íslenskra orða sem settar eru fram í bók Þorvalds og skoða hvort þær séu rökstuddar og þá hve sannfærandi rökin séu. Athugað verður hvernig Þorvaldur markar sér stöðu gagnvart öðrum höfundum sem fjallað hafa um þessi efni. Í anda hefðbundinnar samanburðarmálfræði verður lögð áhersla á mikilvægi kerfisbundinna hliðstæðna í samanburði á tungumálum. Kannað verður hvort og þá hvaða heimildir séu fyrir ættfærslum einstakra orða í riti hans og hvert vægi þeirra sé fyrir röksemdafærsluna. Þá verður gefinn gaumur að málfræðilegum atriðum sem snerta hljóðkerfi og beygingar, en líka að merkingu orða og að meintri eða raunverulegri samsvörun þeirra í íslensku og írsku. Loks verður fjallað um þá staðreynd að sum orðin koma fyrir í öðrum málum en íslensku og írsku, t.d. latínu og öðrum skyldum málum.
Almenn spurning sem leitast verður við að svara í erindinu er: Hvernig á að sýna fram á að orð séu af innlendri rót eða fengin að láni úr öðrum málum? Stóra spurning er loks: Hvernig hefur höfundi tekist til í viðleitni sinni?
5. Ólafsþing var haldið 22. október 2022 í safnaðarheimili Neskirkju
Dagskrá
09:25–09:30 Þingið sett
9:30–10:00 Matteo Tarsi: ‘Læra’ og ‘kenna’ í germönsku
10:00–10:30 Jón Símon Markússon: Er eitthvað að marka mörkun? Um beygingarþróun færeysku nafnorðanna vøllur og fjørður
10:30-11:00 Þórhallur Eyþórsson: Gotnesk forskeyti – milli indóevrópsku og germönsku
11:00-11:30 Kaffihlé
11:30-12:00 Haukur Þorgeirsson: Nafn Þórs
12:00–12:30 Guðrún Þórhallsdóttir: Fleiri fornnorræn dýraheiti: bassi, gassi — og *hrussi?
12:30–13:30: Hádegishlé
13:30–14:00 Guðvarður Már Gunnlaugsson: Nokkur orð um Lundarbók
14:00–14:30 Þorgeir Sigurðsson: Hönd númer 2 í Uppsala-Eddu
14:30–15:00 Helgi Skúli Kjartansson: Margt líkt með skyldum: Hvernig stafsetning Sturlu skýrir tvíhljóðafræði Ólafs
15:00–15:30 Kaffihlé
15:30–16:00 Jón Axel Harðarson: Áletrunin á hjálmi B frá Negau
16:00–16:30 Katrín Axelsdóttir: Ásbjörg besta barn
16:30–17:00 Kristján Árnason: Áherslur og hugsjónir í íslenskri málboðun fyrr og nú
17:00–18:00 Ráðstefnuslit og léttar veitingar
Ólafsþing er haldið í samstarfi við Málvísindastofnun Háskóla Íslands
Útdrættir erinda (eftir stafrófsröð fyrirlesara)
Guðrún Þórhallsdóttir: Fleiri fornnorræn dýraheiti: bassi, gassi — og *hrussi?
Á Ólafsþingi árið 2021 fjallaði ég um sögu nafnorðsins kusi/kussi ‘kálfur’ og þriðju útgáfu þess, kursi, sem varðveitt er í einum texta, Guðmundar sögu biskups. Í þeim fyrirlestri barst orðið bessi ‘björn’ einnig í tal enda eiga þessi orð það sameiginlegt að koma fyrir rituð með ‘rs’. Nánari athugun hefur beint athyglinni að fleiri dýraheitum sem beygjast veikt og enda á -ssi, m.a. bassi ‘villigöltur, björn’, gassi ‘gæsarsteggur’ og hrússi ‘hrútur’.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um nokkur þessara orða. Meðal annars verður uppruni orðsins bassi ræddur og vægi ritmynda með ‘rs’ í nokkrum handritum, en þær hafa fræðimenn tekið alvarlega og endurgert frg. *barsan- eða *barhsan- á grundvelli þeirra. Einnig verður rætt um þá ályktun Griepentrogs (1995) að orðin kussi, gassi og hrussi [svo] sýni að í orðum með langt sérhljóð og eitt samhljóð á eftir hafi orðið lengdarvíxl sem séu sambærileg við littera-regluna í latínu (breytinguna lītera > lĭttera). Þess konar hljóðregla fær vitanlega ekki staðist nema orðin hafi í raun og veru haft langt rótarsérhljóð og stakt s fyrir breytinguna og orðið hrússi hafi haft stutt sérhljóð að fornu.
Guðvarður Már Gunnlaugsson: Nokkur orð um Lundarbók
Í háskólabókasafninu í Lundi á Skáni er varðveitt eitt fegursta miðaldahandrit sem gert hefur verið á norrænu málsvæði. Það er norsk lögbók sem líklegt er að hafi verið skrifuð í Björgvin snemma á fjórtándu öld. Í handritinu er einnig færeyska Sauðabréfið sem hefur fengið marga fræðimenn til að tengja það við Færeyjar og sumir hafa jafnvel gengið svo langt að kalla það færeyskt. Aðrir hafa ekki gengið svo langt en viljað hafa skrifarann færeyskan og hafa þar með talið handritið hluta af færeyskum málheimildum. Í þessum fyrirlestri verður handritinu lýst og farið yfir sögu þess og hugmyndir manna um þjóðerni þess.
Haukur Þorgeirsson: Nafn Þórs
Í Þórsdrápu og Hymiskviðu eru þrír staðir þar sem nafn Þórs kemur fyrir og bragfræðilega mætti búast við tvíkvæðu orði með stuttu fyrra atkvæði. Sumir fræðimenn hafa þar endurgert myndir eins og *Þóarr eða *Þonurr. Aðrir, ekki síst Lindroth („Gudenamnet Tor“, 1916), hafa bent á erfiðleikana við að gera ráð fyrir tvíkvæðri mynd nafnsins í norrænu. Í erindinu verður farið í saumana á bragfræðilegu rökunum fyrir tvíkvæðri mynd og reynast þau sterk. Þá verður metið hvers konar tvíkvæða mynd gæti helst komið til greina að endurgera og bent á mögulegar hliðstæður.
Helgi Skúli Kjartansson: Margt líkt með skyldum: Hvernig stafsetning Sturlu skýrir tvíhljóðafræði Ólafs
Í Þriðju málfræðiritgerðinni fjallar Ólafur Þórðarson á einum stað um „límingarstafi í rúnum“. Ætla mætti að það hugtak merki bandrúnir. Svo reynist þó ekki vera heldur vakir fyrir Ólafi tvíhljóðakerfi íslenskunnar, og það íslenska stafrófsins fremur en hljóðkerfisins (tvíhljóðar, ekki tvíhljóð).
Íslensku tvíhljóðana ber Ólafur saman við „diptongi í látínustafrófi“ sem hann skilgreinir raunar hljóðfræðilega, þ.e. sem eiginleg tvíhljóð, og sýnir þar málfræðikunnáttu sem ekki er sótt til aðalheimildar hans, Priscianusar.
Samanburðurinn er um sumt óvæntur, ekki síst að af íslensku tvíhljóðunum sé það um /ei/ sem sagt er „er sá diptongus ekki í látínu“; en sú hæpna staðhæfing er raunar skiljanleg í samhengi Priscianusar.
Hins vegar er engin athugasemd um /ey/, því líkast sem Ólafur þykist þekkja það úr latínu.
Ólafur Halldórsson hefur bent á viss stafsetningareinkenni sem rekja megi til Sturlu Þórðarsonar, sérstaklega að tvíhljóðið /ey/ hafi Sturla tamið sér að rita sem <ev>.
Þessa stafsetningu er ekki ólíklegt að Ólafur Þórðarson hafi notað líka, Sturla jafnvel lært hana af eldri bróður sínum eða þeir báðir af sama skriftarkennara. Það myndi þá skýra hvernig Ólafur gat lagt að jöfnu íslenskt /ey/ og latneskt /eu/, en það er einn af fjórum „diptongi“ Priscianusar.
Jón Axel Harðarson: Áletrunin á hjálmi B frá Negau
Árið 1812 fannst í aldingarði við þorpið Negau (nú Ženjak) í Slóveníu hirsla sem hafði að geyma 26 hjálma af etrúskri gerð, nánar tiltekið þeirri gerð sem kennd er við borgina Vetulonia, og eru þeir taldir frá um 500–450 f. Kr. Á einum hjálminum, þ.e. hjálmi ‘B’ eða ‘22’, er áletrunin sem um verður rætt í erindinu.
Á hjálmbarðinu stendur með venetísku letri ritað frá hægri til vinstri: harigastiteiva; þar á eftir koma strik sem að öllum líkindum eru engin rittákn heldur einungis til skrauts. Áletrunin er frá lokum 2. eða upphafi 1. aldar f. Kr. en hjálmurinn er, eins og fram hefur komið, miklu eldri. Túlkun áletrunarinnar er umdeild en yfirleitt er hún talin elsta heimild okkar um germanskt mál. Almenn sátt ríkir um að hún geymi mannsnafnið Harigasti, sett saman úr forliðnum Hari- og viðliðnum -gasti‑. En skoðanir eru skiptar um frekari greiningu orðmyndarinnar. Þess má geta að viðliðurinn hefur verið skýrður sem germönsk, keltnesk, retísk eða latnesk fallmynd. Enn umdeildara er hvernig skýra ber stafarununa teiva en hún er þó oftast talin endurspegla nafn germanska herguðsins sem á norrænu heitir Týr.
Í erindinu verður gerð grein fyrir helstu skýringum á áletruninni auk þess sem frekari stoðum verður rennt undir þá túlkun sem fyrirlesara þykir sennilegust.
Jón Símon Markússon: Er eitthvað að marka mörkun? Um beygingarþróun færeysku nafnorðanna vøllur og fjørður
Í færeysku hafa fjölskrúðug stofnsérhljóðavíxl gamalla u-stofna verið jöfnuð út að mestu leyti, sbr. t.d. nf.et. vøllur ~ þf.et. vøll ~ þgf.et. vølli ~ nf./þf.ft. vøllir ~ þgf.ft. vøllum. Þó stingur beyging fær. fjørður í stúf við þessa þróun, en gömlu víxlin hafa haldist auk þess sem minnst tvær nýjar myndir hafa bæst við beygingardæmið, sbr. þgf.et. fjørði, þgf.ft. firðum o.fl. Útjöfnun hefur aðallega verið skoðuð frá tveimur ólíkum sjónarhornum. Önnur nálgunin gerir merkingu, formlegum einkennum og tíðni einstakra mynda hátt undir höfði og er þá gjarnan vísað í svokallaða „mörkun“. Yngri nálgunin gerir ráð fyrir að tíðni ein ráði ferðinni. Merkingarfræðilegur snertiflötur orðanna vøllur og fjørður gerir því samanburð á ólíkri stefnu útjöfnunar tilvalinn, enda vísa fær. vøllur og fjørður hvort til sinnar tegundar af landslagi. Niðurstöður tíðnirannsóknar benda til þess að við beygingarþróun fær. vøllur hafi stofnmyndin nf./þf.et./þgf.ft. vøll– sótt á vegna skorts á afgerandi tíðnimismun milli aðgreindra mynda orðsins. Aftur á móti virðist há staktíðni þgf.et. firði hafa stuðlað að tilurð þgf.ft. firðum við beygingarþróun fær. fjørður vegna tíðrar notkunar stofnmyndarinnar firð– í setningafræðilega samhenginu [í/á/úr FJØRÐURþgf.]. Nú er yngri þgf.ft. firðum langtum tíðari en eldri fjørðum og því innihalda sjálfgefnar myndir fleirtölunnar stofnmyndina firð-, sbr. nf./þf.ft. firðir, þgf.ft. firðum. Færð verða rök fyrir því að eftir tilurð yngri þgf.ft. firðum hafi myndast tengsl milli formsins firð– og merkingarinnar fleirtölu sem varð svo hvatinn að tilraun til að greina að eintölu og fleirtölu með formlegum hætti: et. fjørð– gegn ft. firð‑. Þó hefur yngri þgf.et. fjørði aldrei náð verulegri fótfestu í færeysku sökum samkeppni við eldri þgf.et. firði sem hefur alltaf verið rótfastari vegna hárrar tíðni.
Katrín Axelsdóttir: Ásbjörg besta barn
Rúnaáletranir geta verið erfiðar viðfangs. Letrið getur verið máð, ristan sködduð og samhengið er kannski ekki þekkt. Þá kann sá sem risti að hafa gert mistök sem torvelda skilninginn. En einnig er til að rúnameistarar villi af ásettu ráði fyrir lesandanum, með því að víkja frá hefðbundnu rúnaletri. Þá er talað um dulrúnir (e. cryptic runes, n. lønnruner, þ. Geheimrunen). Ýmsar leiðir var hægt að fara í þessu skyni og tilgangur dulrúna virðist hafa verið margvíslegur (Nordby 2018).
Þótt borin hafi verið kennsl á ýmsar dulrúnaaðferðir liggur ekki alltaf ljóst fyrir að um dulrúnir sé að ræða yfirleitt. Á hinn bóginn er stundum nokkuð greinilegt að um tiltekið kerfi eða aðferð sé að ræða en ristan er þó engan veginn auðtúlkuð. Eitt slíkt tilvik er á rúnakefli frá Bryggjunni í Bergen (B660). Hún hefst á orðunum aspiørg5hitpæstaparn, ‚Ásbjörg hið besta barn‘, sem rituð eru með venjulegu rúnaletri og auðskilin. Það sem kemur næst er rist með dulrúnum og erfiðara viðureignar. Í fyrirlestrinum verður litið á þessa ristu og nokkrar aðrar sem hún á sitthvað sameiginlegt með.
Nordby, K. Jonas. 2018. Lønnruner. Kryptografi i runeinnskrifter fra vikingtid og middelalder. Institutt for lingvistiske og nordiske studier, Universitetet i Oslo, Osló.
Kristján Árnason: Áherslur og hugsjónir í íslenskri málboðun fyrr og nú
Vel má halda því fram að þeir frændur Snorri Sturluson og Ólafur hvítaskáld, að ógleymdum og öðrum málfræðingum miðalda, hafi verið eins konar áróðursmenn fyrir viðgangi íslenskrar tungu, sem þá var reyndar kölluð norræna. Þeim fannst ástæða til að státa af þeim arfi sem fólst í skáldskap og sögnum og höfðu hugmyndir um gæði málnotkunar. Þessi þráður var spunninn áfram í siðaskiptum og „málhreinsun“ nítjándu aldar. Í bland við háleitar hugmyndir um merkilegan arf er svo óttinn við dauðann, að íslensk tuga deyi út, annað hvort úr innanmeini vegna lélegrar málnotkunar, eins og Eggert Ólafsson var hræddur um, eða vegna þess að aðrar tungur tækjust á við hana og felldu í eins konar einvígi.
Nú á tímum virðist mér vera á ferðinni einhver blanda af dauðaóttanum (talað um stafrænan dauða) og þess sem kalla má málsiðfræðilegan boðskap. Því er haldið fram að strangar formkröfur skapi ótta við íslenskt móðurmál, og að það sé kúgunartæki. Allt er þetta í bland við vinsælar kenningar um algilda málkunnáttu. Ég mun velta fyrir mér hvað hinar nýju hugmyndir eiga sameiginlegt þeim eldri. Einnig má spyrja hvort líklegt sé að umræður af þessu tagi muni hafa einhver áhrif til eða frá um það sem kalla mætti „örlög“ íslenskrar tungu eða formþróun hennar. Hvað felst í uppástungum um að kominn sé tími til að taka upp nýjan málstaðal?
Matteo Tarsi: ‘Læra’ og ‘kenna’ í germönsku
Þrátt fyrir að gotneska varðveiti alla fjóra flokka veikra sagna, hefur hún enga -nō/na-sögn í merkingunni ‘læra’. Að breyttu breytanda gildir hið sama um norrænu. Vesturgermanska er eina grein germönskunnar sem varðveitir slíka sögn, frg. *liz-nō/na- > fe. leornian, fsax. līnōn (með r-brottfalli og uppbótarlengingu), lernōn, fhþ. lernōn, (→) lernēn, lirnēn, o.s.frv. Þessi útkoma myndar frávik þar sem -nō/na-sagnir eru frjór flokkur einungis í gotnesku og norrænu þannig að búast hefði mátt við allt annarri útkomu.
Merkingin ‘kenna’ er nokkuð tengd ‘læra’, og sagnir í báðum merkingum má rekja til ie. *leis- ‘læra’ (upprunaleg merking sagnarinnar í germönsku, orðin til úr ‘fylgja’, sbr. le-lói̯s/lis–‘hafa fylgt’ (perfektstofn) > ‘vita’ og að breyttu breytanda fgr. οἶδα ‘ég veit’, gotn. witan, físl. vita o.s.frv. úr ie. *u̯oi̯d- ‘hafa séð’ (perfektstofn) > ‘vita’. Sagnir í merkingunni ‘kenna’ myndaðar af þessari rót í germönsku er að finna í gotnesku (laisjan [með analógísku s-i eftir núþálegu sögninni lais, LIV2, s.r. *lei̯s-]) og vesturgermönsku (fe. lǣran, fsax. lērian, fhþ. lēren o.s.frv.). Þessar sagnir, sem rekja má til frg. *laiz-ija-, kallast orsakarsagnir (eða orsökunarsagnir) og þýða ‘láta/gera X’, þar sem X er grunnmerking rótarinnar.
Norræna sögnin læra er tökuorð úr fornensku og var upprunaleg merking hennar ‘kenna’ (sjá t.d. Spakmæli Prospers [hdr. frá fyrsta fjórðungi 13. aldar] þar sem í latínu segir doceat ‘kenni hann’ en á norrænu lęri, ONP, u.o. læra). Hin merkingin þróaðist seinna, e.t.v. vegna tengsla á milli norrænu og mála á borð við miðensku og miðlágþýsku. Miðmyndin lærask var notuð um 1200 í merkingunni ‘læra’ (sjá t.d. Íslensku hómilíubókina af boka lestre læromc ver, ONP, u.o. læra). Miðmyndin í norrænu er sambærileg við gotn. laisjan sik annars vegar og sæ. lära sig hins vegar.
En staða þessa merkingarpars í germönsku er nokkuð flóknari, þar sem a.m.k. fimm aðferðir hafa verið notaðar til að tákna merkingarnar tvær.
Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir hvaða aðferðir germönsk mál hafa notað til að tákna merkingarnar ‘læra’ og ‘kenna’. Í lokin verður stuttlega drepið á stöðu þessara merkinga í indóevrópsku málafjölskyldunni í aldanna rás.
Þorgeir Sigurðsson: Hönd númer 2 í Uppsala-Eddu
Öll handrit Snorra-Eddu eru frá 14. öld eða síðar. Uppsalabók og Konungsbók eru frá byrjun aldarinnar. Í Uppsalabók eru yngri rithendur. Anders Grape [1] telur eina þeirra vera frá 14. öld. Hún kemur fyrir á eftirtöldum síðum 8:27-28, 9, 12:19, 21: 26-28, 71, 78, 79, 79:7 og 80. Eigandi handarinnar hefur þekkt innihald annarrar gerðar Snorra-Eddu, sem sést t.d. á heitinu Eikþyrnir sem er Takþyrnir í SE (Gylfaginningu) í U. Hönd 2 bætir nafninu Eikþyrnir við nöfn hinda í Skáldskaparmálum SE U í línu 7 á bls. 79 og skrifar hindaheiti á spássíu. Hönd 2 bætir við meira en 100 heitum í Snorra-Eddu Uppsalabókar. Sum koma aðeins fyrir í þulum í einu handriti. Á blaðsíðu 8 er stef í Völuspá skammstafað (ranglega) án þess að hafa komið fyrir áður. Stefið er ekki annars staðar í U. Hönd 2 skrifar texta stefsins neðanmáls.
Í Skáldatali í U er síðasti Noregskonungur Eiríkur Magnússon (d. 1299), en yngri hönd bætti við tveimur næstu konungum. Hönd 2 hefur líklega skrifað þrjár dróttkvæðar vísur á fyrstu síðu U. Sú fyrsta gæti verið kveðin fyrir munn Baldurs i Helheimum. Grape taldi höndina á þessum vísum vera frá 15. öld og sama hefur ranglega verið sagt um höndina sem skrifaði fyrsta vísuorð Rígsþulu á bls. 42. Það er hvergi annarsstaðar nema í Wormsbók og er réttara hér [2].
Hönd 2 líkist hönd Einars Hafliðasonar en fer þó öðruvísi með áherslulaus sérhljóð. Á Ólafsþingi 2022 og í nýrri útgáfu Hins íslenska fornritafélags á Snorra-Eddu verður gerð grein fyrir ofantöldu.
[1] Grape et al. (eds). 1977. Snorre Sturlassons Edda. Uppsala-handskriften DG 11. Transkriberad text och Paleografisk kommentar av Anders Grape, Gottfried Kallstenius och Olof Thorell. Inledning och Ordförråd av Olof Thorell. Uppsala: Almquist och Wiksell.
[2] Finnur Jónsson. 1884–91. Småstykker 1–16. København: SUGNL.
Þórhallur Eyþórsson: Gotnesk forskeyti – milli indóevrópsku og germönsku
Í þýsku nútímamáli eru sagnarforskeyti ýmist föst eða laus (þ. ertrinken ‘drukkna’ en austrinken ‘klára að drekka’, sbr. Sie ertrinkt ‘hún drukknar’ en Er trinkt aus ‘hann drekkur (glasið) í botn’). Í norrænum málum féllu föstu forskeytin snemma brott en leifar þeirra er þó enn að finna í stirðnuðum orðmyndum og í „fylliorðinu“ fræga í forníslensku (ögnunum of og um). Á grundvelli samanburðar við önnur forngermönsk mál, gotnesku, fornensku, fornsaxnesku og fornháþýsku, er ljóst að slík forskeyti hljóta að hafa verið til í germönsku á elstu tíð. Eins og best sést í gotnesku voru forskeyti sem samsvara föstu forskeytunum í þýsku ekki alveg samvaxin við sögnina, þar sem henglar (en ekki önnur orð) gátu fleygað forskeytta sögn þegar hún var í tiltekinni setningafræðilegri stöðu (gotn. ga-saihvan ‘sjá’, us-gaggan ‘fara (burt)’ sbr. frah ina ga-u-hva-sehvi ‘hann spurði hann hvort hann sæi nokkuð’, uz-uh-iddja fram attin ‘og ég fór frá föðurnum’). Þó að slíkt eigi sér ekki hliðstæðu í germönskum nútímamálum koma svipuð „hálf-föst“ forskeyti fyrir í öðrum fornlegum málum, t.d. fornírsku og litháísku. Hins vegar hafa sagnarforskeyti í elstu indóevrópsku málunum, einkum hettítísku, vedískri sanskrít og hómerskri grísku, meira sjálfstæði en í málum eins og gotnesku. Í þessu erindi lýsi ég fyrirbærum af þessu tagi og útlista þróun „innlimunar“ (e. incorporation) forskeyta í nokkrum fornum indóevrópskum tungumálum. Í lokin mun ég reifa hugmyndir um gildi forskeyttra sagna í indóevrópskum málum fyrir endurgerð forsögulegs málstigs, ekki aðeins að því ert snertir orðmyndun heldur líka setningagerðir þar sem forskeyttar sagnir koma fyrir.
4. Ólafsþing var haldið 23. október 2021 í safnaðarheimili Neskirkju
Dagskrá:
08:55-09:00
Þingið sett.
09:00-10:30
Auður Hauksdóttir: Tengsl íslensku, færeysku og norsku við dönsku
Guðvarður Már Gunnlaugsson: Röð sagnanna í Möðruvallabók
Már Jónsson: Villur og leiðréttingar í Staðarhólsbók (AM 334 fol.)
10:30-11:00
Kaffihlé
11:00-12:30
Jón Friðjónsson: Tefldu í túni … Skák eða manntafl í fornu máli
Guðrún Þórhallsdóttir: „Dauðr er kursi, faðir!“ „Óvæntur“ rs-ritháttur og tilbrigðin kursi/kussi/kusi ‘kálfur’
Jón Axel Harðarson: Áhrifsmyndanir í forsögu íslenska sagnkerfisins
12:30-13:30
Matarhlé
13:30-15:30
Haukur Þorgeirsson: Hrynjandi í kveðskap á latínu og norrænu
Yelena Sesselja Helgadóttir: Endarím mætir stuðlum – í annað sinn
Kristján Árnason: Hljóðkerfisbylting í að því er virðist stöðugu beygingarkerfi
Helgi Skúli Kjartansson: Að heyra erkibiskups boðskap – í tvítölu
15:30-16:00
Kaffihlé
16:00-17:00
Margrét Jónsdóttir: Um nafn á húsi
Aðalsteinn Hákonarson: Græns-örnefni
17:00-18:00
Léttar veitingar
Útdrættir Erinda (í stafrófsröð)
Aðalsteinn Hákonarson: Græns-örnefni
Litarorðið grænn kemur fyrir sem forliður í hundruðum íslenskra örnefna, venjulega í stofnmynd, s.s. Grænhóll, eða veikri mynd, s.s. Grænihryggur. Einnig eru dæmi um að sterk eignarfallsmynd myndi forlið, s.s. Grænsdalur, en slíkar samsetningar virðast ekki í samræmi við almennar orðmyndunarreglur málsins. Fundist hafa tíu dæmi um Græns-nöfn (afleidd nöfn ekki meðtalin) og sýnir nánari athugun að í öllum tilvikum er sami staður einnig þekktur undir Grens-nafni, s.s. Grensdalur. Í nokkrum tilvikum benda heimildirnar sterklega til þess að Grens-nafnið sé upphaflegt og virðist rétt að álykta að Græns-nöfnin séu almennt orðin til við breytingu úr Grens-nöfnum. Breyting forliðarins Grens– í Græns– virðist vera endurtúlkun af því tagi sem nefnd er alþýðuskýring og er óvenjulegt finna að svo mörg dæmi um sams konar breytingu af þeirri gerð. Í erindinu verður sagt frá rannsókn á Græns-nöfnum og hugað að þýðingu þeirra í víðara samhengi.
Auður Hauksdóttir: Tengsl íslensku, færeysku og norsku við dönsku
Ísland, Færeyjar og Noregur eiga það sameiginlegt að hafa átt í langvarandi sambandi við Danmörku. Löndin þrjú urðu hluti af dansk-norska konungsríkinu við stofnun þess undir lok fjórtándu aldar og þau voru hluti af Kalmarsambandinu á tímabilinu 1397-1523. Af þessum sökum voru íslenska, færeyska og norska í margvíslegum tengslum við danska tungu og menningu frá því um 1380 og fram yfir aldamótin 1800, þegar leiðir norsku og dönsku skildi. Norrænu tungurnar þrjár eru af sama meiði, en þær þróuðust með ólíkum hætti eftir því sem tímanum vatt fram. Í því sambandi skiptu tengslin við aðrar tungu miklu máli.
Af ýmsum ástæðum voru tengsl málanna þriggja við dönsku á margan hátt ólík, bæði hvað varðar eðli (karakter) þeirra og umfang (intensitet), en þessir þættir skipta sköpum fyrir áhrif (effekt) aðkomumálsins á viðtökumálið. Rannsóknir sýna að ýmsar ytri aðstæður, sem vörðuðu tengslin við dönsku, höfðu mikil áhrif á stöðu íslenskrar, færeyskrar og norskrar tungu í málsamfélaginu, m.a. með tilliti til hvernig og í hvaða tilgangi tungurnar voru notaðar í málsamfélaginu og með hvaða hætti þær þróuðust.
Í fyrirlestrinum verður varpað ljósi á ýmsa ytri þætti er varða tengsl íslensku, færeysku og norsku við dönsku frá því um siðaskipti og fram til um aldamótin 1800. Ólík tengsl tungumálanna við dönsku verða dregin fram, gerð verður grein fyrir einkennum þeirra og rætt hvernig þau höfðu áhrif á vöxt og viðgang málanna.
Guðrún Þórhallsdóttir: „Dauðr er kursi, faðir!“ „Óvæntur“ rs-ritháttur og tilbrigðin kursi/kussi/kusi ‘kálfur’
Í nýlegri orðsifjabók germanskra mála tengir Guus Kroonen nafnorðið kursi ‘kálfur’, sem varðveitt er í Guðmundar sögu biskups, við orð í sanskrít og tokkarísku og túlkar þau sem samsett úr frie. *gw(e)h3– ‘kýr’ og *ursén- ‘karlkyns (dýr)’. Þannig megi gera ráð fyrir frumgermanska nafnorðinu *kursan- sem físl. kursi sé komið úr. Þessi skýring keppir við eldri hugmynd um myndun nafnorðsins kusi af stofni orðsins kýr með gæluviðskeyti, en það kemur einnig fyrir ritað kussi.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um tengsl myndanna kursi, kussi og kusi og valið á milli framangreindra skýringa. Til þess að svo megi verða verður óhjákvæmilega rætt um hljóðbreytinguna rs > ss og ummerki um hana í handritum. Þar koma við sögu eldri og yngri myndir á borð við fors og foss, þar sem skrifarar rita ‘foss’ í samræmi við yngri framburð, og einnig orðmyndir með rs á undan samhljóði, t.d. efsta stigs myndir á borð við fyrst sem er einnig ritað ‘fyst’. Enn forvitnilegri eru dæmi um „óvænt“ rs ritað í orðmyndum eins og fn. ‘þersi’ (í stað þessi) og þf. et. ‘mersv’ (í stað messu) sem kalla má öfuga stöfun. Þær vekja spurningar um ritvillur nú á dögum því að skrifarar fyrri alda og Íslendingar á 21. öld eru í svipuðum sporum: Er mikið um að fólk skjóti r inn á undan s þar sem það á ekki heima?
Guðvarður Már Gunnlaugsson: Röð sagnanna í Möðruvallabók
Möðruvallabók sem hefur safnmarkið AM 132 fol. er stærsta varðveitta miðaldasafn Íslendingasagna — alls 200 blöð á bókfelli — og þekktasta handrit þeirra; hún er talin skrifuð um miðja fjórtándu öld. Á henni eru 11 sögur og er hún aðalhandrit flestra sagnanna og í mörgum tilvikum eina miðaldahandritið sem hefur að geyma þær heilar. Af því leiðir að hún er eitt mikilvægasta handrit Íslendinga.
Af þessum 11 sögum eru Brennu-Njáls saga, Egils saga Skallagrímssonar og Fóstbræðra saga ekki varðveittar heild sinni. Það hafa týnst nokkur blöð framan af Njáls sögu en í staðinn hafa verið sett skinnblöð frá 17. öld svo að það vantar nánast ekki neitt í texta sögunnar. Að auki hafa týnst mörg blöð aftan af Fóstbræðra sögu. Njáls saga er nú fremst í handritinu en Fóstbræðra saga er aftast. Njáls saga endar á recto-síðu aftasta blaðs í kveri og er afgangur blaðsins auður. Egils saga hefst á verso-síðu fremsta blaðs í næsta kveri en fremsta síðan er auð. Þessi atriði vekja upp grunsemdir um að röð sagnanna kunni að hafa verið önnur þegar handritið var skrifað.
Í fyrirlestrinum verður farið yfir röð sagnanna í Möðruvallabók og færð rök fyrir því að upphafleg röð þeirra hafi ekki verið sú sama og nú, heldur hafi Egils saga átt að vera fremst í handritinu og Njáls saga hafi sennilega rekið lestina.
Haukur Þorgeirsson: Hrynjandi í kveðskap á latínu og norrænu
Ákveðin líkindi má greina milli þeirrar braglistar sem iðkuð var í Rómaveldi hinu forna og germansks brags eins og við þekkjum hann í heimildum frá miðöldum. Hans Kuhn taldi óvíst hvort um væri að ræða sameiginlegan arf, áhrif tilkomin á þjóðflutningatímanum eða jafnvel einskæra tilviljun (Das Dróttkvætt, bls. 55). Í erindinu verður farið í saumana á þessum líkindum og ekki síst þeirri togstreitu sem skapast þegar bragurinn tekur bæði tillit til áherslu og lengdar atkvæða. Líkindin í þessum efnum kunna að vera nánari en Kuhn gaf til kynna. Hverjar sem orsakirnar eru getur samanburðurinn varpað nokkru ljósi á listfengi forns kveðskapar.
Helgi Skúli Kjartansson: Að heyra erkibiskups boðskap – í tvítölu
Ein lykilheimild Íslandssögunnar á seinni hluta 12. aldar, sem sagnfræðingar hafa iðulega vitnað til, er umvöndunarbréf Eysteins erkibiskups, væntanlega frá 1180 (Ísl.fornbrs. I, bls. 260–263). Þar ávarpar hann íslenska höfðingja með nafni, ýmist fimm eða tvo, og segir þeim eftirminnilega til syndanna fyrir „óhreinlífi … og kvennafar“ og að lifa „búfjárlífi“.
Bréfið er væntanlega samið á latínu en virðist þýtt á Íslandi (trúlega á vegum Þorláks biskups til birtingar á Alþingi). Það er varðveitt í einu handriti, skinnbók frá seinni hluta 15. aldar. Ýmislegt virðist brenglað í uppskriftinni og beygingum breytt að hluta til yngra málstigs. Þó bregður fyrir tvítölu persónufornafns og eignarfornafns (þið, ykkar) við hlið fleirtölu (þér, yðvar) en nokkuð óreglulega, og hafa túlkendur heimildarinnar ekki gefið gaum að þeirri málnotkun.
Nú hlýtur íslenskur þýðandi um 1180 að hafa gert skýran greinarmun tvítölu og fleirtölu og notað tvítöluna því aðeins að hann telji tvo menn ávarpaða, þ.e. Jón Loftsson og Gissur Hallsson. Afritarar, sem sjálfum var tamt að nota gömlu tvítölumyndirnar sem hversdagslega fleirtölu (þúun) en gömlu fleirtölumyndirnar sem viðhafnarfleirtölu (þérun), eru mun líklegri til að breyta þúun í þérun, þegar það er sjálfur erkibiskupinn sem hefur orðið, en öfugt.
Þannig má ætla að erkibiskup, eða a.m.k. hinn íslenski þýðandi hans, hafi beint að þeim Jóni og Gissuri drýgri hluta af umvöndununum en við blasir af textanum eins og nútímamaður les hann. Það mættu sagnfræðingar gjarna hugsa út í þegar þeir túlka þessa merkilegu heimild.
Jón Friðjónsson: Tefldu í túni … Skák eða manntafl í fornu máli
Í erindinu verður fyrst vikið að tvenns konar heimildum, annars vegar að málheimildum og hins vegar að sögulegum eða sagnfræðilegum heimildum. Hvorar tveggja eru mikilvægar en í eðli sínu ólíkar. Í erindinu verður nánast alfarið stuðst við raunveruleg dæmi úr traustum heimildum, þ.e. málheimildir. Þess ber og að geta að vísað hefur verið til vitnisburðar fornleifafræði til að ákvarða aldur manntafls í menningarsögu Norðurlanda og þá sem heimildar um orðfræði, þ.e. um aldur heita einstakra taflmanna. Sú slóð verður ekki fetuð í erindinu.
Áður en komið verður að meginefni erindisins, mállegum heimildum um manntafl, er nauðsynlegt að víkja stuttlega að ólíkum borðtöflum, einkum að hneftafli. Hneftafl er talið eldra en manntafl og var það algengt víða á Norðurlöndum enda er þess víða getið í fornum ritum. Besta hugmynd um hneftafl má fá af Heiðreksgátum í Hervarar sögu, Friðþjófs sögu frækna og fornleifum (kuml í Baldursheimi). Í erindinu verður fjallað nokkuð um málleg dæmi um hneftafl en þó einkum staldrað við orðfæri er því tengist en það er um margt mjög frábrugðið ‘skákmáli’.
Elstu sögulegar heimildir um manntafl á Íslandi munu vera frá fyrsta þriðjungi 12. aldar (1130) en textinn er talinn vera tæpum tveimur öldum yngri (1275). Elstu mállegar heimildir um manntafl eru frá miðri 13. öld (Ólafs saga helga hin mesta, bls. 443). Þar segir frá því er Knútur ríki lék að skáktafli við Úlf jarl mág sinn og lauk þeim viðskiptum með því að Knútur lét drepa Úlf. Þetta á að hafa gerst árið 1027, þ.e. áður en manntafl varð almennt á Norðurlöndum. Því hafa sumir gert því skóna að þeir Knútur og Úlfur hafi setið að hneftafli. Lýsing Ólafs sögu helga á því tafli sem þeir Knútur og Úlfur tefldu getur þó alls ekki átt við hneftafl en kemur vel heim við manntafl. Þetta má ráða af orðfæri og einstökum orðum.
Skáktafls er víða getið í fornu máli óbundnu, t.d. í Íslendinga sögum, Konungasögum, Fornaldarsögum, Biskupasögum og Riddara sögum. Ein merkasta heimild um skáktafl er Ólafs saga helga sem áður var getið. Þar er í skömmu máli getið viðureignar þeirra Knúts ríka og Úlfs jarls við skákborðið og ber lýsingin það með sér að hún hlýtur að eiga rætur í alllangri hefð. Önnur merk heimild um manntafl er Mágus saga jarls. Hún er kunn í tveimur gerðum, eldri mynd og styttri annars vegar (í afriti frá upphafi 14. aldar) og lengri gerð og yngri (frá fyrsta þriðjungi 16. aldar). Einungis verða tilfærð dæmi úr eldri gerðinni.
Í erindinu verður sjónum beint að orðfæri sem tengist manntafli. Annars vegar verður litið á föst orðasambönd úr ‘skákmáli’ notuð í beinni merkingu, t.d.:
leika að skáktafli; leika fingurbrjót (mikinn); skáka mann af e-m; ráða tafl með e-m; tafl e-s er (mjög) farið; bera aftur tafl e-s; svarfa/róta tafli o.fl.
Hins vegar verður litið á föst orðasambönd úr ‘skákmáli’ í óbeinni merkingu, t.d.:
hafa áhöld við e-m; tefla í uppnám; tefla e-m upp; vera upp tefldur; það hallar á e-n.
Að lokum verður vikið að heitum fjögurra af sex taflmanna. Alkunna er að íslenska og enska eiga það sameiginlegt að nota sömu eða svipuð heiti um tiltekna taflmenn andstætt dönsku, norsku, þýsku o.fl. sem nota önnur orð, sbr.:
- biskup (f14), e. Bishop (m16), d. løber, þ. Läufer;
- hrókur (f14), e. Rook (rok um 1330), d. tårn, þ. Turm;
- riddari (ms13), e. Knight (um 1330), d. springer, þ. Springer;
- peð (m16), e. Pawn (poune um 1369), d. bonde, þ. Bauer.
Heimildir sýna að samsvörun er á milli heitanna í íslensku og ensku, sbr.:
- The Compact Edition of the Oxford English Dictionary. Complete Text reproduced micrograpically. Oxford 1971.
- Ordbog over det danske sprog. Historisk ordbog 1700-1950.
- Der deutscheWortschatz von 1600 bis heute.
Niðurstaða
Elstu frásögn um skáktafl á Norðurlöndum er að finna í Ólafs sögu helga hinni mestu en þar segir frá viðureign þeirra Knúts ríka og Úlfs jarls sem lyktaði með ósköpum. Sagnfræðilega er þar vísað til atburða frá upphafi 11. aldar (1027) en sem málleg heimild er sami texti frá miðri 13. öld (1250-1300). Hvað málsögu og orðfræði varðar virðist einsýnt að miða við málheimildir. Að umræddu textabroti er ekkert nýjabragð enda um afrit að ræða og lesbrigðin benda einnig til fjölbreytileika.
Jón Axel Harðarson: Áhrifsmyndanir í forsögu íslenska sagnkerfisins
Hljóðbreytingar og áhrifsmyndanir tilheyra eins og kunnugt er mikilvægustu orsakarvöldum málbreytinga. Oft gerist það að samræmisáhrif eða svokölluð analógía grípi inn í kerfisbundnar hljóðbreytingar eða „hljóðlögmál“. Þannig séð er analógían truflandi þáttur í málþróuninni. Engu að síður gegnir hún normatífu hlutverki og myndar andstæðu við anómalíu eða óreglu. Sambandi hljóðbreytinga og áhrifsmyndana er oft lýst á þennan hátt: hljóðbreyting er regluleg en veldur óreglu; áhrifsmyndun er óregluleg en veldur reglu. (Þetta er stundum nefnt „þversögn Sturtevants“).
Hljóðbreytingar geta sem sé valdið óreglu innan beygingardæma eða breytt þeim þannig að upp koma myndbrigði (allómorf), sbr. hann/hún fer, við förum, þeir/þær fara. Hér hafa hljóðbreytingar leitt til þess að sögnin fara hefur í framsöguhætti nútíðar rótar- eða stofnmyndbrigðin far-, fer-, för-. Annað dæmi er sögnin bjóða sem í sömu formdeild hefur myndbrigðin býð- og bjóð- en þau eru einnig tilkomin vegna hljóðbreytinga. Andstætt hljóðbreytingum sem oft valda fjölgun myndbrigða eða óreglu innan beygingardæma stuðla áhrifsmyndanir iðulega að fækkun myndbrigða og meiri reglu innan beygingardæma. Sem dæmi má nefna sögnina gefa sem við hljóðrétta þróun hefði sennilega átt að fá eftirtaldar beygingarmyndir í nútíð framsöguháttar í fornvesturnorrænu: eint. 1. *giof, 2. *gifr, 3. *gifð, fleirt. 1. *giofum, 2. *gifð, 3. gefa. Samkvæmt þessu hefðu allar persónumyndir átt að sæta ýmist u-klofningu eða i-hljóðvarpi að undanskilinni mynd 3. p. flt. sem vegna nefjaðs a í endingu hélt rótarsérhljóði sínu. En beygingardæmið sem fornnorræna hafði leit hins vegar svona út: eint. 1. gef, 2. gefr, 3. gefr, fleirt. 1. gefum, 2. gefið, 3. gefa. Hér hafa ýmsar breytingar orðið sem hafa leitt til mikillar reglu innan beygingardæmisins.
Í erindinu verður vikið að ýmsum áhrifsmyndunum í forsögu íslenska sagnkerfisins.
Kristján Árnason: Hljóðkerfisbylting í að því er virðist stöðugu beygingarkerfi
Nútíma íslenska hefur sem kunnugt er ekki jafn skýran greinarmun og fornmálið milli áhersluatkvæða (sem gjarna mynda rætur) og áherslulausra atkvæða (sem gjarna mynda beygingarendingar). En þrátt fyrir þessa breytingu má halda því fram að orðhlutahljóðkerfislega (morfófónemískt) sé enn býsna skýr greinarmunur stofna og endinga. Auðvelt er að greina orðmyndir eins og hest-ur, hest-a, hest-um í rót (stofn) og endingu. Það er athyglisvert einkenni, sem oft er horft framhjá, að mikið til sömu endingar eru notaðar í nafnyrðum og sögnum: drep-ur, drep-a, drep-um, drap-st o.s.frv. Endingarnar hafa skýr sameiginleg hljóðskipunarleg einkenni, en merking þeirra ræðst af aðstæðum. Þær eru því ekki merkingarbærar, heldur merkingargreinandi. Halda má því fram að þetta fyrirkomulag hafi styrkst við tilkomu nýrra norrænna beygingardæma, annars vegar viðskeytts greinis: hest-urinn, hest-inn og hins vegar miðmyndar: kalla-st, drepa-st, drap-st. Viðskeytti greinirinn og miðmyndarendingin eiga sér sem kunnugt er rætur í hengilmyndum (viðhengjum, e. clitics) gamalla fornafna sik og hinn. Og meðan það var gagnsætt var hægt að tala um merkingarbærni, en nú virðast þetta bara merkingargreinandi endingar. Þetta tengist allt með óbeinum hætti hljóðdvalarbreytingunni, sem hafði sem aukaverkun hrynræn áhrif sem bundu enda á hina gömlu flokkun fullburða og takmarkaðra atkvæða. Á 16. öld taka beygingarendingar að ríma sem stúfar, og um svipað leyti fara orðmyndir með ákveðnum greini að geta myndað lokatvíliði í kveðskap, en það tengist hvarfi aðgreinandi markatóns eða „tónkvæðis“ (samsvarandi aksent 1 í skandinavísku). Þarna hefur orðið hljóðkerfisbylting, þannig að hljóðreglur (fónólógískar reglur) breyttust í orðhlutahljóðreglur (morfófónemískar reglur); henglar urðu endingar. Þótt þessi bylting hafi átt sér stað virðist beygingarkerfið að miklu leyti standa óbreytt á yfirborðinu. Ef horfst er í augu við þá staðreynd að beygingarendingar hafa ekki eiginlega merkingu verða nýlegar greiningar í anda generatívrar málfræði ekki sannfærandi.
Margrét Jónsdóttir: Um nafn á húsi
Í þéttbýli nokkru á landsbyggðinni var á þriðja áratug síðustu aldar reist myndarlegt hús. Það stóð á hól, jafnvel frekar holti. Eins og þá var siður fékk húsið nafn enda þótt (í sumum heimildum) fengi það að auki númer enda við götu. Nöfn sem fundist hafa í opinberum gögnum eru þessi: Hjalt (eitt dæmi), Hjölt, Hjöltu, Hjaltir og (að) Hjöltum.[1] Af gamalli heimild má þó ráða að upphaflega hafi nafnið átt að vera Hjölt.[2] Hér verður eintalan Hjalt látin liggja á milli hluta. En óvissan með nafnið (í fleirtölu) staðfestir það sem vitað er að til hússins og íbúa þess var alltaf vísað með þágufallsmyndinni Hjöltum.[3]
Margir fræðimenn gera ráð fyrir því að birtingarform áhrifsbreytinga sé ekki hið sama meðal samnafna annars vegar og sérnafna/örnefna hins vegar.[4] Samkvæmt því er nefnifall samnafna hið ómarkaða fall, grunnmynd sem hefur áhrif á önnur föll innan beygingardæmisins. Hjá sérnöfnum er það hins vegar staðarfallið (þágufallið); það er hið sértæka, háð hlutverki og merkingu. En þar sem þágufallið Hjöltum vísar ekki til kyns og því margrætt verður nefnifallið ekki ótvírætt, getur jafnt verið Hjölt, Hjöltu og Hjaltir.[5] En af margræðninni leiðir m.a. að þágufallið er jafn mikið notað og raun ber vitni; þar skiptir merkingin líka máli.
Um allt þetta verður rætt í erindinu en einnig hvort merkingin sé sú hin sama og samnafnsins.
Helstu heimildir:
- Croft, William. 2003. Typology and Universals. Cambridge: Cambridge University Press.
- Haraldur Bernharðsson. 2004. Um Moldhaugnaháls út í Fjósa og Fjörður. Af áhrifs breytingum í nokkrum fleirtöluörnefnum. Íslenskt mál 26:11‒48.
- Katrín Axelsdóttir. 2015. Beyging og merking orðsins hjalt. Orð og tunga 17 (2015):95‒ 114.
- Laxdæla saga. 1934. Laxdæla saga. Halldórs þættir Snorrasonar. Stúfs þáttr. Einar Ól.
- Sveinsson gaf út. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
- Mańczak, Witold. 1958. Tendances générales des changements analogiques. Lingua 7: 387‒ 420.
- Nilsson, Jan. 1975. Plurala ortnamn på Island. Morfologiska iakttagelser. Umeå: Umeå Studies in the Humanities 8.
- Tiersma, Peter Meijes. 1982. Local and General Markedness. Languages 58:832‒849.
[1] Fleirtöluformin hjölt og hjöltu eru þau sömu og samnafnsins hjalt; um samnafnið sjá grein Katrínar Axelsdóttur (2015). Með tilvísun til Íslenskrar orðabókar segir Katrín (bls. 95) um hjaltir einungis að það sé fleirtala af kvenkynsorðinu hjölt og sé fornt/úrelt. Því er við að bæta að við lestur greinar Katrínar kviknaði hugmyndin að þessum fyrirlestri.
[2] Í íslensku eru bæjarnöfn mjög oft í fleirtölu, t.d. Húsar (kvk.flt. en hvk.et), sjá Nilsson (1975), einnig Harald Bernharðsson (2004) en hjá honum er að finna greiningu á ýmissi sérhegðan örnefna. Nafnið Hjaltir gæti verið af sama toga og Húsar en fræðilega séð einnig fleirtala af kvenkynsorði.
[3] Það var löngum siður að vísa til bæjarnafna með þágufallsmyndinni, sjá t.d. í Laxdæla sögu: „…sjá bær heitir í Tungu.“, svarar Halldór Þorgerði móður sinni þegar hún eggjar til bróðurhefnda.
[4] Sjá hér t.d. Mańczak (1958), Tiersma (1982), Croft (2003).
[5] Orðmyndirnar eru þær sömu og samnafnsins enda uppsprettan sú hin sama, sbr. einnig áðurnefnda grein Katrínar.
Már Jónsson: Villur og leiðréttingar í Staðarhólsbók (AM 334 fol.)
Mistök skrifara á miðöldum má flokka með ýmsum hætti og verða helstu tegundir þeirra reifaðar í erindinu með hliðsjón af Staðarhólsbók frá síðari hluta 13. aldar, sem geymir Grágás og Járnsíðu. Þar er talsvert um villur en líka leiðréttingar sem virðast vera með hendi skrifara eða í það minnsta samtíðarmanns. Eru villurnar einber klaufaskapur og óvandvirkni eða má ráða eitthvað af þeim um máltilfinningu og vitund um rétt mál? Hvað segja þá leiðréttingarnar?
Yelena Sesselja Helgadóttir: Endarím mætir stuðlum – í annað sinn
Hið óreglulega bragform þulna síðari alda (íslenskra þjóðkvæða frá u.þ.b. 15.–20. öld; hér eftir ÞSA) er meðal þess sem markar sérstöðu þeirra í íslenskum kveðskap. Í lausbundnu máli ÞSA er öllum helstu bragþáttum íslensks kveðskapar – hrynjandi, stuðlasetningu og rími – beitt í meirihluta þululína með einum eða öðrum viðteknum hætti, en þó sjaldnast kerfisbundið. Þá koma oft fram samhljómar sem hvorki stuðla né ríma samkvæmt íslenskri braghefð en áheyrandi nemur eigi að síður og því tengja þeir einstakar þululínur (hér eftir veik stuðlun og veikt rím). Meira ber á slíkum samhljómum í erlendum (þjóð)kvæðum, en þangað á notkun þeirra í íslenskum ÞSA hugsanlega rætur að rekja. Sérkenni bragforms ÞSA er þannig fólgið í því að bæta úr óreglu í hefðbundinni notkun bragþátta með veikri stuðlun, veiku rími og samspili stuðla og ríms.
Að þessu framkomnu vil ég skoða þuluformið í samhengi íslenskrar bragsögu, m.a. með tilliti til hlutverks ríms og stuðlasetningar. Margt bendir til þess að ÞSA hafi orðið til við samruna hinnar fornu þuluhefðar og nýs efnis sem barst frá meginlandi Evrópu á síðmiðöldum. Bygging og hlutverk ÞSA virðist einkum eiga rætur að rekja til hinna fornu þulna. Bragform og innihald ÞSA sver sig hins vegar frekar í ætt við skyldan kveðskap annars staðar á Norðurlöndum, og má þar gera ráð fyrir erlendum áhrifum. Ljóðstafir, sem voru nauðsynlegir í fornþulum, eru horfnir úr bragkerfinu á hinum Norðurlöndunum á mótunartíma ÞSA; þar er fremur byggt á endarími. ÞSA verða því ein af örfáum íslenskum (þjóð)kvæðagreinum þar sem stuðlasetning er ekki reglubundin (þótt yfir 60% þululína stuðli samkvæmt braghefð). Viðbúið væri að hlutur ljóðstafa styrktist smám saman í þulum fyrir áhrif íslensks kveðskapar, en í raun fór hlutfall þululína sem stuðluðu lækkandi – en hlutfall hinna sem rímuðu hækkandi. Rýnt verður í ferlið og hugsanlegar ástæður þess.
3. Ólafsþing var haldið 26. október 2019 í safnaðarheimili Neskirkju
Dagskrá
Fyrri hluti: Lögmál og Regla
9:55–10:00 Setning
10:00–10:30 Kristján Árnason: Um Craigieslögmál í norrænum kveðskap
10:30–11:00 Þorgeir Sigurðsson: Reglan um sterkt atkvæði í vísorði
Hlé — kaffi, te og kleinur
11:30–12:00 Svavar Sigmundsson: Þróun hljóðdvalar í rímnakveðskap
12:00–12:30 Helgi Skúli Kjartansson: Þegar brageyrað blekkir
Hádegishlé
Síðari hluti: Orðhlutar, orð og orðasambönd
13:30–14:00 Haukur Þorgeirsson: Neitanir og aldur Eddukvæða
14:00–14:30 Kelsey Page Hopkins: Kerfisvæðing sem kvarði: tillaga að greiningarkerfi fyrir viðskeyti með uppruna í sjálfstæðum orðum
14:30–15:00 Margrét Jónsdóttir: Um nafnorðið GRÁP
Hlé — kaffi, te og kleinur
15:30–16:00 Jón Axel Harðarson: Hitt orðið um ‘konu’ í indóevrópsku
16:00–16:30 Katrín Axelsdóttir: Orðasambönd verða til
Ráðstefnuslit og léttar veitingar
Útdrættir Erinda (í stafrófsröð)
Haukur Þorgeirsson: Neitanir og aldur Eddukvæða
Í Eddukvæðum koma fyrir ýmsar neitanir. Þar ber að nefna sam-indóevrópsku neitunina ‘ne’, neitunarhenglana –a og –at og atviksorðið ‘eigi’. Þessir neitunarmöguleikar hafa að verulegu leyti tíðkast samtímis enda geta þeir allir komið fyrir í einu og sama kvæðinu, til dæmis í Lokasennu. Eigi að síður má spyrja hvort greina megi einhverja þróun innan Eddukvæðasafnsins þannig að kvæði sem eru fornlegri að öðru leyti noti meira af fornlegum neitunum. Þeirri tilgátu er að nokkru leyti svarað játandi í erindinu en þó með verulegum aðferðafræðilegum fyrirvörum og efasemdum.
Helgi Skúli Kjartansson: Þegar brageyrað blekkir
“Það mælti mín móðir.” Vísa Egils, sem mér var kennt að sé svo einföld í formi að hún gæti hugsanlega verið ort af barni. En hvað er einfalt í henni og hvað ekki? Seinni parturinn er að því leyti óvandaður að allar línur hafa sömu hrynjandi. Það er sjálfsagt og eðlilegt að nútímasmekk en greinilegt að fornskáldin forðuðust það. Fyrri parturinn, hins vegar, er alls ekki upp byggður með þeim óreglulega hætti sem “brageyra” nútímamanns skynjar. Heldur er þar fylgt gaumgæfilega ýmsum bragreglum sem við skynjum engan veginn út frá máli og brag seinni tíma.
Hvað gerði Ragnar við reiðarmánann? Segir Bragi “Ræs gáfumk reiðar mána” (eins og ég lærði í Sýnisbók og sé t.d. í Edduútgáfu Faulkes, enda í samræmi við handritin) eða “Ræs göfumk …” eins og Finnur Jónsson leiðréttir, sömuleiðis Kuhn og sjálf Margaret Clunies Ross 2017. Sem veltur á tiltekinni bragreglu (að í tvíkvæðu hnigi sé fyrra atkvæðið stutt), hversu algild hún sé í dróttkvæðum kveðskap og hvort hún sé örugglega eins gömul og Bragi. Og líka á því hvort þessar “-umk”-myndir eru fremur dregnar af eintölu- eða fleirtölustofni.
Jón Axel Harðarson: Hitt orðið um ‘konu’ í indóevrópsku
Eftir stuttan inngang um orð sem leidd eru af ie. *sor- ‚kona‘ verður rætt ýtarlegar um indóevrópska orðið um ‘systur’, lat. uxor ‘eiginkona’, ungavest. hāirišī- ‘kona’, myndleturslúv. ašra/i- ‘kona’, ungavest. åŋhairī‑ ‘kona’, hettitísku viðskeytin ‑šar og ‑(š)šara- og kvenkyn töluorðanna ‘3’ og ‘4’ í indóírönsku og keltnesku. Þá verður yfirlit gefið um þau orð sem tengjast *sor- og endurgera má fyrir indóevrópsku. Loks verður farið nokkrum orðum um breytingu *sor- í kvenkynsviðskeyti.
Katrín Axelsdóttir: Orðasambönd verða til
Sambandið köttur liðugur er af orðasambandagerð eða konstrúksjón þar sem nafnorð stendur á undan lýsingarorði, nafnorðið ber sterka áherslu (og gegnir iðulega hlutverki atviksorðs), lýsingarorðið lagar sig yfirleitt að því sem verið er að lýsa (hún er köttur liðug) og í sambandinu er fólgin einhvers konar líking (hér ‘liðugur eins og köttur’) – nafnorðið er dæmigert fyrir þann eiginleika sem lýsingarorðið vísar til.
Vitað er um allnokkurn fjölda sambanda sem tilheyrir þessari orðasambandagerð; þar á meðal eru forkur duglegur, nökkvi þungur, grjótpáll duglegur og funi bráður. Jafnframt er ljóst að samböndin eru á undanhaldi því að fólk undir miðjum aldri þekkir sjaldnast nokkurt þeirra (Katrín Axelsdóttir 2019a, 2019b). Hins vegar hefur ekkert verið fjallað um aldur og uppruna þessarar orðasambandagerðar og úr því verður reynt að bæta hér.
Orðasambandagerðin virðist ekki eiga sér langa sögu í málinu, elstu tilvik eru frá því snemma á 20. öld en auðvitað kann þetta að vera eldra þótt heimildir hafi ekki fundist. Hvað varðar tilurðina kemur ýmislegt til greina: 1) endurtúlkun samsetts lýsingarorðs með myndhverfu nafnorði í fyrri lið (sbr. lúsiðinn, nautsterkur, ljóngáfaður), 2) blöndun lýsingarorðs við samband myndhverfs nafnorðs og forsetningarliðar (s.s. forkur að dugnaði, grjótpáll að dugnaði) en slík sambönd virðast vera eldri en sambönd á borð við köttur liðugur, 3) brottfelling tengingar úr samanburðarsetningu (s.s. eins og köttur, eins og nökkvi) þannig að eftir standi nafnorðið eitt (köttur, nökkvi) á undan lýsingarorði aðalsetningarinnar (hún er eins og köttur liðug à hún er köttur liðug). Ekki er víst að öll samböndin sem eru af umræddri orðasambandagerð eigi sér sama uppruna þótt niðurstaðan, mynstrið NAFNORÐ + LÝSINGARORÐ, sé alltaf sú sama.
Kelsey Hopkins: Kerfisvæðing sem kvarði: tillaga að greiningarkerfi fyrir viðskeyti með uppruna í sjálfstæðum orðum
Fræðimenn sem fást við orðmyndunarfræði eru sammála um að helsti munurinn á afleiðslu og samsetningu sé sá að afleidd orð myndast með því að skeyta bundnu myndani sem gegnir málfræðilegu hlutverki (þ.e. forskeyti eða viðskeyti) við stofn, en samsetningar samanstanda af tveimur liðum sem geta staðið sjálfstætt sem merkingarbærar einingar. Á undanförnum áratugum hefur töluvert verið skrifað um óljósu skilin milli afleiðslu og samsetningar. Meðal íslenskra athugana sem gerðar hafa verið er grein eftir Þorstein G. Indriðason (2016), sem einblínir á viðskeyti/bundna seinni liði sem tilkomnir eru vegna kerfisvæðingar, sem er ferlið þegar sjálfstæð orð glata upprunalegri merkingu sinni og verða að liðum með málfræðilegt hlutverk. Algeng dæmi um kerfisvædd viðskeyti eru –legur, –rænn, –dómur, –háttur, –skapur og –leikur/-leiki, sem „unnt er að rekja sögulega til sjálfstæðra orða”. Skv. Þorsteini er þó helsta skilyrði þess að viðskeyti sé tilkomið vegna kerfisvæðingar það að sjálfstætt tilbrigði „sama útlits” sé til í nútímamálinu. Þessi skilgreining útilokar viðskeytin –legur og –rænn frá því að teljast vera kerfisvædd þrátt fyrir að þau séu upprunin í sjálfstæðum orðum.
Í þessari grein er gerð tilraun til að leysa þversögnina í greiningu Þorsteins með því að miða við sögulega þróun kerfisvæddra viðskeyta. Gengið er út frá því að kerfisvæðing sé í eðli sínu sögulegt fyrirbæri enda gerist hún yfir lengra tímabil. Þess vegna er sögulegrar athugunar krafist. Lagt er til nýtt greiningarkerfi sem skýrir þessa þróun betur en samtímalegt sjónarhorn. Í fyrsta lagi er kerfisvæðingarferlinu lýst sem kvarða, og spurt hvort viðskeyti sem lifa hlið við hlið í nútímamálinu við sjálfstæð tilbrigði (sbr. –háttur, –leikur o.fl.) séu e.t.v. minna kerfisvædd en þau sem hafa enga samsvarandi sjálfstæða mynd (sbr. –legur og –rænn). Þá verða sögulegar heimildir aðgættar um dæmi um viðkomandi orð/liði í mismunandi hlutverkum til að skoða breytingar á m.a. merkingu og formi þeirra yfir tíma, og þar með kortleggja/tímasetja kerfisvæðingu þeirra. Í lok verður sagt frá greiningum á nokkrum viðskeytum sem upprunin eru í sjálfstæðum orðum, sem gerðar hafa verið frá sögulegu sjónarhorni (Alexander Jóhannesson 1927 og 1929, Iversen 1973, Gunnlaugur Ingólfsson 1979, Eiríkur Rögnvaldsson 1987, Jón Axel Harðarsson), í þeim tilgangi að sýna hversu miklu meiri upplýsingar er hægt að fá með sögulegri nálgun.
Kristján Árnason: Um Craigieslögmál í norrænum kveðskap
Mörg þau „lögmál“ sem komist hafa inn í handbækur í málfræði og bragfræði eru alls ekki nein lögmál í þeim skilningi að þar sé fylgt því sem fræðimódelin „spá“, heldur er um að ræða undantekningar frá því sem við hefði mátt búast; módelin ráða ekki við gögnin nema með sérstökum neðanmálsgreinum eða nánari útskýringum. Hér má nefna Sieverslögmál, að mér sýnist Kaluzaslögmál i enskri bragfræði, og Kuhnslögmálin frægu. Eitt af þessum lögmálum er Craigieslögmál, sem segir að í fjórðu stöðu í skáldaháttum eins og kviðuhætti og dróttkvæðum hætti megi ekki standa nafnyrði með þungu (löngu) áhersluatkvæði, enda þótt hið viðtekna módel Eduards Sievers geri beinlínis ráð fyrir þeim möguleika. Ef taka á greiningarkerfi Sievers alvarlega sem líkan um bragnotkun er þessi regla eins konar „spýta í kross“, sem er negld utan á kenningagrindina svo að hún megi hanga uppi. Lögmálið hefur ekki fengið eðlilega skýringu á málfræðilegum eða bragfæðilegum grundvalli svo mér sé kunnugt. Í nýrri doktorsritgerð sinni hefur Þorgeir Sigurðsson sett fram greiningu á kviðuhætti sem útrýmir Craigieslögmáli sem undantekningu; lætur það vera hluta af heildarmódelinu. Þorgeir gerir ráð fyrir að fjórða staðan („Craigiestaðan“) sé veik. Hann gengur hins vegar ekki svo langt að leggja til málfræðilega grundaða skýringu á þessum aðstæðum og hvers vegna takmörkunin skilur á milli nafyrða og sagna. Í fyrirlestri mínum ætla ég að gera tilraun til að túlka hvernig í þessu liggur með vísun til þess sem geta má sér til um málkerfislegar og bragkerfislegar aðstæður. Þetta tekur til lögmála um atkvæðagerð, orðáherslu (misjafnan styrk atkvæða í orðum) og tónfall setningaráherslu (misjafnan styrk orða í orðasamböndum). Ég mun einnig víkja að eðli bragreglna um hrynjandi (sterkar of veikar stöður í bragnum) og um ljóðstafasetningu.
Margrét Jónsdóttir: Um nafnorðið GRÁP
Nafnorðið gráp er orð á bók, fæstum kunnugt. Það kemur fyrir í mjög gömlum skáldskap. Það votta dæmin úr Lexicon poeticum sem eru 8 að tölu. Hér koma tvö „grund var grápi hrundin” (Haustlöng (15)). „Hjálm grápi vann hilmir” (Vellekla (12)). Um orðið eru tvö dæmi í ritmálssafni OH, bæði úr bundnu máli. Fleiri heimildir finnast ekki.
Ásgeir Blöndal Magnússon (1989:273) fjallar um gráp og segir merkinguna vera ‘vindhviða; haglél’ og sé „sennil. leitt af grápa“. Sögnin merkir ‘hrifsa til sín, þrífa í’ og hún er merkt sem fornmál. Í Ordbog over det norrøne prosasprog (ONP) eru fimm dæmi um grápa, öll úr Stjórn í útgáfu Ungers (1862). Hér kemur eitt (bls. 78): hann (ɔ: orrinn) rifsar ok grápar egg undan odrum fuglum.
Uppruni orðsins hefur vafist fyrir fræðimönnum. Óvissan í orðum Ásgeirs Blöndals Magnússonar er athyglisverð þegar hann segir að gráp sé „sennnilega“ leitt af grápa, þ.e. sagndregið. Ásgeir gerir enga tilraun til að tengja nafnorðið og sögnina saman merkingarlega. Um grápa segir Ásgeir m.a. að hún sé rótskyld grípa.
Í fyrirlestrinum verður þess freistað að varpa einhverju frekara ljósi á uppruna naforðsins. Í því sambandi verður m.a. horft til merkingar þess og sagnarinnar. Ekki verður sagt að líkindin séu mikil; þau blasa a.m.k. ekki við. Athyglisvert er að Ásgeir skuli telja sögnina liggja til grundvallar nafnorðinu. Frekar hefði mátt búast við hinu gagnstæða. Horft verður til skyldra mála í leit að skýringum.
Svavar Sigmundsson: Þróun hljóðdvalar í rímnakveðskap
Í fyrirlestrinum verður fjallað um þá breytingu sem varð á lengd hljóða í íslensku sem nefnd hefur verið hljóðdvalarbreytingin, og sem almennt er talið að hafi orðið upp úr 1500. Björn Karel Þórólfsson skrifaði fyrstur manna rækilega um þessa breytingu í skáldskap í Arkiv 1929, og Stefán Karlsson tók upp þann þráð með grein sinni, Gömul hljóðdvöl í ungum rímum, í Íslenskri tungu 1964.
Aðferð Björns var í stórum dráttum sú að kanna hvort þeirri reglu væri fylgt að síðasta ris óstýfðra vísuorða væri langt samkvæmt fornri hljóðdvöl. Undantekningar voru þó samstöfur sem enduðu á löngu sérhljóði, eins og trúa, eða tvíhljóði, eins og sveia og dæi, en slíkar samstöfur voru stuttar, skv. fornum bragreglum. Einnig voru undanteknar samstöfur með upphaflega stuttu sérhljóði sem hafði tvíhljóðast, eins og segi og mega, en þær höfðu orðið langar samstöfur við tvíhljóðun.
Rímur eins og Bósarímur sem ortar voru um 1500 hafa engin frávik frá fornum reglum og sama gildir um ýmsar þær rímur sem Björn Karel gaf út í riti sínu Rímur fyrri 1600. Þar má nefna Hemingsrímur, Lokrur, Griplur, Þrymlur, Völsungsrímur og Herburts rímur.
Þegar kemur að Halli Magnússyni (um 1530–1601) sem orti Vilmundar rímur viðutan, eru örlítil frávik frá fornri hljóðdvöl, aðeins 0,1% frávik, dæmið um rímorðin: hlerra : vera.
Rímur af Flóres og Leó eru eftir Bjarna Borgfirðingaskáld (1560–1640) og Hallgrím Pétursson (um 1614–1674). Bjarni orti rímurnar 1–15 líklega um 1600. Frávik frá fornum reglum eru hjá honum 0,7% hallgrímu rorti rímurnar 16–24 líklega um 1647, en hjá honum eru frávikin 1,8%.
Í Disneyrímum eftir Þórarin Eldjárn frá 1978 eru frávik frá fornum bragreglum 19%.
Í fyrirlestrinum verður því lýst hvernig frávik frá fornum reglum í rímnakveðskap þróast frá því um 1550 fram á okkar daga.
Þorgeir Sigurðsson: Reglan um sterkt atkvæði í vísorði
Samkvæmt lögmáli Craigies er fjórða og síðasta atkvæði í síðlínum kviðuháttar veikt. Til viðbótar má sýna að næstsíðasta eða þarnæstsíðasta atkvæðið er veikt en ekki bæði [1]. Þetta gildir einnig um forlínur og síðlínur í kvæðum undir reglulegu fornyrðislagi. Þeirra á meðal eru hirðkvæðin Höfuðlausn, Erfikvæði um Magnús berfætt og Sigurðarbálkur, einnig Darraðarljóð og Hymiskviða. Regluna má orða þannig að vísuorð endi annaðhvort á WSW eða SWW. Hér táknar S sterkt atkvæði en W táknar veikt atkvæði. Hér eru S og W atkvæði en ekki bragstöður. Skipting atkvæða í tvo styrkleikaflokka er eins og hjá Kristjáni Árnasyni 1991 [2] og William Craigie 1900 [3].
- Sterk atkvæði (S) eru alltaf löng. Löng atkvæði í einkvæðum nafnorðum og lýsingarorðum eru alltaf sterk. Smáorð eru sjaldan með sterkum atkvæðum.
- Öll stutt atkvæði eru veik (W). Löng atkvæði geta einnig verið veik og eru það venjulega þegar þau eru í smáorðum. Beygingarendingar eru alltaf veikar.
Við skiptingu á atkvæðum í stutt og löng má taka tillit til orða- og orðhlutaskila. Hér fyrir neðan nota ég fyrstu 8 línur Darraðarljóða til að skýra regluna. Ég tákna sérhljóð í sterku atkvæði með undirstrikun.
| Vítt es orpit | fyr val-falli |
| rifs reiðiský; | rignir blóði; |
| nú’s fyr geirum | grár uppkominn |
| vefr, ver-þjóðar | es vinur fylla |
Undantekningar frá reglunni eru fáar og flestar þess eðlils að styrkja hana fremur en veikja. Þetta skýri ég í meginhluta þessa erindi.
Tilvísanir:
[1] Þorgeir Sigurðsson 2019. The unreadable poem of Arinbjǫrn, preservation, meter, and a restored text. Doktorsritgerð frá Háskóla Íslands.
[2] Kristján Árnason. 1991. The rhythms of dróttkvætt and other Old Icelandic metres. University of Iceland, Institute of Linguistics, Reykjavík.
[3] William A. Craigie. 1900. On some points in scaldic metre, 1900. Arkiv för nordisk filologi XVI
2. Ólafsþing var haldið 27. október 2018 í safnaðarheimili Neskirkju
Dagskrá
8:55–9:00 Setning
9:00–9:30 Þórhallur Eyþórsson: Rasmus Rask og almenn málvísindi
9:30–10:00 Auður Hauksdóttir: Viðhorf Rasks til íslenskrar tungu
10:00–10:30 Svavar Sigmundsson: „því eigum við sjálfir að skemma ockar túngumál og gjöra háð að sjálfum oss?“ – Rask og málhreinsunarstarf hans
Hlé: kaffi, te og kleinur
11:00–11:30 Kristján Árnason: Um banamein tungumála
11:30–12:00 Haukur Þorgeirsson: Glíman við Snorra-Eddu: Frá 1818–2018
12:00–12:30 Þorgeir Sigurðsson: Rasmus Rask og Arinbjarnarkviða
Hádegishlé
13:30–14:00 Katrín Axelsdóttir: Breytt hlutverk nokkurra óákveðinna fornafna
14:00–14:30 Guðrún Þórhallsdóttir: Sjö daga fasta í röku
14:30–15:00 Jón Axel Harðarson: Um meinta hljóðbreytingu kwe > ko í norrænu og frumgermanska fyrirrennara íslensku orðanna koma og kona
Hlé: kaffi, te og kleinur
15:30–16:00 Guðvarður Már Gunnlaugsson: Hvers vegna skipti Einar Hafliðason milli textaskriftar og léttiskriftar í Lögmannsannál?
16:00–16:30 Bjarni Gunnar Ásgeirsson: Endurskoðun á sambandi þriggja handrita Snorra-Eddu
Ráðstefnuslit og léttar veitingar
Útdrættir Erinda (í stafrófsröð)
Auður Hauksdóttir: Viðhorf Rasks til íslenskrar tungu
Tímamótaverk Rasmusar Kristians Rasks Vejledning til det islandske eller gamle nordiske sprog kom út í Kaupmannahöfn árið 1811, en var síðar (1832) gefið út í styttri og nokkuð breyttri mynd undir heitinu Kortfattet vejledning til det islandske eller nordiske sprog.
Í frumútgáfunni, sem inniheldur 6 kafla auk ítarlegs inngangs, fjallar Rask um íslenska tungu út frá ólíkum sjónarhornum: hljóðfræði og réttritun (udtale og retskrivning), beygingar-fræði (formlære), orðmyndun (orddannelse), setningarfræði (ordføjning), bragfræði (verslære) og sögulegri þróun íslenskunnar í samanburði við aðrar tungur (om sprogarterne). Í inngang-inum ræðir Rask um notagildi tungumála og þá sérstaklega mikilvægi íslensku og íslensku-kunnáttu fyrir Dani.
Talsvert hefur verið rætt og ritað um málfræðihluta bókar Rasks, en aftur á móti hefur viðhorfum hans til notagildis íslenskunnar og eiginleika hennar í samanburði við aðrar tungur verið minni gaumur gefinn. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessi viðhorf Rasks til íslensku og íslenskukunnáttu, eins og þau birtast í umræddri bók og nokkrum bréfum hans til lærðra manna. Þá verður gerð grein fyrir skoðunum hans á margvíslegu notagildi íslenskunnar fyrir Dani.
Loks verður rætt hvernig viðhorf Rasks endurspegla það mikilvæga hlutverk sem íslensk tunga og fornbókmenntir gegndu við myndun dansks þjóðernis um aldamótin átján hundruð.
Bjarni Gunnar Ásgeirsson: Endurskoðun á sambandi þriggja handrita Snorra-Eddu
Skiptar skoðanir eru á innbyrðis tengslum handrita Snorra-Eddu en flestir eru hallir undir þá skoðun að í grófum dráttum megi skipta aðalhandritunum fjórum í tvo hópa, í öðrum séu Konungsbók, Wormsbók og Trektarbók en í hinum Uppsalabók. Að minnsta kosti sex fræði-menn hafa teiknað upp ættarskrá handrita (eða stemma) Snorra-Eddu: Edzardi (1876), Mogk (1879), Müllenhoff (1883), van Eeden (1913), Boer (1924) og Finnur Jónsson (1931). Aðeins þeir þrír síðastnefndu hafa fjallað sérstaklega um samband Konungsbókar, Wormsbókar og Trektarbókar, enda varð mikilvægi Trektarbókar ekki ljóst fyrr en seint á 19. öld. Að sumu leyti stangast skoðanir þremenninganna á: Hollendingarnar van Eeden og Boer eru sammála um að samband Konungsbókar og Trektarbókar sé náið; þær séu systur en Wormsbók frænka þeirra. Aftur á móti lítur Finnur Jónsson (1931) svo á að Konungsbók og Wormsbók séu systur og að Trektarbók sé frænkan. Haukur Þorgeirsson (2017) hefur nýlega tekið undir skoðanir Hollendinganna. Hann segir að röksemdir þeirra séu sterkar og bendir á að ósam-ræmi er á milli ættarskrár Finns og umfjöllunar hans um samband handritanna, en ólíkt van Eeden og Boer útskýrði Finnur ekki ættarskrá sína með ýtarlegri greinargerð. Þrátt fyrir ann-marka á ættarskrá Finns tel ég hann þó hafa nokkuð til síns máls — ýmislegt bendir til að Konungsbók og Wormsbók séu nánari en Konungsbók og Trektarbók. Í fyrirlestrinum mun ég fara yfir fyrri rannsóknir og færa rök fyrir því að ættarskrá Finns Jónssonar lýsi sambandi þessara þriggja handrita betur en ættarskrár van Eedens og Boers.
Guðrún Þórhallsdóttir: Sjö daga fasta í röku
Forsetningarliðurinn í rǫku er þekktur úr einni fornri heimild, Jóns sögu postula, þar sem segir af skiptum Jóhannesar við heiðingjann Aristodemus. Þetta stakdæmi má kalla tvírætt bæði að formi og merkingu. Ritháttinn má túlka á fleiri en einn veg og endingin -u gæti bæði átt við þágufall eintölu kvenkyns nafnorðs og þágufall eintölu hvorugkyns í sterkri lýsingarorðsbeyg-ingu. Því kemur ekki á óvart að fjallað er um físl. í rǫku á ólíkan hátt í handbókum. Þótt fræði-menn virðist almennt sammála um að tengja orðmyndina rǫku við frumgermanska lýsingar-orðið *raka- ‘beinn’ og skyld orð hafa þeir greint myndina á ólíka vegu. Upplýsingar hand-bóka um orðasambandið í rǫku og skyld eða lík orð eru einnig að sumu leyti villandi.
Í fyrirlestrinum verður leitast við að varpa ljósi á sögu forsetningarliðarins í rǫku með því að grafast fyrir um merkingu hans og uppruna. Annars vegar verða þrjár hugsanlegar orðsifjaskýringar kynntar og bornar saman við hina viðteknu skýringu. Hins vegar verður tekist á við valið á milli þess að túlka orðmyndina rǫku sem þágufall kvenkynsorðsins raka* og sem þágufallsmynd hvorugkyns lýsingarorðsins rakr*.
Guðvarður Már Gunnlaugsson: Hvers vegna skipti Einar Hafliðason milli textaskriftar og léttiskriftar í Lögmannsannál?
Í þessum fyrirlestri ætla ég að ræða um handritið AM 420 b 4to sem hefur að geyma Lög-mannsannál. Einar Hafliðason skrifaði megnið af honum um eða upp úr 1360; hönd hans er einnig á nokkrum fornbréfum. Þetta handrit er elsta frumrit íslensks höfundar sem varðveitt er, að því best er vitað. Lögmannsannáll er einnig merkilegur vegna þess að skrifarinn skiptir á milli textaskriftar og léttiskriftar sem aðrir skrifarar gera nánast aldrei í sama handritinu. Tilviljun virðist ekki ráða þessum skiptum en ekki er ljóst hver ástæðan fyrir þeim er. Ég ætla að leggja fram hugsanlega skýringu og jafnframt að athuga hversu staðfastur Einar var í að fylgja þeirri reglu sem hann hafði sett sér.
Haukur Þorgeirsson: Glíman við Snorra-Eddu: Frá 1818 til 2018
Útgáfa Rasks á Snorra-Eddu 1818 markaði tímamót. Þar var Snorra-Edda í fyrsta skipti prentuð í formi sem ætla má að fari nærri upphaflegri gerð verksins. Rask lagði textann í Konungsbók (GKS 2367 4to) til grundvallar en raunar má segja að varðveisla þess texta hafi þá hangið á bláþræði. Elstu uppskriftir Konungsbókar glötuðust í eldinum 1728 og á dögum Rasks var handritið sjálft talið glatað. Rask hafði þó undir höndum uppskrift textans eftir Ísleif Einarsson (1765-1836). Þessa uppskrift taldi Rask mjög nákvæma og var það með réttu. Seinna kom svo Konungsbók sjálf aftur í leitirnar og býr núna í Árnagarði.
Í erindinu verður fjallað um vandann við að gefa út Snorra-Eddu og hvernig útgef-endur hafa leyst úr honum. Auk útgáfu Rasks verður fjallað stuttlega um útgáfur Finns Jóns-sonar og Anthony Faulkes. Eins og Rask lögðu Finnur og Faulkes texta Konungsbókar til grundvallar en þeir höfðu mismunandi viðmið um það hvenær leiðrétta ætti textann eftir hinum handritunum. Finnur lagði til grundvallar ættartré handrita sem veitt gæti að nokkru leyti sjálfvirka aðstoð til að leiðrétta textann. Faulkes taldi hins vegar óráð að leggja stemma til gundvallar og taldi að best væri að leiðrétta textann aðeins þar sem texti aðalhandritsins hefði ekki skynsamlega merkingu. Hvorugur fylgdi þó sinni yfirlýstu aðferð út í æsar enda hafa þær báðar kosti og galla.
Síðan 2016 hef ég stýrt rannsóknar- og útgáfuverkefni um Konungsbók Snorra-Eddu. Í erindinu greini ég frá sumu af því sem ég hef orðið vísari og því sem mér þykir enn vera ógert í textafræði Snorra-Eddu.
Katrín Axelsdótir: Breytt hlutverk nokkurra óákveðinna fornafna
Óákveðin fornöfn sem þýða má með ensku fornöfnunum some, any og no (og öðrum áþekkum) eru áhugaverður hópur orða. Tvennt við þessi fornöfn er einkum athyglisvert. Í fyrsta lagi er innbyrðis afstaða þeirra (eða hlutverkadreifing) gríðarlega mismunandi milli mála og í öðru lagi er þessi afstaða mjög óstöðugt fyrirbæri. Fram á þetta sýndi Martin Haspelmath (1997) í yfirgripsmikilli rannsókn þar sem borin voru saman með tilliti til þessa fjörutíu tungumál, þar á meðal íslenskt nútímamál. Samanburðurinn byggist á myndrænni framsetningu níu hlut-verka fornafna: hlutverk 1: tiltekið og þekkt (e. specific, known), hlutverk 2: tiltekið og óþekkt (e. specific, unknown), hlutverk 3: óraunverulegt og ótiltekið (e. irrealis, non-specific), hlutverk 4: spurning (e. question), hlutverk 5: skilyrði (e. conditional), hlutverk 6: óbein neitun (e. indirect negation), hlutverk 7: bein neitun (e. direct negation), hlutverk 8: samanburður (e. comparative), hlutverk 9: valfrelsi (e. free-choice).
Í fyrirlestrinum verður rannsókn Haspelmath stuttlega reifuð, mat lagt á greiningu hans á íslensku og hún endurskoðuð. Þá verður nálgun hans beitt til að kortleggja hlutverkadreifingu fornafnanna nokkur, einhver, neinn og engi (nú enginn) í forníslensku og hún borin saman við nú-tímamál. Samanburðurinn leiðir í ljós að allmargt hefur breyst: notkunarsvið nokkur, neinn og engi(nn) hefur dregist saman, svið einhver er nú svolítið annað en áður og tíðni þess fornafns hefur snaraukist í ýmsum hlutverkum. Þá hefur komið upp verkaskipting nokkur og einhver í spurnarsetningum og jafnvel líka skilyrðissetningum (einhver er notað ef væntingar eru jákvæðar eða hlutlausar en nokkur ef þær eru neikvæðar) en þessarar verkaskiptingar gætti ekki í fornu máli.
Kristján Árnason: Um banamein tungumála
Tungumál sem hverfa úr þessum heimi þegar síðustu málhafar þeirra gefa upp öndina eru í útrýmingarhættu. Engar nýjar kynslóðir læra þessar tungur í æsku og hafa sem móðurmál. Oft eru þessi deyjandi mál án rithefðar, og vitneskja um þau varðveitist helst í lýsingum mál-fræðinga og mannfræðinga sem sýna formi þeirra og arfleifð áhuga. Þau verða að öðru leyti heiminum gleymd. Íslenska er ekki í þessari stöðu; samt hafa menn spáð dauða hennar. Rasmus Kristján Rask spáði því að danska tæki við af íslensku eftir þrjú hundruð ár frá spádómsdegi, og Eiríkur Rögnvaldsson hefur varað við stafrænum dauða hennar. Þriðja dauðaspáin sem ég mun ræða hér er verk Eggerts Ólafssonar Sótt og daudi Islenzkunnar, hinnar afgömlu móður vorrar; í tveimur kvæðum framsett. Áhugaverður munur er á dauðaspánum þrem. Annars vegar spá Rask og Eiríkur ósigri gagnvart erlendum innrásaraðila, dönsku ellegar ensku. Eggert lætur tunguna hins vegar veslast upp og deyja af innanmeini vegna lélegrar málnotkunar barna sinna. Eiríkur og Rask horfa sem sé á stöðuvanda, en Eggert á form-vanda. Í kvæðinu lýsir Eggert því hvernig tungan veslast upp og deyr af iðrameini. Á bana-beði segir hún fyrir um útför sína. Þegnarnir skuli flá hana og gera sér mat úr innvolsinu. Úr skinninu eru gerðar trumbur sem slegnar eru í útfararveislunni, sem fer fram með miklum „hátíðarbrag“.
Jón Axel Harðarson:Um meinta hljóðbreytingu kwe > ko í norrænu og frumgermanska fyrirrennara íslensku orðanna koma og kona
Samkvæmt hefðbundinni skoðun eru norrænu orðin koma og kona komin af frumgermönskum myndum með hvarfstigi rótar. Tilsvarandi orð í gotnesku, qiman og qino, sýna hins vegar e-stig sömu róta. Í seinni tíð hafa sumir fræðimenn gert því skóna að norrænu orðin séu komin af sömu frumgermönsku myndum og hin gotnesku; hefur sú kenning verið sett fram að í nor-rænu hafi kwe sætt kringingu og orðið að kwo sem síðar hafi breyst í ko. Í fyrirlestrinum verður mat lagt á þessa kenningu.
Svavar Sigmundsson: „því eigum við sjálfir að skemma ockar túngumál og gjöra háð að sjálfum oss ?“ – Rask og málhreinsunarstarf hans
Rasmus Rask hóf að stunda málhreinsun móðurmáls síns, dönskunnar, þegar 1806 þá 19 ára. Hann komst snemma á þá skoðun eftir að hann kynntist íslensku að hún yrði að forðast að taka upp orð úr erlendum málum. Rask leit á Ludvig Holberg sem fyrirmynd þeirra sem vildu skrifa vandað mál og læsilegt. Hann áleit að Íslendingar þyrftu á slíkum manni að halda sem gæti endurskapað íslenska ritmálið með góðum stílshætti og hugsaði sér að Grímur Jóns-son síðar amtmaður gæti verið sá maður. Rask hvatti hann til að rita á íslensku og verða þannig föðurlandi sínu að gagni. Fyrsta bókin sem hið nýstofnaða íslenska Bókmenntafélag gaf út og að frumkvæði Rasks var Almenn jarðarfræði og landaskipan eður geographia sem út kom 1821-1827. Grímur hafði tekið að sér að skrifa fyrsta hluta ritsins og vann við það á árunum 1817-19 en það ár flutti hann til Íslands. Hann afsalaði sér þá verkinu og sömdu Þórður Sveinbjörnsson síðar dómstjóri og Gunnlaugur Oddsson dómkirkjuprestur það sem eftir var. Grímur taldi sig ekki kunna málið nægilega vel eftir langdvalir erlendis til þess að skrifa það svo hreint að til fyrirmyndar væri. Allmikil bréfaskipti urðu á milli Rasks og Gríms um landafræðina og kortin sem fylgdu og verður rakið nokkuð af skoðanaskiptum þeirra um málið en hugmyndir Rasks um málhreinsun koma þar skýrt fram.
Þorgeir Sigurðsson: Rasmus Kristian Rask og Arinbjarnarkviða
Í ritgerð sinni árið 1818 um norræna fornmálið [1] lagði Rask til leiðréttingu á texta Arin-bjarnarkviðu 8.5–8.8 sem var: ok sá muðr es mína bar hefð fyrir hilmis kné. Rask lagði til að í stað hefð kæmi nafnið á kvæðinu hǫfuðlausn. Öllum hefur litist vel á þessa leiðréttingu. Í fyrirlestr-inum fer ég yfir þau sterku rök sem eru fyrir því að leiðrétting Rask sé réttmæt. Í útgáfu sinni sama ár á málfræðiritgerðum í Wormsbók [2] skrifaði Rask í neðanmálsgrein að línuparið: í herská hilmis garði kæmi úr Arinbjarnarkviðu. Útgefendum kviðunnar hefur ekki litist jafnvel á þessa tilgátu hans en hér ræði ég hvers vegna þetta gæti verið rétt hjá Rask.
[1] Rask, Rasmus Kristian. 1818a. Anvisning till Isländskan eller Nordiska Fornspråket. Wiborg, Stockholm, bls. 260.
[2] Rask, Rasmus Kristian (ed.). 1818b. Snorra-Edda, ásamt Skáldu og þarmeð fylgjandi ritgjörðum. Rask, Stockholm, bls. 329.
Þórhallur Eyþórsson: Rasmus Rask og almenn málvísindi
Í verðlaunaritgerð sinni (Undersögelse om det gamle nordiske eller islandske Sprogs Oprindelse, 1818) einsetti Rasmus Rask sér að grafast fyrir um uppruna íslensku en lagði í leiðinni grunn að indóevrópskri samanburðarmálfræði. Eins og frægt er var þar m.a. sett fram tilgáta um sam-svaranir á milli samhljóðakerfis germanskra mála og annarra indóevrópskra mála sem síðar fengu nafnið germanska hljóðfærslan. Verðlaunaritgerðin er þó ekki aðeins upphafspunktur samanburðarmálfræði heldur er framlag hennar margslungnara og almennara. Í þessu erindi verður fjallað um þætti í verki Rasks sem hafa almennt gildi fyrir rannsóknir á mannlegu máli, bæði út frá nákvæmum lestri á verðlaunaritgerðinni sjálfri og umfjöllun annarra fræði-manna, einkum Holgers Pedersens (1931, 1932). Hér er tekið undir með Pedersen sem taldi að fyrsti kafli ritgerðarinnar væri frumlegasti hluti hennar því að þar væri í fyrsta sinn gerður greinarmunur á fræðilegum og hagnýtum röksemdum í málvísindum. Í fræðilega hlutanum er sett fram rannsóknaráætlun til að tryggja að hægt sé að bera saman það sem er sambærilegt í tungumálum, en hagnýti hlutinn hefur að geyma lýsingu á einstökum tungumálum í samræmi við markmið höfundar. Eitt merkilegasta atriðið í þessu samhengi er sá greinarmunur sem hér er gerður á lýsandi umfjöllun um tungumál annars vegar og almennari hugmyndum um eðli tungumálsins hins vegar. Til viðbótar því sem hér hefur verið rakið verður farið í saum-ana á röksemdum Pedersens um önnur aðferðafræðileg nýmæli hjá Rask. Þannig varð Rask fyrstur til að setja þá hugmynd skýrt fram að til að ákvarða skyldleika tungumála væru mál-fræðilegar samsvaranir meginatriði en samsvaranir í orðaforða skiptu síður máli (þar sem orð bærust auðveldlegar frá einu tungumáli til annars en kerfiseiningar). Að auki birtist hjá honum skilningur á ýmsum grundvallaratriðum í málvísindum sem orka „nútímaleg“ á les-andann, svo sem að málblöndun leiði til einföldunar, að orðasafni megi skipta í grundvallar-orðaforða og sérhæfðari orðaforða og að rök séu fyrir því að setja fram almenn – jafnvel algild – lögmál um hljóðbreytingar. Síðast en ekki síst er að nefna stutta en áhugaverða kafla um mál sem ekki teljast til indóeverópsku málaættarinnar: finnsku, grænlensku og basknesku, auk „asískra“ mála (m.a. hebresku og arabísku). Ályktað er út frá umfjöllun Pedersens og annarra fræðimanna að Rasmus Rask sé ekki aðeins frumkvöðull indóevrópskrar samanburðarmál-fræði heldur líka málvísinda í víðtækari skilningi.
1. Ólafsþing var haldið 21. október 2017 í safnaðarheimili Neskirkju
Dagskrá
9:30–10:00 Haukur Þorgeirsson: Afdrif /z/ í vestur-norrænu
10:00–10:30 Auður Hauksdóttir: Íslenska í augum Dana um aldamótin 1800
10:30–11:00 Kristján Árnason: Af signum sérhljóðum og höggnum lokhljóðum
Hlé: kaffi, te og kleinur
11:20–11:50 Guðvarður Már Gunnlaugsson: Nokkur orð um bönd í Konungsbók eddukvæða
11:50–12:30 Teresa Dröfn Njarðvík: Ölvis rímur sterka — aldur og bragfræði
Hádegishlé
13:30–14:10 Jón G. Friðjónsson: Kerfisbundnar breytingar á forsetningum í íslensku
14:10–14:50 Jón Axel Harðarson: ‘Nakinn’ í germönsku og fornnorrænu — (F)ísl. nökkviðr, nökkr, nökkva og nakinn
Hlé: kaffi, te og kleinur
15:10–15:40 Helgi Skúli Kjartansson: Um hugtakið SPROTA hjá goðum og mönnum
15:40–16:10 Aðalsteinn Hákonarson: Gömul regla í nýju kerfi: táknun sérhljóða í forníslenskri stafsetningu
16:10–16:40 Þorgeir Sigurðsson: Persnesk atkvæði í kviðuhætti
Ráðstefnuslit
Útdrættir Erinda (í stafrófsröð)
Aðalsteinn Hákonarson: Gömul regla í nýju kerfi
Þegar fyrst var farið að rita íslensku með latínuletri var sérhljóðakerfi málsins þannig að hverju stuttu sérhljóði samsvaraði langt hljóð með því sem næst sama hljóðgildi, en utan við þetta kerfi hljóðgildissamsvarana stóðu gömlu tvíhljóðin, au, ei og ey. Ein meginregla íslenskrar stafsetningar til forna var að hljóðstafir (sérhljóðstákn) táknuðu hljóðgildi óháð hljóðlengd. Að vísu eru löng sérhljóð stundum aðgreind frá stuttum í fornum handritum, en til þess var notast við stafmerki á borð við brodda eða við tvíritun hljóðstafa. Sjálfur hljóðstafurinn stóð hins vegar fyrir tiltekið hljóðgildi. Þessi meginregla virðist hafa haldið gildi sínu þrátt fyrir miklar breytingar sem urðu á sérhljóðakerfinu á 12. og 13. öld. Á sama tíma áttu sér stað breytingar á stafsetningu sem hægt er að túlka sem birtingarmyndir gömlu meginreglunnar í breyttu kerfi sérhljóða. Í erindinu verða skoðaðar ólíkar breytingar á stafsetningu sem hægt virðist að skýra með tilliti til meginreglunnar um að hljóðstafir tákna hljóðgildi en ekki hljóðlengd.
Auður Hauksdóttir: Íslenska í augum Dana um aldamótin 1800
Á síðari hluta átjándu aldar fóru hugmyndir um þjóðerni að ryðja sér til rúms í Danmörku eins og víðar í álfunni og þar gegndi tungan veigamiklu hlutverki. Dönsk tunga þótti standa höllum fæti, ekki síst vegna mikilla áhrifa frá þýskri tungu og menningu. Margir Danir þóttu jákvæðir í garð þýsku en skeytingarlausir um eigin tungu. Með aukinni þjóðernisvitund fóru Danir að spyrna við fótum og leita leiða til að styrkja dönskuna, m.a. að hreinsa hana af þýskum og öðrum erlendum áhrifum, og jafnframt var lögð áhersla á að finna henni hlutverk á sem flestum sviðum þjóðlífsins.
Við endurreisn danskrar tungu var m.a. horft til íslenskunnar sem fyrirmyndar vegna hreinleika hennar og bent á mikilvægi íslensku fyrir danska málsögu, m.a. hvað varðar merkingu orða og orðasambanda og fyrir orðsifjar. Íslenskar fornbókmenntum nutu mikillar virðingar vegna listræns gildis þeirra og þær gegndu lykilhlutverki fyrir mótun dansks og norræns þjóðernis, enda sóttu mörg höfuðskáld Dana til þeirra efnivið og andagift.
Í fyrirlestrinum verður varpað ljósi á stöðu dönsku í Danmörku um aldamótin 1800 og hvaða hlutverki íslenskan gegndi við mótun dansks þjóðernis. Fjallað verður um jákvæð viðhorf Dana í garð íslensku og hvaða áhrif þau höfðu á stöðu íslensku og dönsku hér á landi. Þá verður skýrt, hvernig styrkari staða dönskunnar í Danmörku varð til þess hvort tveggja í senn að styrkja og veikja stöðu dönsku og íslensku hér á landi.
Guðvarður Már Gunnlaugsson: Nokkur orð um bönd í Konungsbók eddukvæða
Band (abbreviation) er styttingarmerki sem er oftast notað fyrir tvo bókstafi en stundum fleiri og í sumum tilvikum aðeins fyrir einn. Band getur verið smár bókstafur eða titull, sem er skrifaður fyrir ofan annan bókstaf, en getur einnig verið sérstakt tákn sem stendur á skriflínu. Band getur einnig verið punktur á eftir bókstaf eða þverstrik í gegnum hálegg eða síðlegg bókstafs.
Mikið er um bönd og styttingar í miðaldaskrift — og ekki síst í íslenskri skrift. Bönd og styttingar almennt eru af ýmsum toga og má flokka þau á marga vegu. Hreinn Benediktsson flokkar bönd í íslenskri skrift t.d. í fjóra flokka: stýfingu, samdrátt, hástæða bókstafi og sérstök tákn, en Adriano Cappelli flokkar bönd í latínuskrift í sex flokka: stýfingu, samdrátt, styttingarmerki fastrar merkingar, styttingarmerki óskilgreindrar merkingar, hástæða bókstafi og sérstök tákn.
Í fyrirlestrinum verður gefið yfirlit yfir notkun banda í Konungsbók eddukvæða (GKS 2365 4to) og gerð tilraun til að flokka þau á annan hátt en gert hefur verið. Mætti kenna nýju flokkana við grafískt hlutverk, beygingarlega merkingu, fasta merkingu og stýfingu. Einnig verður litið á nokkur handrit frá 12. og 13. öld og athugað hvort þetta nýja flokkunarkerfi við flokkun banda í fleiri handritum en Konungsbók.
Haukur Þorgeirsson: Afdrif /z/ í vestur-norrænu
Frumgermönsk /z/ varð í norrænu að hljóði sem táknað er /R/ og var aðgreint frá upphaflegu /r/. Hið yngra rúnaletur aðgreinir þessi tvö hljóð og í sænsku hélst aðgreiningin alla víkingaöld og fram á 13. öld á Gotlandi. En í vestur-norrænu féllu hljóðin snemma saman. Rúnaristur frá Noregi og Mön sýna að aðgreiningin er horfin þegar á 10. öld. Heimildir frá 9. öld eru rýrar en benda til að aðgreiningin sé þá enn fyrir hendi.
Vitnisburð rúnanna má bera saman við vitnisburð dróttkvæða. Skáld 10. aldar ríma óspart saman /R/ og upphaflegt /r/, t.d. hugstóran biðk heyra í Velleklu en heyra er á gotnesku hausjan og hefur haft /R/ en ekki /r/. Þegar í Haustlöng Þjóðólfs úr Hvini eru fimm dæmi um slíkt rím en kvæðið er venjulega talið frá um 900. En í því sem varðveitt er af verkum Braga Boddasonar eru engin dæmi um að /R/ og /r/ sé rímað saman. Það virðist því líklegt að aðgreiningin hafi enn verið til staðar á dögum Braga, ef til vill um miðja 9. öld.
Vitnisburður rúna og dróttkvæða er í góðu samræmi og ætti það að styrkja trú okkar á hvort tveggja.
Helgi Skúli Kjartansson: Um hugtakið SPROTA hjá goðum og mönnum
Hversu langt má ganga í tilgátum um málsögu til þess að koma í snyrtilega heild þekkingaratriðum af allt öðrum sviðum? Fremur en svara þeirri stóru spurningu verður hún reifuð í erindinu út frá þeirri freistingu fyrirlesara að gefa sér ákveðna merkingarþróun orðsins SPROTI til að koma heim og saman vissum atriðum um goðið Óðin og forna tækni við skógarnytjar.
Í fornum textum eru allvíða nefndir sprotar, stundum sem veldissprotar (þá jafnvel gullsprotar eða tálknsprotar eða úr fílabeini) eða töfrasprotar. Sprota bera t.d. Óðinn sjálfur og fulltrúar hans (Starkaður gamli, Bragi skáld). Getur sproti Óðins verið laufsproti en líka reyrsproti, og má spyrja hvort það tengist reynslu Óðins „er ek í reyri sat / ok vættak míns munar.“
Einnig koma sprotar fyrir í hversdagslegu samhengi, sem göngustafir, barefli eða hluti af húsbúnaði, jafnvel einhvers konar hjalli. En ekki augljóst hvað þeir eiga sameiginlegt með sprotum goðsagna og ævintýra.
Sproti á orðsifjar sem benda til frummerkingarinnar ‘spíra, vaxtarsproti’.
Ástæða er til að benda á sérstaka tegund vaxtarsprota sem mjög kom við sögu skógarnytja á fyrri öldum, m.a. á Norðurlöndum. Það eru teinungar (viðarteinungar eins og Mistilteinn!) sem vaxa upp af stýfðum stofni trjáa, einkum lauftrjáa. Þeir eru ræktaðir með því að stýfa tré með hæfilegu millibili eftir því til hvaða nytja teinungarnir eru. Grannir teinungar eru skornir til að fóðra búféð á laufinu – laufsprotar. Af vissum trjám eru ungir teinungar nógu sveigjanlegir til að flétta með þeim eða binda – þ.e. reyra, reyrsprotar. Gildir teinungar voru (og eru enn í „orkuskógum“ nútímans) hentugasti viðurinn til kyndingar og kolagerðar. Fyrir daga véltækninnar var líka ólíkt hægara að nota teinunga í hvers kyns stangir, prik og handföng en að vinna slíkt niður úr stórviðum – sbr. sprota nokkurn í Flateyjarbók sem „hefti“ voru „skoruð af“.
Nú vildi fyrirlesari mega trúa að á einhverju stigi hafi orðið sproti einkum verið haft um þessa nytsamlegu teinunga af skógartrjám, jafnframt um þær viðjur, stangir eða prik sem úr þeim voru gerð, síðan um sams konar hluti af öðrum efniviði, eins og gullsprota ævintýrakónganna.
Sú niðurstaða kynni jafnvel að gefa vísbendingar um kyn Mistilteins og um setu Óðins í reyrnum. En er hún nægilega undirbyggð sem málsaga?
Jón G. Friðjónsson: Kerfisbundnar breytingar á forsetningum í íslensku
Merking eða vísun forsetninga getur verið nokkuð flókin. Til einföldunar verður hér einungis gert ráð fyrir tveimur þáttum, eigin merkingu (orðfræðilegri merkingu) annars vegar og hlutverksmerkingu hins vegar. Með eigin merkingu er átt við orðfræðilega merkingu forsetninga, t.d. fyrir, eftir, undan, á, í o.s.frv. Með hlutverksmerkingu (e. function) er átt við að fs. geta t.d. vísað til hreyfingar (á/af stað; í/úr stað), kyrrstöðu (dvalar) eða tíma en það sem má kalla afstöðumerkingu en hana má sýna með eftirfarandi hætti (A):
A á undan e-m[tími] á eftir
á eftir [staður] á undan e-m
[staður] undan e-u ➚
Af myndinni má ráða að merking fs./ao. á eftir er tvenns konar eftir því hvort hún vísar til tíma eða staðar (raðar) og sama á við um fs. á undan.
Í erindi mínu mun ég leitast við að sýna með dæmum að kerfi A hafi litið svo út í elsta máli:
B fyrir mér [tími] eftir mér
eftir mér [staður] fyrir mér
[staður] undan e-u ➚
Síðan mun eg sýna að kerfið hafi breyst í grundvallaratriðum og geri ráð fyrir fjórum stigum (ferns konar breytingum). Í öllum tilvikum mun ég tefla fram aldursgreindum dæmum þessu til stuðnings. Ég mun leitast við að varpa ljósi á eðli breytinganna, skýra hvers vegna þær áttu sér stað og hvenær. Fyrsta breytingin undan ➚ > undan ➙ raskaði kerfinu því að með henni féllu saman fyrir ➙ og undan ➙ og olli hún nokkurs konar keðjubreytingu.
C fyrir mér [tími] eftir mér
eftir mér [staður] undan mér
Næstu þrjár breytingar eru í raun bein afleiðing af fyrstu breytingunni. Önnur breyting: fyrir e-m (tími) > undan e-m (tími).
D undan mér [tími] eftir mér
eftir mér [staður] undan mér
Þriðja breyting: eftir (staður) > á eftir:
E undan mér [tími] eftir mér
á eftir mér [staður] undan mér
Fjórða breyting: undan > á undan.
F á undan mér [tími] eftir mér
á eftir mér [staður] á undan mér
Í fimmta og síðasta lagi mun ég leitast við að sýna fram á að breytingaferlinu sé í raun ekki lokið enda megi sjá hvert stefnir og hvers vegna. Þessi fullyrðing verður treyst með dæmum.
Jón Axel Harðarson: ‘Nakinn’ í germönsku og fornnorrænu: (F)ísl. /nökkviðr/, /nökkr/, /nökkva/ og /nakinn/.
Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir forsögu og þróun þessara orða. Nokkur vandamál tengjast hljóðafari og orðmyndun þeirra. Vitnisburður norrænna mála verður borinn saman við vitnisburð annarra germanskra og indóevrópskra mála. Loks verður þróun orðanna rakin frá forsögulegum tímum til fornnorrænu og íslensku.
Kristján Árnason: Af signum sérhljóðum og höggnum lokhljóðum.
Minnisstæð er mér lýsing Helga Guðmundssonar á því þegar Íslendingar vöknuðu upp við það á 13. öld að það voru signir í þeim vókalarnir, en sú breyting og aðrar tengdar ollu usla í rithætti, sem nota má til að tímasetja þær. Önnur breyting olli usla í kveðskap, nefnilega hljóðdvalarbreytingin, sem raunar er flóknara fyrirbrigði en lengi vel var talið, samanber nýlegar athuganir Þorgeirs Sigurðssonar, Hauks Þorgeirssonar og Aðalsteins Hákonarsonar. Enn ein nýjung, flámælið, var „rekin til baka“, en ef hún hefði „runnið sitt skeið“ hefði samruni sérhljóða kallað á ómælda vinnu við stafsetningarkennslu. Í máli samtímans hafa menn veitt athygli nýjung sem felst í því að sérhljóðið /ɛ/ í orðmyndum eins og bless og blettur sígur og breytist í fjarlægara [æ], þannig að sambandið bless við blettina tekur að hljóma líkt og blass við blattina. Önnur nýjung sem virðist sækja á í máli yngri málnotenda er það að fella niður munnmyndun óraddaðra lokhljóða á undan nefhljóði, þannig að orð eins og einn, efni og vegna eru borin fram [eiʔn], [ɛʔnɪ] og [vɛʔna] í stað hins hefðbundna framburðar [eitn], [ɛpnɪ] og [vɛkna]. Þetta hefur stundum verið nefnt höggmæli. Svipað gerist á undan /l/ í orðum eins og efla, regla og varla, þótt það sé e.t.v. ekki eins algengt. Önnur breyting sem kann að vera skyld þessu er það þegar greinismyndir fleirtölu í orðmyndum eins og bækurnar, strákarnir eru bornar fram [paiːkʏnar], [strauːkanir]. Ég mun ræða hljóðkerfislegt eðli þessara fyrirbrigða, velta fyrir mér tengslum þeirra innbyrðis, og hugsanleg áhrif á ritmálið og hefðbundin viðmið um framburð.
Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík: Ölvis rímur sterka: aldur og bragfræði
Ölvis rímur sterka er rímnaflokkur sem aðeins er varðveittur í AM 616 d 4to frá miðri 17. öld og NKS 1133 fol. frá fyrri hluta 18. aldar. Þá er varðveitt brot af síðustu rímu flokksins á einu blaði í Hólsbók, skinnhandriti frá 16. öld. Flokkurinn í NKS 1133 fol. virðist vera afritaður eftir Hólsbók, en mikill munur er á textanum í AM 616 d 4to og NKS 1133 fol. Svo virðist sem rímnaflokkurinn hafi snemma ratað inn í munnlega geymd og tekið þar breytingum, svo á 15. öld hafi verið til tvær ólíkar útgáfur af Ölvis rímum sterka. Síðar, um miðja 17. öld var rímunum snúið yfir í prósagerð, en margt bendir til þess að efnið í rímunum hafi verið til í prósagerð sem nú er glötuð og rímurnar byggðu á. Ölvis rímur sterka er því dæmi um sagnaefni sem færðist úr prósagerð yfir í rímur og svo aftur úr rímum yfir í nýja prósagerð.
Erfitt er að greina aldur rímnaflokka með einhverri vissu, og nánast ógerlegt að ákvarða nákvæman aldur einstakra flokka. Það eru ekki nægar heimildir til þess að skera úr um aldur flokka en vel er hægt að leiða líkur að aldri þeirra og ramma þá inn við ákveðin tímabil með því að skoða bragfræði og málstig rímna ítarlega. Með nákvæmri athugun á texta Ölvis rímna sterka í öllum varðveittum textavitnum gefast margar vísbendingar þess að flokkurinn eigi uppruna sinn á öðru skeiði rímna, og sé ortur í kring um 1400 og líklegst ekki seinna en 1450. Líkast til mætti skipa Ölvis rímum sterka í sess með elstu rímum.
Þorgeir Sigurðsson: Persnesk atkvæði í kviðuhætti
Í grískum og latneskum kveðskap er aðeins gerður greinarmunur á léttum og þungum (stuttum og löngum) atkvæðum en í norrænum og persneskum kveðskap eru þrjár atkvæðagerðir. Segja má að í persnesku og norrænu séu atkvæði með einni móru, tveimur mórum og þremur mórum. Móra er ein lengdareining (eitt stutt samhljóð eða stutt sérhljóð).
Í fyrirlestrinum ber ég saman atkvæðaskiptingar í persneskum og norrænum kveðskap og ég fer yfir reglur um notkun atkvæða í brag. Í umræðu um norrænan brag er deilt um hvernig skipta eigi orðum eins og búa og búra í atkvæði og ég ræði hvernig það deilumál birtist í persneskri braggreiningu.