Mál og saga býður alla velkomna á Ólafsþing fyrsta vetrardag, laugardaginn 25. október nk., í fyrirlestrasal Eddu við Arngrímsgötu.
Ráðstefnan fer nú fram í áttunda sinn og er haldin í samstarfi við Málvísindastofnun Háskóla Íslands.
Dagskrá
9:25–9:30 Þingið sett
9:30–10:00 Haukur Þorgeirsson: Formgerð, fílólógía og félagslegir þættir – þróun hins forna hljóðasambands ‘vá’
10:00–10:30 Jón Axel Harðarson: Um klofningu og stígandi tvíhljóð í fornnorrænu
10:30–11:00 Kaffihlé
11:00–11:30 Helgi Skúli Kjartansson: Bragreglan um „órofinn nafnlið“
11:30–12:00 Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík: Bragfræðileg óregla í miðaldarímum – samsláttur í braghendu og úrkasti
12:00–12:30 Yelena Sesselja Helgadóttir: Um tengsl þulubyggingar við umhverfi þulunnar, eða Fylgni enn óþekk(t)
12:30–13:30 Hádegishlé
13:30–14:00 Þorgeir Sigurðsson: Sagnaforliðurinn ‘of’ í elsta íslensku ritmáli
14:00–14:30 Guðvarður Már Gunnlaugsson: Eru 17 rithendur á íslensku hómilíubókinni? Eða aðeins ein?
14:30–15:00 Aðalsteinn Hákonarson: Textafræði örnefnaskrár
15:00–15:30 Kaffihlé
15:30–16:00 Katrín Axelsdóttir: Hugað að hælibörvum – Lítið eitt um rúnaristuna Qorlortup Itinnera 2 (GR NOR1998;10)
16:00–16:30 Guðrún Þórhallsdóttir: Leikur að orðsifjum – Taumhald, tamning, þamir og þumur í íslensku og færeysku
16:30–17:00 Jón Símon Markússon: Um útjöfnun algengra beygingarvíxla í fleirtölumyndum færeyskra karlkynsnafnorða
17:00 Ráðstefnuslit og léttar veitingar
Allir velkomnir
Útdrættir erinda (eftir stafrófsröð Fyrirlesara)
Aðalsteinn Hákonarson: Textafræði örnefnaskrár
Örnefnasafn Árnastofnunar er heimildasafn um örnefni og er uppistaðan í safninu svonefndar örnefnaskrár. Sumar þeirra skráðu heimildarmenn sjálfir en flestar skráðu örnefnasafnarar eftir heimildarmönnum. Seint á sjöunda áratug síðustu aldar höfðu fengist örnefnaskrár af meginþorra bæja á landinu, yfir 7000 talsins, auk skráa um afréttir og fleira. Var þá ákveðið að beina kröftum í auknum mæli að því að endurskoða og auka við örnefnaskrár sem fyrir voru í safninu. Í kjölfarið hefur stór hluti örnefnaskráa verið endurskoðaður efnislega og einnig hefur stór hluti verið endurritaður án efnislegra breytinga. Er nú svo komið að flestar örnefnaskrár, sem miðlað er til notenda (nú einkum á vefnum nafnið.is), má líta á sem útgáfur á textum handrita (handskrifaðra og vélritaðra) sem hafa verið lögð til hliðar í skjalageymslu.
Í erindinu er fjallað um örnefnaskrá Kasthvamms og Árhvamms (í Reykdælahr. í S-Þing.) sem fyrirlesari bjó til nýrrar útgáfu árið 2023 í samráði við Hallgrím Pétursson frá Árhvammi (1934–2025). Saga skrárinnar er fjölþætt og flóknari en venja er og rannsókn á henni, sem gerð var við undirbúning útgáfunnar, varpar ljósi á sambandið milli útgefinna örnefnaskráa (sbr. nafnið.is) og gagnanna í skjalageymslunni sem eru t.d. frumrit, minnisbækur og eldri útgáfur á örnefnaskrám sem lagðar hafa verið til hliðar.
Guðrún Þórhallsdóttir: Leikur að orðsifjum: Taumhald, tamning, þamir og þumur í íslensku og færeysku
Í grein í Fróðskaparriti 69 (2023) fjallaði Jógvan í Lon Jacobsen um uppruna færeyska nafnorðsins tamarhald og hugsanleg tengsl þess við fær. teymahald og ísl. taumhald. Öll merkja orðin ‚tak, stjórn‘. Fyrri liður orðanna fær. teymahald, ísl. taumhald er fnorr. taumr ‚sá hluti beislis sem haldið er í‘, en fyrri liður orðsins tamarhald er að mati Jógvans óskyldur. Þar sé á ferðinni gamalt færeyskt orð, tomur (einnig tømur), en tilsvarandi orð séu ekki varðveitt í öðrum norrænum málum. Þetta sé kvenkynsorð af flokki ōn-stofna, nf. et. *tama, ft. *tǫmur. Inn í samsetta orðið *tama-hald með eignarfall fleirtölu sem fyrri lið hafi verið skotið r. Orðið *tama taldi Jógvan skylt so. temja (< *tamjan) og lo. tamur. Skýring Jógvans gerir því ráð fyrir að orðin tomur/tømur og tamarhald eigi uppruna í orði sem byrjaði á t á frumnorrænum tíma.
Hins vegar er einnig ástæða til að kanna hvort fyrrgreind orð geti átt frændorð með þ í íslensku af því að frumnorrænt *þ varð að t í færeysku (sbr. þak > tak, þeir > teir). Ef flett er upp í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar (1989) má t.d. finna no. þöm, þum og þuma sem öll merkja ‚rauf, æs‘. Í fyrirlestrinum verður rætt um uppruna þessara orða og hvað þurfi til að tengja þau fær. tomur/tømur og tamarhald.
Guðvarður Már Gunnlaugsson: Eru 17 rithendur á íslensku hómilíubókinni? Eða aðeins ein?
Íslenska hómilíubókin (Isl. Perg. 4to nr 15) í Konungsbókhlöðunni í Stokkhólmi er elsta íslenska handritið sem virðist hafa varðveist nokkurn veginn í heilu líki, en hún er talin hafa verið skrifuð um 1200. Handritið hefur verið gefið út þrisvar sinnum. Fyrsti útgefandinn, Theodor Wisén (1872, 1888a), taldi að það hefði verið skrifað af einum manni, en samtímamaður hans, Ludvig Larsson, (1887, 1888), taldi að það væru a.m.k. þrjár rithendur á því og jafnvel 10 (og hugsanlega 11). Vilhelm Gödel sagði í skrá sinni yfir íslensk og norsk handrit í Konungsbókhlöðunni að 7 manns hefðu skrifað bókina. Annar útgefandinn, Fredrik Paasche (1935), var varkárari og talaði um nokkrar rithendur en nefndi ekki nákvæman fjölda þeirra. Margir fræðimenn töluðu um nokkrar eða margar rithendur en nefndu yfirleitt ekki ákveðinn fjölda. Börje Westlund (1974) komst að þeirri niðurstöðu að rithendurnar væru 12, en Eva Rode (1974) fann 14 hendur. Fræðimenn eru ekki aðeins ósammála um fjölda rithanda, heldur einnig um hvar skil frá einni hönd til annarrar er að finna, þannig að ef öll rithandaskil, sem hafa verið nefnd, eru talin gæti fjöldi rithanda verið allt að 17. Síðasti útgefandinn, Andrea de Leeuw Van Weenen (1993), segir hins vegar að hún hafi tilhneigingu til að vera meira og meira þeirrar skoðunar að aðeins einn skrifari hafi verið að verki.
Í þessum fyrirlestri mun ég íhuga hvers vegna fræðimenn hafa komið með svo ólíkar skoðanir á því hversu margar hendur eru í íslensku hómilíubókinni og reyna að finna rökin fyrir skilunum frá einni rithendi til annarrar. Einnig velta vöngum yfir hvort aðeins einn skrifari hafi skrifað bókina.
Haukur Þorgeirsson: Formgerð, fílólógía og félagslegir þættir – þróun hins forna hljóðasambands ‘vá’
Alþekkt er að hljóðasambandið sem í samræmdri stafsetningu fornri er ritað vá hefur í flestum tilfellum orðið að vo í nútímamáli. Um eðli þessarar breytingar setti Hreinn Benediktsson fram sannfærandi kenningu en samkvæmt henni felst breytingin í því að sérhljóðið í þessu sambandi var endurtúlkað. Fyrst tvíhljóðaðist á víðast hvar úr [ɔː] í [auː] en viðhélt einhljóðsframburðinum í hljóðasambandinu vá. Við hljóðdvalarbreytinguna varð lengd sérhljóða síðan stöðubundin og rann þá sérhljóðið í sambandinu vá saman við hið forna o.
Ég tel að kenning Hreins sé rétt. Eigi að síður er hægt að bæta verulega við hans greiningu með því að nálgast viðfangsefnið frá öðrum sjónarhóli. Hreinn skrifaði í anda formgerðarstefnunnar og leitaðist við að skýra þau gögn sem hann vann með út frá kenningum sínum um sérhljóðakerfi íslensku og sambandi eininganna innan þess kerfis. Markmið mitt er hins vegar að fylla inn í myndina annars vegar frá fílólógísku sjónarmiði og hins vegar frá samfélagslegu sjónarmiði. Ég hef gert nýja könnun á heimildunum sem við höfum og leitast við að setja mig í spor þeirra málnotenda sem sköpuðu þær heimildir. Ég spyr þá að því hvaða þættir – til viðbótar við sjálfar málbreytingarnar – stýri því hvernig gögnin líta út.
Þau gögn sem hér eru greind skiptast í tvo flokka – annars vegar stafsetning og hins vegar kveðskapur. Fyrst er hér farið í saumana á íslenskri stafsetningu frá 14. öld og fram á 17. öld, með áherslu á dagsett skjöl. Síðan er kannað hvernig rími í kveðskap er háttað bæði fyrir og eftir hljóðdvalarbreytingu, einkum hjá rímnaskáldunum. Þessir tveir flokkar heimilda benda á sömu niðurstöður.
Helgi Skúli Kjartansson — Bragreglan um „órofinn nafnlið“
Útgangspunktur er braglína í Bersöglisvísum Sighvats:
Sighvats hugr es hittig (handritin)
Sighvats hugr mun hittask (Finnur Jónsson)
Sighvats es hugr hizig (E. A. Kock)
með rökstuðningi Kari Ellen Gade:
The ms. readings are unmetrical. In a noun phrase consisting of two elements, alliteration cannot fall on the second element without the first element also alliterating.
Kock gerir þó ráð fyrir gildum frávikum frá reglunni, jafnvel hjá Sighvati sjálfum: gaf margan val vargi (og því þá ekki: *mun Sighvats hugr hittask ?), þó hann fylgi reglunni í Hlýð mínum brag, meiðir.
Fyrir utan dróttkvæðar braglínur með þessari ákveðnu hrynjandi er reglan greinilega gild í mestöllum fornum kveðskap. Hana verður að skilja svo að í fornmálinu hafi órofinn nafnliður verið ein framburðarlota með þyngstri áherslu á fyrra/fyrsta orðið.
Út frá því verður rætt um bragfræðilega túlkun nokkurra braglína, m.a.:
Hann sló gull rautt
sem fljótt á litið brýtur bæði gegn braggerðaflokkun Sievers og lögmáli Cragies en gerir raunar hvorugt. Og
Kominn em´k á jó Íva
Þat mælti mín móðir
Esa mér sem tinteini
sem er flókið – ekki þó ómögulegt – að koma heim við þá túlkun á Cragies-lögmáli að fjórða bragstaðan, hér jó, mín og tin-, megi ekki yfirskyggja þá fimmtu.
Til að sú túlkun standist þarf hún að hafa framkallað Craigies-lögmálið á elsta stigi dróttkvæðs háttar. Síðan hafi reglan þróast, farið að leyfa frávik, með þyngri áherslu á fjórðu stöðu en fimmtu, og verið yfirfærð á bragarhætti eins og fornyrðislag og stutta runhendu þar sem fimmta bragstaðan var aldrei til. Þó venja sé að telja dróttkvæðan hátt myndaðan af fornyrðislagi, þá er raunar alveg mögulegt að hið varðveitta sér-norræna fornyrðislag hafi þróast samhliða honum og þegið bragreglur að láni frá honum.
Þar opnast spurning sem reynt verður að reifa fremur en svara um „ættartré“ fornu háttanna og uppruna þeirra í ringulreið „stóra brottfalls“.
Jón Axel Harðarson: Um klofningu og stígandi tvíhljóð í fornnorrænu
Hljóðasambönd sem sett eru saman af hálfsérhljóðinu j [i̯] eða v [u̯] og sérhljóði eru oft kölluð „stígandi tvíhljóð“, sbr. orð eins og jata, bjarg, jǫfurr, fjǫrðr, sjá, trjóm, fjós, bjóða, kljúfa, vara, sverð, vándr, svę́fa, vǫ́n, vín. Stígandi tvíhljóð sem hafa j sem fyrri þátt eru orðin til á ólíkan hátt:
- við klofningu: í áhersluatkvæði gat sérhljóðið e „klofnað“ ef a eða u (sem síðar féll oft brott) fór á eftir í næsta atkvæði. Útkoman var þá ja (a-klofning) eða jo/jǫ (u-klofning). Þetta á t.d. við um orðin jata, bjarg, jǫfurr, fjǫrðr;
- við samdrátt, sbr. sjá, frjá, trjóm, Sjólfr, skjóttr < séa, fría, tréom, Sæulfr/Sæolfr, *skýóttr;
- úr gömlu hnígandi tvíhljóði eu, sbr. bjóða, kljúfa < *beuðan, *kleuƀan.
Þessum stígandi tvíhljóðum er það sameiginlegt að í þeim hefur fyrri þátturinn (j) orðið til úr frammæltu sérhljóði. Þó er sá munur á þeim að í (1) þróaðist stutt sérhljóð á eftir j en í (2) og (3) langt sérhljóð. Í erindinu verður reynt að útskýra þessa ólíku þróun og tilgáta sett fram um þá hljóðkerfislegu ferla sem liggja að baki.
Jón Símon Markússon: Um útjöfnun algengra beygingarvíxla í fleirtölumyndum færeyskra karlkynsnafnorða
Bæði færeyska og íslenska erfðu beygingarvíxl af taginu kk. a-st. nf.ft. hestar ~ þf.ft. hesta, kk. i-st. gestir ~ gesti úr fornvesturnorrænu. Umræddar karlkynsmyndir hafa þó fallið saman í færeysku og eru nú undantekningarlaust samhljóða (e. syncretic), sbr. fær. nf./þf.ft. hestar, gestir. Að öllum líkindum var breytingin um garð gengin um eða upp úr 1900. Fyrir samfallið voru karlkynsmyndir með nf./þf.ft. –ur og allar samsvarandi kvenkyns- og hvorugkynsmyndir samhljóða. Að auki voru samhljóða myndir langtum fleiri en þær sem lutu að víxlum af taginu nf.ft. –ar ~ þf.ft. –a, –ir ~ –i. Í fyrirlestrinum verða færð rök fyrir því að hærri mynsturstíðni (e. type frequency) samhljóma (e. syncretism) í nefnifalli og þolfalli fleirtölu hafi haldist í hendur við nær undantekningarlaust hvarf gamals r úr bakstöðu mynda á borð við fær. kk. nf.ft. hestar, gestir, kvk. nf./þf.ft. myndir, skeiðar, søgur á undan viðskeytta greininum með n-, sbr. fær. (borið fram) hestarnir hestarnir [hɛstanɪɹ], gestirnir [͡tʃɛstɪnɪɹ] myndirnar [mɪntɪnaɹ] o.fl. Við ofangreint hvarf r í færeyskum karlkyns a– og i-stofnum fór ein óákveðin fleirtölumynd með –r, sbr. nf.ft. hestar, að víxlast á við þrjár r-lausar myndir, sbr. þf.ft. hesta, nf.ft.mgr. hestarnir [hɛstanɪɹ], þf.ft.mgr. hestanar; sömuleiðis gestir : gesti, gestirnir [͡tʃɛstɪnɪɹ], gestinar. Við sömu breytingu eignuðust kvenkynsorð aftur á móti tvær samsvarandi og samhljóða óákveðnar myndir með r á móti tveimur án r, t.d. nf./þf.ft. myndir : nf./þf.ft.mgr. myndirnar [mɪntɪnaɹ]. Eftir hvarf r á undan greininum taka færeysk hvorugkyns ija-stofna og an-stofna orð upp r í óákveðnum fleirtölumyndum, t.d. nf./þf.ft. dømir (eldra dømi), sbr. ísl. dæmi; nf./þf.ft. eygur (eldra eygu), sbr. ísl. augu. Við þessa breytingu er andstæðunni milli tveggja óákveðinna fleirtölumynda með r annars vegar og tveggja ákveðinna mynda án r hins vegar nú dreift –– þó nokkuð ójafnt –– yfir nafnorð af öllum þremur kynjunum, t.d. kk. nf./þf.ft. føtur : nf./þf.ft.mgr. føtu_nar; kvk. myndir : myndi_nar; hk. dømir : dømi_ni, eygur : eygu_ni. Sýnt verður fram á að há mynsturstíðni samhljóma, auk dreifitíðni (e. dispersion) nýju andstæðunnar milli r og r-leysis í fleirtölumyndum orða af öllum þremur kynjum stuðlar að samfalli r-lausu myndanna í þolfalli fleirtölu við nefnifallsmyndina með r og þar með undantekningalausum samhljóma nefnifalls og þolfalls fleirtölu í færeyskum nafnorðum. Undir þetta ýtti hinn litli hljóðfræðilegi munur sem var á greinislausum nefnifalls- og þolfallsmyndum í fleirtölu karlkynsorðanna, sbr. nf.ft. hestar og hesta, sömuleiðis gestir og gesti.
Katrín Axlsdóttir: Hugað að hælibörvum – Lítið eitt um rúnaristuna Qorlortup Itinnera 2 (GR NOR1998;10)
Grænlenskar rúnaristur eru ekki ýkja margar í samanburði við þann fjölda sem fundist hefur í Skandinavíu. Á vefnum Rundata.info eru þær rétt rúmlega hundrað (sænskar ristur eru þar hátt í 4000). Flestar grænlensku risturnar eru stuttar og margar eru mjög skaddaðar og því torráðnar. Frá þessu eru þó undantekningar, t.d. áletrun á kefli sem fannst við uppgröft í lok síðustu aldar við bæinn Qorlortup Itinnera (Eystribyggð, nærri Brattahlíð), GR NOR1998;10. Rúnir eru á báðum hliðum keflisins, tæplega 50 á hvorri hlið, og flestar þeirra ágætlega læsilegar. Engin orðaskil eru þó sýnd og textinn því nokkuð óljós. Hér hafa menn samt talið sig greina kveðskap og þar með fyrstu heimildina um ritaðan norrænan kveðskap á Grænlandi. Þarna er enda að finna orðið hœlibǫrr, orð sem kemur fyrir í lausavísu eignaðri Íslendingnum Hásteini Hrómundarsyni (10. öld) en fyrri hlutinn hljóðar svo: Hér megu hœlibǫrvar / hljóms daltangar skjóma / dýrs hvat drýgðu fjórir / dags verks séa merki (Hér megu séa merki dags verks daltangar, hvat fjórir hœlibǫrvar dýrs skjóma hljóms drýgðu; Skjaldedigtning BI:91). Orðið hœlibǫrr kemur annars hvergi fyrir annars staðar. Í vísunni vísar það til manns (bǫrr merkir‛tré’ en er notað í ýmsum mannskenningum í skáldskap, s.s. auðs bǫrvar og baugs bǫrvar; fyrri liðurinn hœli– er talinn skyldur sögninni hœla ‛hrósa’) og með kenningunni skjóma hljómr (‛orrusta’) er þetta þá ‛stríðsmaður’.
Í erindinu verður rætt um hœlibǫrr og önnur orð sem hugsanlega má lesa í Qorlortup Itinnera 2, aldur ristunnar og málstig. Þá verður ræddur sá möguleiki að í áletruninni sé eitthvað annað á ferðinni en kveðskapur.
Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík: Bragfræðileg óregla í miðaldarímum: samsláttur í braghendu og úrkasti
Þegar kemur að aldursgreiningu rímna hafa sumir fræðimenn bent á bragfræðilega óreglu til marks um háan aldur rímnaflokka (e.g. óreglulegur ferskeyttur háttur Sörla rímna). Í rímum fyrir 1600 eru nokkur dæmi um bragfræðilega óreglu, þar sem samsláttur á bragarháttum innan rímu virðist ekki hafa talist skipta háttum og/eða ekki álitinn vera braglýti fyrr en á seinni tíð. Oft er því slegið fram að í elstu rímum komi slíkur samsláttur hátta fyrir eða þá á elsta skeiði rímna. En getur slík bragfræðileg óregla í raun verið aldursgreinandi og á hvaða tímabili er slíkur samsláttur algengur?
Braghendan er elsti þríkvæði hátturinn en í miðaldarímum eru þó dæmi um að braghendu og valhendu sé slegið saman, en hættirnir eru keimlíkir. Í braghendu eru öll vísuorð óstýfð meðan í valhendu eru öll vísuorð stýfð. Í alls 9 rímum, í 7 rímnaflokkum er þessum tveim háttum slegið saman og virðist ekki vera gerður greinamunur á háttunum.
Það sama á við um úrkast, sem er eitt elsta afbrigði ferkvæða háttarins. Í reglulegu úrkasti eru frumlínur ýmist stýfðar eða óstýfðar meðan síðlínur eru ávallt óstýfðar. Í eldri rímum er ekki gerður greinamunur á reglulegu úrkasti og frumstýfðu úrkasti, og standa afbrigðin þar í frjálsri dreifingu. Það kemur þó fyrir í miðaldarímum að úrkasti er blandað saman við dverghendu – sem er eins og úrkast nema að þar eru síðlínur stýfðar. Séu öll vísuorð stýfð er hátturinn frumstýfð dverghenda. Í miðaldarímum eru dæmi um að úrkasti og dverghendu, jafnvel frumstýfðri dverghendu, sé slegið saman í alls 8 rímum í jafnmörgum rímnaflokkum.
Hér er ætlunin að skoða nánar þau tilvik þar sem braghendu og valhendu eða úrkasti og dverghendu er slegið saman og athuga hvort slík bragfræðileg óregla geti verið aldursgreinandi.
Yelena Sesselja Helgadóttir: Um tengsl þulubyggingar við umhverfi þulunnar, eða Fylgni enn óþekk(t)
Greint verður frá tilraun minni til að komast með reikniaðferðum að því hvort og þá hversu mikið bygging þulu tengist umhverfi hennar, eða ytri aðstæðum. ‚Þulubygging‘ er í þessu samhengi samsetning þulunnar, þ.e. hvaða textabútar mynda þulu og í hvaða röð þeir koma. Með ‚umhverfi‘ þulu eða ‚aðstæðum‘ er átt við hvar og hvenær þulan var skrifuð niður eða tekin upp, hvenær heimildarmaður hennar fæddist eða hvar hann var uppalinn eða búsettur á fullorðinsárum, jafnvel hvert kyn eða starf hans var. Áður en ég hóf tilraunina hafði ég fundið nokkur tilbrigði sem tengdust einhverju svæði á landinu og nokkrar byggingareiningar sem virðast einkum hafa verið til á einhverri ákveðinni öld. Ég reiknaði því með ákveðinni fylgni milli þulubyggingar og a.m.k. einhverra þátta í umhverfi þulna.
Aðferðin byggist á mælanlegri textafjarlægð, en reiknaður er fylgnistuðull á milli tveggja fjarlægðarfylkja (e. distance matrices), annars sem lýsir þulubyggingu og hins sem lýsir umhverfi þulutextanna. Í Þórnaldarþulu, sem varð fyrir valinu, kóðaði ég byggingu hvers texta með bókstöfum (hver bókstafur táknaði sína textablokk, þ.e. tiltölulega stöðugan, þó ekki tilbrigðalausan þulukafla). Aðstæður þulna kóðaði ég með tölustöfum og merkinu ‚?‘ (=óþekkt). Þessir tveir kóðar voru síðar meðhöndlaðir sem textastrengir. Á grundvelli strengjanna voru reiknuð Hamming-fjarlægðarfylki og á milli fylkjanna var reiknaður fylgnistuðull Pearsons. Sama ferli var síðar endurtekið til að fá fylgnistuðul Pearsons fyrir hvern þátt í umhverfi þulna sér í lagi. Fylgnistuðullinn reyndist ávallt – og óvænt – vera mjög lítill. Sömu sögu var að segja frá öðrum þuluflokki, Heyrði ég í hamrinum, sem ég notaði sem samanburðarhóp.
Nýlega endurtók ég tilraunina en reiknaði fjarlægðarfylki út frá heildartextum þulnanna (en ekki kóðaðri byggingu þeirra). Þá gefur sama aðferðin nokkuð frábrugðnar niðurstöður sem verður greint frá í erindinu.
Þorgeir Sigurðsson: Sagnaforliðurinn ‘of’ í elsta íslensku ritmáli
Í fornum textum, fram til um 1225, var að finna torskilið smáorð, of, framan við sagnir. Árið 1929 hélt Hans Kuhn því fram að þetta smáorð breytti sögninni þannig að í stað þess að hún lýsti verknaði sagnar lýsti hún möguleika á verknaðinum. Hann benti á sams konar smáorð í fornri grísku. Aðrir hafa ekki tekið undir þetta með Kuhn, fyrr en dr. Þorgeir Sigurðsson gerði það í grein sem birtist á þessu ári í septemberhefti Beiträge zur Geschichte der deutschen Sprache und Literatur (PBB). Í greininni er farið yfir rök Kuhn og bætt við þau. Í fyrirlestrinum er þessu lýst. Eins og gildir um gríska smáorðið er íslenska smáorðið helst notað í tilteknum gerðum setninga. Í íslensku fornmáli er það í setningum þar sem merkingargreinandi munur er mestur á því að verknaður sé framkvæmdur og að hann sé mögulegur. Kuhn lýsti þremur gerðum slíkra setninga en í greininni er þeirri fjórðu bætt við. Þetta verður til þess að í 90 prósent tilvika er umrætt smáorð í slíkum setningum. Þar að auki er bent á að smáorðið er aldrei haft framan við sagnir í þátíð. Í þriðja lagi er sýnt hvernig megi umorða setningar með umræddu smáorði þannig að merkingin komist til skila, án þess að nota of.
Dæmi með of úr Hómilíubókinni;
að aldregi of es réttlátur, nema þolinmóður sé.
Merkingin er: að sá getur ekki verið réttlátur sem ekki er þolinmóður
Til skýringar á þessu segir:
Því að oft er annars fús en réttast of skilur vera og þarf af því þolinmæðina með réttlætis viljanum á móti fýstar viljanum röngum.
Merking er hér: því að oft er maður fús að gera það sem maður getur skilið að er ekki réttast og þess vegna þarf þolinmæðina ásamt réttlætis viljanum á móti röngum fýsnar viljanum.